08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 9. landsk. þm. talaði hér áðan og undraðist það, að framsóknarmenn tækju ekki fegins hendi skattalækkuninni í þágu samvinnufélaganna. Ég vil minna hv. þm. á það, að þær skattalækkanir, sem hér er gert ráð fyrir, snerta ekki samvinnufélögin með sama hætti og aðra og munar þar á miklu. Í fyrsta lagi er það ákvæði í þessu frv., að varasjóðsframlag samvinnufélaga eigi að lækka frá því, sem það áður var, úr 331/3% niður í 25%, þegar varasjóðsframlög allra annarra eiga að hækka úr 20% í 25%. Þetta er nú ekki alveg í þágu samvinnufélaganna. En það er fleira en þetta. Samkv. Þessu frv. á félög, sem notfæra sér þetta frv., gefi út jöfnunarhlutabréf og fá skattfrjálsa arðsúthlutun af þeim. Þetta getur munað geysilega miklu, því að allar líkur benda til þess, að þau hlutafélög, sem notfæra sér þetta frv., gefi út jöfnunarhlutabréf til samræmis við eignaaukninguna á pappírnum, sem fram kemur við mat, og geta því fengið skattfrjálsar mjög háar upphæðir af arði af þessum nýju hlutabréfum, en samvinnufélögin hafa engin hlutabréf og fá þar af leiðandi enga skattfrjálsa arðsúthlutun vegna þeirra. Þetta er annað atriðið, sem gerir þarna mikinn mun á. Það þriðja vil ég nefna, að ef samvinnufélögin notfæra sér heimild þessa frv. um eignamat, en geta að sjálfsögðu ekki breytt neinu skuldamegin, fá ekki hækkuð nein hlutabréf, sem ekki eru til, þá kemst samvinnufélagið í eignarskatt og eignarútsvar til viðbótar því, sem áður var, jafnvel í stórum stíl, en engu slíku er til að dreifa hjá hlutafélagi.

Þá kom hv. 9. landsk. þm. með skýringu á 22. gr. frv. um fyrningarafskriftir. Þetta gerir hv. frsm. meiri hl. n. líka, enda er ekki vanþörf á því að skýra þessa gr., og fjhn. hefur í heild flutt brtt. við þessa grein. Mér virðast skýringar beggja þessara hv. þm. vera á sömu leið, sem eðlilegt er, að heimilað verði að meta þann hluta eignanna, sem ekki hefur verið afskrifaður, og ég legg áherzlu á að fá þetta leiðrétt, ef þetta er ekki rétt eftir þeim haft, að aðeins sé heimilað að meta til endurkaupsverðs þann hluta eignanna, sem ekki hefur verið afskrifaður, miðað við fyrningartíma. Hafi eign verið afskrifuð um helming, þá megi ekki meta til endurkaupsverðs nema hinn helming eignarinnar. Samkv. þessari skýringu, sem ég tek fyllilega til greina og var alveg nauðsynleg, þá sýnist mér þetta þýða það, að eign, sem hefur verið afskrifuð að fullu, má alls ekki meta til endurkaupsverðs. En svo kom hv. 9. landsk. þm. með dæmi, og það þótti mér alveg stinga í stúf við sjálfa skýringuna. Hann nefnir, að fyrirtæki eigi vél, sem kostar 200 þús. kr., vélin sé orðin ónýt, búið að afskrifa hana, en ný vél kosti 360 þús. kr., og þá hljóti fyrirtæki að eiga rétt á að eiga í fyrningarsjóði 360 þús. kr. til þess að kaupa sér nýju vélina fyrir. Þarna dregur hann fram dæmi um, að það eigi að veita fyrirtæki skattfrjálst endurkaupsverð á vél, sem búið er að afskrifa að fullu, þvert ofan í hina skýringuna. Ég held, að þetta sé enginn misskilningur, að honum hafi farizt orð á þessa leið, dæmið hafi verið alveg nákvæmlega svona: Eign, sem búið var að afskrifa að fullu, kostar miklu meira en fyrri eignin, og fyrirtækið eigi rétt á að eiga í fyrningarsjóði, sem auðvitað yrði þá skattfrjáls, þessa upphæð til að kaupa nýju eignina fyrir. Þetta er ekki í samræmi við það, að ekki megi meta upp að nýju eignir, sem búið er að afskrifa að fullu, alveg þvert á móti.

