06.03.1962
Efri deild: 57. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta er nú mikill lagabálkur og ekki fljótskoðaður. Sá tími, sem fjhn. hafði yfir að ráða til endurskoðunar á frv., var auðvitað of stuttur, eins og hv. frsm. meiri hl. gaf líka í skyn, of stuttur til þess, að verulega sé hægt að ganga til hreins um það, að misræmi sé ekki á og ákvæði í frv., sem hægt sé að túlka á ýmsa vegu. Fjhn. hélt allmarga fundi, og hún fékk á fund sinn skattstjórann í Reykjavík og fleiri til þess að gefa upplýsingar um einstök atriði og þann skilning, sem líklegt væri að yrði í þau lagður. Mætir menn hafa unnið að smíði frv., en samt virðist mér yfirleitt ekki nógu vel frá gengið eða ljóst. Slíkt er auðvitað lengi hægt að segja. Það finnst mér m.a. á skorta, að grg. sé nægilega ýtarleg. Oft getur merking í frvgr. orkað tvímælis, en grg. tekið af tvimælin. Mér finnst grg. með þessu frv. ekki gera það nægilega víða. Enn er eitt, og það er það, að gert er ráð fyrir því, eða maður heyrir það, að til standi, að fram komi frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Og eins og hv. frsm. meiri hl. drap á í sérstöku sambandi, sem ég kannske kem að síðar, þá skiptir það miklu máli, þegar meta á skattþol borgara þjóðfélags, hvað sameiginlegir skattar bæði til sveitarfélaga og ríkis eiga að vera. Hér er aðeins talað um skattþungann handa ríkinu.

Fjhn.- menn komu sér saman um 19 till. til lagfæringar á frv. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, eru sumar þessar till. við greinar, sem ég vil fella niður, en hins vegar tel ég, að till. séu til bóta, ef mínar niðurfellingartillögur ná ekki fram að ganga, og þess vegna tók ég þátt í að flytja þær með öðrum nm. Ein þeirra tillagna er þó þannig, að mér finnst tæplega hafa náðst í henni það orðalag, sem tryggir réttan skilning, og þess vegna vil ég vinsamlegast mælast til þess við hv. formann fjhn., að hann taki till. aftur við þessa umr., svo að gefist kostur á að athuga orðalagið betur. En þetta er 5. till. Það var samkomulag í n. um till. efnislega, en orðalagið var ekki frágengið í n., og ég átti ekki kost á því þess vegna að vera við orðun tillögunnar. Þetta eru aðeins vinsamleg tilmæli.

Fjhn. klofnaði þannig, að meiri hl. skipa þrír stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., en við stjórnarandstæðingarnir tveir erum hvor með sinn minni hl. og sín álit og sínar till., eins og hér er fram komið. Það, sem greinir á í fjhn., er fyrst og fremst stefnumunur. Og út frá því ber að líta á till. þær, sem fram eru komnar frá mér a.m.k. um breyt. á frv.

Það virðist nú hafa gripið þá, sem hafa meiri hl. í stjórn landsins, þá sem styðja þann stjórnarmeirihluta, mikill áhugi á því að koma framlögum til ríkisins í neyzlugjöld, koma þeim þannig undir huliðshjálm óbeinna skatta. Gjaldendur ýfast síður gegn þeim sköttum á gjalddögum, af því að þeir sjá þá ekki sérstaklega í verði vöru og viðskipta, sem þeim er blandað inn í. Þetta er sálrænn kostur óbeinna skatta, og það má vera, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar telji sér nauðsynlegt að nota slíka kosti, þó að þeim fylgi hins vegar sterkir gallar. Þessir óbeinu tollar taka sinn skerf úr seðlaveskinu og valda þar miskunnarlausum tómleika í skjóli eða nafni nauðþurftanna. Þeir leggjast, sem sé oftast á fólk í öfugu hlutfalli við gjaldþol þess, það er þeirra mikli galli og raunar óþolandi galli, þegar þeim er sterklega beitt. Þeir eru ríkum yfirleitt í vil, en fátækum eru þeir mótlæti að sama skapi og auka efnamuninn í þjóðfélaginu.

