08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég vil aðeins með fáum orðum gera grein fyrir tveim brtt., sem ég ber fram á þskj. 352. Fyrri brtt. er við 13. gr. frv., en í þeirri gr. er fram tekið, að frá tekjum skuli draga, áður en skattur er á þær lagður, kostnað við stofnun heimilis, helming af björgunarlaunum, iðgjöld stéttarfélaga, iðgjöld af lífeyri og loks afborganir námsskulda, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur, og það er einmitt við þennan E-lið gr., sem ég ber fram brtt. á þann veg að gera ákvæði, sem þar um ræðir, nokkru rýmra en Það er í frv. Þessi E-liður 13. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Afborganir námsskulda, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur, má eftir mati skattayfirvalda og eftir því, sem nánar verður ákveðið í reglugerð, draga frá tekjum næstu fimm ár, eftir að námi er lokið, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir skuldunum.“ Ég geri það að tillögu minni, að þessi E-liður orðist á þessa leið: „Afborganir námsskulda, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir skuldunum.“

Það, sem sérstaklega Þrengir ákvæðið í frv., er það, að ekki má draga frá afborganir námsskulda nema í fimm ár. Það, sem eftir er þá af skuldunum, verður ekki frádráttarhæft. Þetta tel ég ástæðulaust og óréttlátt ákvæði og legg því til, að því sé breytt. Það er þannig um námsskuldir, að þær greiðast ekki á fyrstu fimm árum, eftir að námi lýkur, heldur getur það tekið allmiklu lengri tíma að greiða þær niður, og ég sé þess vegna enga ástæðu til þess að binda hér ákvæði við fimm ár. Þetta kemur líka fram í aths. við 13. gr. í grg., sem frv. fylgir, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „E-liður um frádrátt vegna afborgana af námsskuldum er nýmæli. Þótt námsskuldir séu ekki goldnar að fullu á fimm ára tímabilinu, sbr. t.d. lög nr. 52/1961, um lánasjóð íslenzkra námsmanna, þá ber allt að einu að draga þær frá tekjum á greindu tímabili, og fæst frádráttur ekki síðar.“ Hér er sagt, að þetta beri að gera, en þetta er gersamlega órökstutt, enda algerlega ástæðulaust og ekki réttlátt að mínum dómi.

Síðari brtt., sem ég ber fram, er við 53. gr. 53. gr. hefst á orðunum: „Heimilt er skattstjóra að taka til greina umsókn skattþegns um lækkun tekjuskatts, ef svo stendur á sem hér segir.“ Síðan koma fjórir liðir: 1) Veikindi eða slys, mannslát eða skert gjaldþol skattþegns. 2) Ef skattþegn hefur veruleg útgjöld haft vegna menntunar barna sinna eldri en 16 ára. 3) Ef á framfæri skattþegns eru börn, sem haldin eru langvinnum sjúkdómi o.s.frv. 4) Ef skattþegn hefur foreldra eða vandamenn sannanlega á framfæri sínu. Hér er eingöngu um heimild að ræða. Ég vil gera það að minni till., að Þessu verði breytt þannig, að upphaf gr. orðist svo: Skylt er skattstjóra. — Hér er um svo alvarlegt atriði að ræða í lífi þeirra, sem þessi ákvæði taka til, að það er full ástæða til að skylda skattstjórann til að taka þær umsóknir til greina af þessu tagi, en ekki aðeins að heimila honum að gera það. Ég benti á það við fyrri umr, þessa máls, að í útsvarslögum er beinlínis fram tekið, að ef skattþegn hefur veruleg útgjöld haft vegna barna sinna eldri en 16 ára, þá skuli taka tillit til þess við ákvörðun útsvars. Ég tel enga ástæðu til þess að hafa þetta öðruvísi í lögum um tekjuskatt, og þess vegna vænti ég þess, að þessi brtt. verði samþ.