08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., sem nú var að ljúka máli sínu, vil ég í upphafi gera hinar nýju fyrningarreglur þessa frv. sérstaklega að umræðuefni. Ræðumaður taldi, að hin beina skattalækkun um 1/5 hluta væri hreinir smámunir, miðað við þá lækkun, sem leiddi af hinum nýju fyrningarreglum, enda teldu höfundar frv., að breyt. á fyrningarreglunum væru mikilvægustu ákvæði í frv. Þessa skoðun hv. þm. tel ég alranga, hvort sem hún er byggð á misskilningi eða öðru, og alls ekki fara saman við skoðanir þeirra manna, er frv. sömdu.

Það er grundvallarregla í skattalöggjöf okkar, að sá eignaauki, sem stafar af Því, að fjármunir skattgreiðenda hækka í verði, telst ekki til tekna. Veit ég ekki betur en allir séu sammála um þessa grundvallarreglu og að engar raddir hafi heyrzt um að fá henni breytt. Ef við tökum dæmi af atvinnufyrirtæki, sem hefur keypt vél á 200 þús. kr., en þarf vegna minnkandi verðgildis peninga að kaupa nýja sams konar vél á 360 þús. kr., þegar sú fyrri er orðin ónýt, þá væri það alveg í samræmi við framangreinda grundvallarreglu, að fyrirtæki mætti eiga í fyrningarsjóði 360 þús. kr., þegar endurnýjun vélarinnar fer fram, en svona langt ganga þó fyrningarreglur frv. alls ekki. Allir fastafjármunir, sem atvinnufyrirtækin koma til með að eignast í framtíðinni, þ.e.a.s. eftir gildistöku þessa frv., fyrnast eftir venjulegum reglum, enda er engin heimild til endurmats á þeim í frv. Það eru aðeins þeir fastafjármunir, sem atvinnufyrirtækin eiga í dag, sem heimilað er að endurmeta, og hækkunin nær eingöngu til þess hluta af verðmæti þeirra, sem eftir er að fyrna, en ekki til þess hluta, sem búið er að fyrna. Slíka endurmatsheimild er sjálfsagt að lögfesta nú, að loknu meira en tveggja áratuga verðbólguskeiði, og hefði mátt gerast fyrr. Endurmatsheimildin hér er í rauninni alveg hliðstæð því, þegar fasteignamat er hækkað eða brunabótamat á fasteignum hækkar á vissu árabili til þess að vega upp á móti minnkandi verðgildi peninga.

Í sambandi við hinar nýju fyrningarreglur er rétt að benda á, að breytingarnar eru ekki allar á þann veg að auka fyrningarrétt atvinnufyrirtækjanna. í frv. segir, að alla fastafjármuni skuli fyrna miðað við áætlaðan endingartíma þeirra. Þetta er ný regla. Áður var fyrningartíminn einvörðungu metinn af ráðherra með reglugerð. Lögfesting þeirrar reglu, að miða skuli við áætlaðan endingartíma, mundi að áliti skattfróðra manna, m.a. skattstjórans í Reykjavík, leiða til þess í mörgum tilfellum, að fyrningartíminn yrði lengdur, en þar með lækkaði hin árlega fyrningarprósenta.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. fjölyrti um það í ræðu sinni, að með frv. væri verið að gera ofsagróða auðfélaganna skattfrjálsan og af því mundi leiða aukna skattpíningu á almenning, eins og hann orðaði það. Að hinu leytinu vildi hann gera litið úr rökum stuðningsmanna frv., þess efnis, að núgildandi skattalög leggi þungar byrðar á fyrirtækin í landinu og hindri eðlilegt viðhald og uppbyggingu atvinnulífsins. Um þetta sagði hv. þm. m. a. orðrétt: „Það gefur auga leið, að lækkun heildarupphæðar tekju- og eignarskatts gróðafélaga, sem nú er aðeins rúmar 50 millj. kr. á ári, getur ein fyrir sig engin teljandi áhrif haft á getu fyrirtækja til atvinnulegrar uppbyggingar.“ Eftir að hafa heyrt þessi orð, verður manni að spyrja: Hvað hefur orðið af hinum skattfrjálsa ofsagróða, úr því að hann dugir hvergi nærri til eflingar hinni atvinnulegu uppbyggingu? Er ofsagróði þessi skyndilega gufaður upp? Eða hefur hann ef til vill verið svikinn undan skatti? Ef hið síðarnefnda væri tilfellið, þá ætti þessi hv. þm. einmitt að styðja þetta frv., þar sem með því er verið að byggja upp traustara skattkerfi, herða eftirlit með framtölum og þyngja viðurlög við skattsvikum. Tvær af brtt. fjhn. ganga einmitt í þá átt að búa betur um hnútana í þessu efni, en það er 11. till. n. á Þskj. 338, þar sem segir, að hafi skattstjóri grun um, að stórfelld skattsvik hafi verið framin, skuli hann hefja rannsókn þegar í stað og tilkynna ríkisskattstjóra jafnframt um rannsóknina. Enn fremur 15. brtt. á þessu þskj., þar sem segir, að fyrir endurtekin og stórfelld skattsvik megi dæma menn í allt að tveggja ára varðhaldsvist. Að vísu sagði þessi hv. þm., að allar þessar brtt. á þessu þskj. væru smávægilegar, en þar er ég algerlega á andstæðri skoðun.