Þess má sjá glögg dæmi, að það er rétt, að núv. hæstv, ríkisstj. er ákaflega hneigð fyrir að koma gjöldum til ríkisins fram með óbeinum sköttum. Ef við athugum fjárlögin frá 1958, þ.e. árið næst áður en núv. stjórnarfl.- tóku höndum saman, Þá er sá liður þar, sem heitir skattar og tollar, samtals 623 millj. kr., en í núgildandi fjárlögum 1431 millj. Munurinn er 808 millj. kr., hækkunin nokkru meira en tvöföldun, eða í raun og veru yfir 130%. Á sama tíma hefur tekju- og eignarskattur farið úr 118 millj. kr. niður í 95 millj. kr. eða lækkað, þrátt fyrir heildarhækkun skattanna, lækkað um 23 millj. kr. Þetta sýnir ákaflega glöggt, í hvaða átt hæstv. ríkisstj. ekur, og frv., sem hér liggur fyrir, er framhaldsakstur á sömu leið.

1940–1950 var Sjálfstfl. við stýrið í fjármálunum, hann lagði Þessi ár til fjmrh. í ríkisstj. Þá stigu skattar hlutfallslega hæst, eða lögðust þyngst á, og þá var mjög beitt beinum sköttum. Árin 1950–58 voru skattar með setningu 8 laga færðir til lækkunar, eins og ég hef rakið í nái. mínu. Þetta var mikill mokstur frá dyrum. Árið 1958 var félagaskattur stórlega lækkaður, stighækkuninni breytt í eina skattpersónu, sem nú gildir og er 25% af skattskyldum tekjum. Hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) sýndi með tölulegum samanburði við 1, umr., að þessi skattur á félögum er lægri en í nágrannalöndum. Hvers vegna á þá að lækka hann enn þá meira? Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi, að Þessi samanburður mundi vera réttur tölulega. Hins vegar sagði hann, að samanburðurinn væri ekki tæmandi vegna þess, að gjöld til sveitarsjóðanna væru ekki tekin með í samanburðinn og mest ylti á gjöldunum samanlögðum.

Ég hef ekki haft aðstöðu til að athuga þetta, enda ekki gefizt tilefni til þess af hálfu hæstv. ríkisstj., vegna þess að hún hefur dregið aðleggja fram það frv., sem þó hefur verið boðað um tekjustofna sveitarfélaga. Þegar þar að kemur, þá er sjálfsagt að athuga slíkt. En þessum rökum verður ekki með þægilegu móti vísað frá af þeim, sem flytja þetta frv., eins og í pottinn er búið. Ástæðan fyrir flutningi þessa frv., þrátt fyrir það að skattprósentan sé ekki hærri en hún er, virðist vera sú stefna að vilja létta beina skatta, því að ekki er um það að ræða, að heildargjöld eigi að lækka. Og þegar ár frá ári hækka álögur til ríkissjóðs, þá verður afleiðingin af lækkun félagaskatts vitanlega hækkun neyzluskatta enn.

Hæstv. fjmrh. talaði um Það við 1. umr., þegar hann fylgdi frv. úr hlaði, að vegna lækkunarinnar mundi betur verða talið fram og þar af leiðandi, skildist manni, að ekki væru líkur til Þess, að tekjur ríkisins af félagaskatti mundu minnka. Þetta er nú eins og óskadraumur í raun og veru, sem lítið mark er á takandi, fyrr en reynslan kemur til sögunnar. En heldur er það skrýtin sálfræði, að sá, sem hefur svikið skatt, telji betur fram til að greiða skattinn en hann hefur gert, — hann telji betur fram til að greiða sama skatt eða meiri en hann hefur gert, þegar skattprósentan lækkar. Ég held, að það sé ekki í samræmi við mannlega náttúru að reikna með slíku. Ég fyrir mitt leyti tel enga ástæðu til að lækka skattprósentuna úr 25% ofan í 20%. Hins vegar er ég ekki mótfallinn rýmkun á fyrningarafskriftum og hækkun á skattfrjálsu varasjóðstillagi og lengingu tap frádráttartíma. Ég tel, að þetta veiti félögunum starfsöryggi og þeim gangi betur að byggja sig upp til áframhaldandi starfsemi og það sé ákaflega mikils vert. En þegar þannig er búið að þeim við undirbyggingu skattframtals, tel ég þau geta greitt 1/4 af gróða sínum í skatt. enda þjóðfélagið svo hlaðið óbeinum sköttum, eins og ég tók fram áðan, að ekki sé á bætandi slíkt álögufargan. Tillaga, sem ég flyt á sérstöku þskj., er um það, að skattgjaldið standi óbreytt, Það er 2. till, á Þskj. 342.