En fyrst ég er að tala um 22. gr., sem er tvímælalaust þýðingarmesta ákvæði þessa frv., vil ég víkja að brtt. við þessa gr., sem hv. n. flytur. Orðalagið á henni sýnist mér ekki miklu betra en á gr. í sjálfu frv., en þar segir: „Eignirnar skulu metnar til endurkaupsverðs, að frádregnum fullum afskriftum, er miðist við þann árafjölda, sem liðinn er af áætluðum endingartíma: Það á þá ekki að draga annað frá endurkaupsverðinu, þ.e. verði nýrrar eignar, en fullar afskriftir, miðað við endingartímann. Hvað getur þetta þýtt annað en þær raunverulegu upphæðir, sem afskriftunum námu? Og þó er þetta alls ekki meiningin hjá þeim. Meiningin er hin, að hafi vél eða eign, hver sem hún er, verið afskrifuð sem svarar helmingi af tímalengdinni, sem hún átti að endast. þá á ekki að leyfa endurkaupsmat á öðru en hinum helmingnum, en upphæðirnar, sem var afskrifað með, eru auðvitað ekki neitt nærri því helmingur af verði hinnar nýju eignar. Mér sýnist því, að það sé alveg óhjákvæmilegt að endurskoða þetta orðalag á greininni, eins og hún er borin fram í brtt., auk heldur eins og hún er í frv., og það virðist ekki vera sérstaklega vandasamt að orða það eins og það er hugsað, og ég er ekki að draga í nokkurn efa, að þetta er hugsað samkv. skýringu hv. frsm. meiri hl. n., það er hugsað svona, að aðeins megi meta til endurkaupsverðs þann hluta eignanna, sem eftir er, miðað við endingartímann.

Við 1. umr. þessa máls leitaði ég ýmissa upplýsinga hjá hæstv. fjmrh. um þau atriði þessa frv., sem voru óljós, og ég beindi þeim óskum mínum einnig til þeirra hv. höfunda þessa frv., sem sæti eiga í þessari hv. d. Ég fékk engin svör við neinu þá, önnur en þau, að hæstv. fjmrh. beindi því til fjhn. að taka þessi atriði, sem ég hafði rætt um, til athugunar í n. Síðan hefur hv. frsm. n. gert grein fyrir störfum hennar, og þar komu ekki fram svör við neinu af því, sem ég hafði rætt um, nema hvað snertir fyrningarákvæðin og á þann hátt, sem ég hef nú þegar nefnt. Þau atriði, sem ég ræddi um við 1. umr. málsins og enginn af forsvarsmönnum frv. hefur gefið nein svör um, voru eftirtalin:

Ég spurðist fyrir um það, hvernig stæði á hækkun á skattfrjálsu árgjaldi fyrirtækis til atvinnurekendafélags þess, sem það er þátttakandi í, en skv. frv. mun eiga að margfalda þessi árgjöld sem skattfrjálsan frádrátt frá því, sem nú er. Ég er alls ekkert að hafa á móti því, að fyrirtækin megi borga í atvinnurekendasamband eða félag sitt það sem þeim sýnist, en ég sé enga ástæðu til þess að veita skattfrelsi á þær greiðslur umfram það, sem hefur verið að undanförnu.

Ég spurði í öðru lagi, hvernig ætti að skilja ákvæði í 15. gr. frv., þar sem nefnd eru skattayfirvöld, en þar segir: „Skattayfirvöld skulu ákveða heildarafskriftarupphæð hverrar eignar.“ Ég benti á, að fyrr í Þessari gr. er talað um, að ráðh. setji með reglugerð ákvæði um þessar afskriftir, en þarna er talað um skattayfirvöld, og spurði ég, hvort þetta gæti átt við skattstjóra. Ég hef engin svör fengið við því.

Í þriðja lagi spurði ég um, hvað væri átt við með fastafjármunum, sem nefndir eru svo í þessu frv., en eru þó í grg. nefndir fasteignafjármunir. Þetta er óljóst enn, og engin skýring hefur verið látin í ljós um það, hvort Þetta á við svo að segja hvers konar eignir. Ég vil enn spyrja að þessu, hvort þetta eigi við bifreiðar, flugvélar, skip og hvers konar vinnuvélar, húseignir og annað þess háttar.