Annars kemur manni allt tal þessa hv. Þm. um ofsagróða auðfélaga undarlega fyrir sjónir, þegar þess er gætt, að flokksbræður hans hafa sífellt klifað á því s.l. tvö ár, að núv. ríkisstj. legði drápsklyfjar á atvinnufyrirtækin með okurvöxtum og öðrum ráðstöfunum. Er það sannarlega mikið hól um stjórnarstefnuna og afturhvarf frá fyrri skoðunum að segja, að atvinnufyrirtækin séu nú rekin með ofsagróða. Þessi hv. þm. færði rök að því í ræðu sinni, að atvinnufyrirtækin í landinu byggju nú þegar við nægilega góð skattkjör og þyrfti ekki úr að bæta. Rakti hann nokkuð þær álögur, sem þau þurfa að standa undir, og taldi ekki ástæðu til að draga neitt úr þeim. Einu gleymdi hann þó alveg, og það er veltuútsvarið, en það er í mörgum tilfellum það skattgjaldið, sem þyngst hvílir á. Má því um Það segja, að margur hafi gleymt því, sem minna er.

Þá vil ég leyfa mér að minnast aðeins á nál. hv. 1. minni hl. fjhn., en það er undirritað af hv. 1. þm. Norðurl. e. Ég mun þó fara miklu skemur út í þetta en ég hefði ella ætlað mér. Ég vil aðeins benda á, að það langsamlega eftirtektarverðasta við þetta nál. er, að framsóknarmenn skuli vera andvígir skattalækkuninni á samvinnufélögin, sem felst í þessu frv. Þegar breyt. voru gerðar á útsvarslögunum á Alþ. 1960, Þar sem veltuútsvar var lagt á félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna, þá skorti ekki stór orð og mörg um það af hálfu framsóknarmanna, að nú ætti að leggja óhóflegar skattbyrðar á herðar samvinnufélögunum og ganga þannig á milli bols og höfuðs á þeim. Maður skyldi því ætla, að þeir tækju Því fegins hendi, þegar eitthvað væri slakað á klónni. Að vísu hefur reynslan sýnt, að útsvarslagabreytingin gagnvart samvinnufélögunum var nauðsynleg leiðrétting, byggð á fullkominni sanngirni og almennt fagnað af forráðamönnum sveitarfélaga, hvar í flokki sem þeir stóðu. Stóru orðin frá 1960 voru því ekki spámannlega mælt, og ég lít svo á, að framsóknarmenn hafi tekið þau til baka með andstöðu sinni við lækkun tekjuskatts á samvinnufélögum, sem þetta frv. boðar.

Í þessu nál. á þskj. 341 eru fjöldamörg atriði, sem ég vildi gera hér að umræðuefni og gera athugasemdir við, m.a. þar sem verið er að gera samanburð á óbeinum sköttum og tollum á árunum 1958 og 1962, um varasjóðstillögin og margt fleira, sem í þessu nál. felst, en þar sem þannig stendur á, því miður, að hv. 1. þm.

Norðurl. e. er ekki viðstaddur á Þessum fundi, þá mun ég geyma mér að gera aths. við þetta nál. þar til síðar.