Frv. gerir ráð fyrir auknum varasjóðshlunnindum til venjulegra félaga, hlutafélaga o.s.frv. Nú hafa þau 1/5 skattfrjálsan af hreinum tekjum, ef þau leggja þetta hlutfall í varasjóð. Skv. frv. eiga þessi hlunnindi að færast upp í 1/4. Félög, sem hafa sjávarútveg fyrir aðalatvinnurekstur, og samvinnufélög mega leggja 1/3 tekna sinna skattfrjálsan í varasjóði sína, eins og nú standa sakir. En nú ætiar hæstv. ríkisstj. með þessu frv. að minnka rétt þessara félaga, Þau eiga að færast úr 1/3 ofan í 1/4 með rétt sinn. Það á að þrengja þeirra hag, þegar hagur hinna félaganna í Þessu efni er rýmkaður. Rök hv. frsm. meiri hl. um þetta get ég fyrir mitt leyti ekki tekið fullgild. Vitanlega hafa félögin, sem reka útveg, haft meiri frádráttarheimild vegna þeirrar áhættu, sem fylgir útgerð. Þau hafa, eins og rétt er, verið talin þurfa venjulegum félögum fremur að safna í varasjóð. Nú telur hv. frsm. meiri hl., að samræmi sé fyrir öllu í skattálagningu. En hvað er samræmi? Er það ekki samræmi að taka tillit til sérstöðu, ef hún er fyrir hendi? Það er ósamræmi í slíkri starfsemi að gera jafnt undir höfði þeim, sem ekki eru sköpuð til að hafa jafnt undir höfði. Vitað er, að sá félagsskapur, sem hefur fyrir aðalatvinnu rekstur sjávarútvegs, býr við mesta áhættu í rekstri sínum. Sjávarafli er svipull, og margt kemur fleira til greina en aflabrestur í því sambandi. Í grg. frv. er sagt, að það sé búið að gera hlut útgerðarfélaganna svo góðan, að þessara hlunninda þurfi ekki með. En skrýtið er það, að í grg. er ekkert talað um togaraútgerðarfélögin. Líklega hafa þau ekki fauið undir Þessi almennu orð um félögin, sem hafa sjávarútveg fyrir aðalatvinnurekstur.

Samvinnufélög hafa haft Þessi réttindi af því, að þau eru almenningi opin til inngöngu og geta ekki að lögum skipt varasjóði sínum við félagsslit. Þetta tvennt er svo sérstætt fyrir samvinnufélögin, að samræmi næst ekki með því að taka það ekki til greina með skattálagi. Ef samvinnufélagi er slitið, erfir hérað þess varasjóðinn og aðrar óskiptilegar eignir þess. Varasjóðstillög samvinnufélaga eru Þess vegna gjafir til framtíðarinnar. Önnur félög skipta við slit sín varasjóðum sínum til félagsmanna, og eignir þeirra, sameignir Þeirra skiptast og fara til félaganna, þar sem þeir eru búsettir.