Í fjórða lagi sýndi ég fram á það við 1. umr. málsins, að um sparnað gæti ekki verið að ræða við þá kerfisbreytingu á framkvæmd skattalaganna, sem hér er lögð til, og vil ég enn spyrja um það, hvort nokkur von sé til þess, að umboðsmennirnir kosti minna en undirskattanefndirnar, hvort skattstofurnar utan Reykjavíkur geta kostað minna en þær kosta nú, að viðbættum yfirskattanefndunum, en störf þeirra eiga skattstofurnar að taka á sig. Ekki hefur verið drepið á það einu orði í nál. meiri hl., sem þó er lögð áherzla á í grg. frv., að hér sé um einhvern sparnað að ræða. Ég býst því við, að hv. n. hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé lítil von um sparnað Þarna.

Í fimmta lagi spurði ég um það, hvernig ætti að skilja ákvæði 15. gr. um fyrningu og viðhald. Það hefur verið svo, að viðhald hafa fyrirtækin fengið að reikna eins og það hefur reynzt á hverju ári, og engar reglur gilt um það hingað til, hvað viðhaldið má vera mikið. Ég vænti þess, að þetta sé fyrir athugaleysi, að vera að blanda viðhaldi saman við fyrningu, því að það eru tveir ólíkir hlutir.

Þá taldi ég og tel enn mjög óheppilegt, að engar reglur um endurkaupsmatið eru í frv. sjálfu. Ég held, að það geti komið fram ákaflega mikið misræmi í raunverulegri skattgreiðslu fyrirtækja eftir því, hvernig þetta mat er framkvæmt. Það getur meira að segja skapað misræmi, hvar eignirnar eru, sem fyrirtækið á. Mér dettur í hug, ef fyrirtæki á eign hérna í Lækjargötunni, þar sem byggingarlóðin er kannske komin upp í 10 milljónir, og annað hliðstætt fyrirtæki á jafnstóra eign einhvers staðar í bæjarjaðrinum, — mundi ekki verða tekið tillit til þess við matið, hvað lóðin er dýr hjá þessu fyrirtæki, það þurfi því að fá hærra mat á sinni eign, ef það ætlar að endurbyggja húseignina á sama stað, heldur en hitt, sem býr annars staðar, og þar af leiðandi fái annað fyrirtækið miklu meiri fyrningar og miklu meiri skattfrjálsan frádrátt?

Aðeins þetta atriði getur valdið miklu misræmi eftir því, hvar eignirnar eru í landinu, eins og það getur valdið misræmi, hvar þær standa í sama bæjarfélagi, því að óneitanlega verður maður að skilja ákvæði frv. þannig, að endurkaupsverð þýði hið raunverulega verð á sams konar eign og væntanlega á sama stað. Það er nokkurs konar söluverð eða gangverð, og þetta getur verið ákaflega mismunandi eftir því, á hvaða stað eignirnar eru, og getur, eins og ég sagði, skapað mikið misræmi í raunverulegum skattgreiðslum fyrirtækja eftir því, hvar þau eru í landinu.

Ég nefndi dæmi um Það við 1. umr. málsins, að mér sýndist, að samkv. þessu frv. gæti fyrirtæki orðið skattfrjálst, þótt það hefði nokkrar milljónir kr. í tekjuafgang, og að það lægi í því, að eignirnar kynnu að margfaldast í endurkaupsmati, skattfrjálsu fyrningarafskriftirnar yrðu í samræmi við það og jöfnunarhlutabréf síðan í samræmi við eignaaukninguna á pappírnum. Þessu hefur ekki enn verið mótmælt, að þetta gæti átt sér stað, að fyrirtæki, sem skilaði jafnvel nokkurra millj. kr. tekjuafgangi, gæti orðið skattfrjálst hvað tekjuskatt varðar.