Það er umhugsunarvert, að í þessu frv. er eitt af nýmælunum það, að ekki á aðleggja tekjuskatt á gjafir til líknarstarfsemi, til vísindastarfsemi, kirkna o.s.frv., ef Þær eru innan vissra takmarka. Ég er þessu fyllilega samþykkur og tel þetta við eiga. En á sama tíma á að fara að skattleggja harðar en áður gjafir samvinnufélaganna til framtíðarinnar. Ég hef fyrir mitt leyti, á minni ævi, þreifað greinilega á því, hvað samvinnufélög og fyrirtæki, sem stundar verzlun eins og samvinnufélag í öðru formi, eru ólík að gildi fyrir byggðarlög sín, þegar um þessi efni er að ræða. Á minni ævi hefur aðalkaupmannsverzlunin í byggðarlaginu þrisvar sinnum verið seld og mannvirki hennar á staðnum. Í fyrsta skipti var andvirðið flutt til útlanda. í annað skiptið skiptist andvirðið milli erfingja eigendanna, sem áttu heima víðs vegar um land, sumir að vísu á staðnum. í þriðja skiptið, eða árið sem leið, er andvirðið flutt til Reykjavíkur. Þrisvar sinnum á þessu tímabili hefur byggðin þurft að leggja nýtt kapítal í þær eignir, sem þessi verzlun hafði sett upp eða myndað á staðnum. Ef þarna hefði verið um kaupfélag að ræða, hefði ekkert nýtt kapítal þurft til að koma, því að byggðin hefði átt eignirnar.

Ríkissjóður aflar með sköttunum, sem hann er að heimta, fjár til margra hluta, m.a. til stuðnings við uppbyggingu víðs vegar um land. Hann aflar þess m.a. til eflingar jafnvægis í byggð landsins, eins og nú er farið að komast að orði. Samvinnufélögin vinna að sama marki, hvert á sínum stað, sakir sinna óskiptilegu eigna, sem héruðunum eru helgaðar um alla framtíð. Samvinnufélögin létta undir með ríkissjóði til að skapa staðfestu í þjóðfélaginu, létta þjóðfélaginu að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Að sjálfsögðu er þjóðfélaginu skylt að taka tillit til þessa í skattaálögum sínum, annað væri ekki að gæta samræmis, svo að ég noti aftur og enn orð hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar. Það er alls ekki jöfnuður að taka ekki tillit til eðlismunar í þessu efni á hlutafélagi og samvinnufélagi. Það er óréttlæti og ójöfnuður. Og það hlýtur hver maður að skilja og fallast á, sem ekki er haldinn einhvers konar fordómum eða látið hefur hjá líða að skilja, lesa þessa hluti ofan í kjölinn. Ég geri mér þess vegna von um, að þið öll, hér í þessari hv. deild, fallizt á 1. till. mína á því sérstaka tillögu-þskj., sem ég flyt. Hún er um, að óbreyttar haldist varasjóðsheimildir útgerðarfélaga og samvinnufélaga.

Þá á ég eftir að minnast á tillögurnar frá 3 til 6 á þskj., um framkvæmd tekju- og eignarskattslaganna. Þar undir falla 5. 7. kafli frv. og fleiri gr., sem teknar eru upp í till. mína. Ég hef leyft mér í nál. mínu, til að stytta mál mitt, að kalla þau verk, er að framkvæmdinni lúta, einu nafni skattverk, það er hliðstætt í málinu við heyverk, haustverk, vorverk o.s.frv. Það á að leggja niður allar undirskattanefndir og yfirskattanefndir, skipta landinu í 8 skattumdæmi og láta skattumdæmin falla saman við kjördæmin. Líklega á með því að sanna, að kjördæmin geti verið félagsheildir um annað en kjósa þm., það hefur gengið illa hingað til. í skattamálunum er í raun og veru ekkert, sem tengir byggðirnar á þessum svæðum sérstaklega saman. Það er mikið talað um, að þessar breyt. eigi að vera til sparnaðar. Það sýnast mér draumórar. Skv. fjárlögum 1960 er kostnaður við skattverkin utan Reykjavíkur um 3 millj. kr. Mér vex þessi kostnaður ekki í augum, þó að hann sé nefndur í grg. frv., sjálfsagt til þess að vaxa mönnum í augum. Þó að margir taki þátt í þessum störfum nú, og þeir eru taldir í tölum, þá hygg ég, að dagsverkunum fækki ekki, þó að forminu sé breytt á þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir. Embættum fjölgar og skrifstofubáknum fjölgar. Hið æfða lið, sem talað er um að eigi þarna að vera að verkum, selur sig að sjálfsögðu dýrt, eins og það vafalaust má gera. Varaskattstjórar eða umboðsmenn fara varla með sín störf fyrir lítið við hliðina á skattembættunum eða rétt í næstu tröppu við þau. Vafalaust kunna þeir að breyta verðlagi vinnu sinnar, þegar búið er að setja upp þetta kerfi. Það hefur sýnt sig, að ekki liggur mikill kostnaðarvöxtur í núgildandi kerfi, en það er gefinn hlutur, að hið nýja kerfi mun hlíta vaxtarlögmálum þeim, sem kennd hafa verið við Parkinson.

Þess verður að gæta, þegar talað er um, hvað það kosti mikið að vinna skattverkin, að þó að tekju- og eignarskattur til ríkis sé kominn í heild niður fyrir 100 millj. kr. skv. síðustu fjárlögum, þá eru þessi verk unnin fyrir sveitarfélögin líka. Útsvör á s.l. ári stigu í heild hátt í 500 millj. kr., og á þessu ári eru fréttir af því, að þau hljóti að hækka mikið. Það er því 5–6 sinnum meira fyrir sveitarfélögin gert að vinna þessi skattverk, eins og nú er komið, en fyrir ríkissjóðinn. Á það ber því að líta einnig, hvort sú tilhögun, sem fyrirhuguð er með frv., hentar eins vel fyrir sveitarfélögin og það fyrirkomulag, sem nú er. Ég álít, að hún henti miklu verr. Ég álít, að með því móti verði sveitarstjórnunum gert erfiðara fyrir með að fylgjast með skattframtölunum og leggja á skv. þeim af þeim kunnugleika, sem þetta fyrirkomulag, sem nú er, viðheldur heima fyrir. Enginn vafi er á því, að það er lengd leiðin milli skattframteljandans, sem þarf vitanlega að gæta réttar síns, og keisarans í skattamálunum. Og með þessu er verið að draga visst vald úr höndum strjálbýlisins, draga Það saman og setja það niður á fjölmennasta staðnum í umdæminu.

Hér er þess vegna á margt að líta. Ég efast ekki um, að þetta fyrirkomulag hefur einhverja kosti, og það er nú svo raunar um allar brtt., sem koma fram, að frá einhverju sjónarmiði hafa þær inni að halda það, sem telja má til bóta. En í hvert sinn þarf að meta kosti og galla, þegar um nýbreytni er að ræða, og ég held, að þeir, sem eru höfundar þessara hugmynda, hafi ekki gætt þess, hve miklir gallar fylgja þeim og hve mikla kosti hið gamla skattverkakerfi hefur. Ég hygg, að þess vegna sé rétt að hugsa þessi mál betur, áður en stórar breyt. eru á þeim gerðar, og tillaga mín um að fella niður breytingarnar, sem snerta framkvæmdina, — till. mín og tillögur byggjast á þeirri hugsun, en ekki því, að ég telji hins vegar, að ekki kunni að vera hægt að gera breyt., sem til bóta eru. Ég segi ekki, að það fyrirkomulag, sem er, sé gallalaust, en ég þykist þess fullviss, að gallarnir komi þá nýir og stórir, sem hættulegri séu en þeir, sem á eru, ef sú stórkostlega breyting á framkvæmdum er gerð, sem hér er fyrirhuguð.

Ég legg mikið upp úr því, hvaða undirtektir þessar till. mínar fá og hvaða afstaða verður til þeirra tekin, og afstaða mín til frv, markast af því, hvort tillögurnar ná fram að ganga eða ekki.