Það eru ekki aðeins sjáifar fyrningarnar, sem hér ráða miklu um, heldur einnig ákvæðin um jöfnunarhlutabréfin, sem gera Það líka. Það mun vera venjulegast, að hlutafé sé miklu minna en samanlagt kaupverð allra eigna fyrirtækis. Á löngum tíma margfaldast hlutabréfin miklu meira en margföldunin á eignunum. Ég get skýrt þetta með dæmi, til þess að þetta liggi ljósar fyrir. Við skulum hugsa okkur, að fyrirtæki hafi átt vélar, sem kostuðu eina milljón. Það er búið að afskrifa þær um helming, á fimm árum í staðinn fyrir tíu, og þær eru bókfærðar á hálfa milljón. Svo fer fram endurkaupsmat á þessum eignum hálfum, — ég held mér við þá reglu, því að ég hef trú á því, að Það sé meiningin með frv., — og verði niðurstaðan sú, að nýjar eignir sömu tegundar séu taldar sjö sinnum dýrari en þær voru, þegar þær voru keyptar, þá yrði þessi hálfa milljón metin til endurkaupsverðs á 31/2 millj. og hækkunin er því á bókfærðu verði eignanna hjá þessu félagi eða þessu fyrirtæki 3 millj, kr. En í samræmi við þetta hefur fyrirtækið heimild til þess að gefa út jöfnunarhlutabréf, sem svarar þessari hækkun, þessum 3 millj. Hafi nú hlutaféð aðeins verið fjórði hlutinn af samanlögðu verði eignanna, eða 250 þús., þá getur þetta hlutafé farið allt í einu upp í 3 millj. og 250 þús., ef heimildin er notuð út í æsar, og þetta skapar möguleika til að úthluta arði, 10% af þessari upphæð, eða 325 þús. kr. skattfrjálsum arði á þetta hlutafé, í staðinn fyrir að áður var aðeins heimilt að greiða 8% skattfrjálsan arð á 250 þús., eða 20 þús. Þetta fyrirtæki hefur nú skv. gildandi lögum skattfrjálsar afskriftir 100 þús. og skattfrjálsa arðsúthlutun 20 þús., en mundi fá skattfrjálst samkv. dæminu afskriftir 700 þús. og arðsúthlutun 325 þús., eða 1 millj. 25 þús. Það eru um það bil níföld skattfríðindi.

Mér sýnist því, að það sé ekki neitt vafamál, að hér er um stórvægileg skattfríðindi að ræða, svo stórvægileg, að mikill fjöldi fyrirtækja, jafnvel þorri allra fyrirtækja, verði skattfrjáls hvað tekjuskatt snertir á eftir.

En nú kunna forsvarsmenn þessa frv. að segja sem svo: Fyrirtækjunum er þetta nauðsynlegt til þess að geta rekið starfsemi sína, endurnýjað eignirnar, vegna Þess að verðbólgan hefur hækkað þessar eignir í verði svo mikið og þau hafa ekki haft þær afskriftir, sem þurfti til að geta keypt nýjar sams konar eignir. Ég hef áður bent á það og geri það enn, að Þær afskriftir, sem fyrirtækin hafa fengið, eru fjármunir í þeirra eigin vörzlum, sem hafa vaxið að sama skapi og aðrar eignir hafa hækkað í verði. Fyrirtækin hafa haft fullan ráðstöfunarrétt yfir afskriftarupphæðunum, og sá hlutinn, sem hefur verið afskrifaður, hefur því ekki átt að rýrna, enda er það að áliti n. ekki tilgangurinn að afskrifa Þann hluta eignanna, sem búið var að afskrifa. En þá kemur hinn hlutinn, sem hefur ekki verið afskrifaður, og það er rétt, að þar verða fyrirtækin fyrir nokkrum erfiðleikum vegna verðhækkana.

En þá vil ég koma að hinum margumtöluðu skattsvikum, sem forsvarsmenn þessa frv. hafa lagt mikla áherzlu á. Frv. er öðrum þræði rökstutt með því, að skattsvik hafi átt sér stað og þess vegna þurfi að lækka skattana. En má ég þá ekki spyrja: Til hvers notuðu menn skattsvikin? Ekki hafa þau gufað alveg upp. Hafa þessi fyrirtæki ekki tekið sér sjálf afskriftir, svo ríflegar sem þeim hefur þótt við eiga, með skattsvikum? Eru þau ekki búin að fá þessar afskriftir og kannske miklu meira en það í skattsvikunum? Það dugir ekki að vera alltaf að tala um skattsvikin, alveg eins og þau hefðu svo horfið og orðið fyrirtækjunum til einskis. Fyrst allir leggja svona mikla áherzlu á það, hvað skattsvikin hafi verið mikil, og ég ætla ekkert að mótmæla því, þá hafa þau einhvers staðar komið niður. Hvað er orðið af þessum fjármunum, sem áttu að koma í ríkissjóð, en komu ekki? Er þetta í raun og veru nokkuð annað en afskriftir, sem fyrirtækin hafa tekið sér með valdi og brotið með því lög? Og hvaða þörf er þá á því að fara að afgreiða hér löggjöf til þess að bæta þeim það, sem skattsvikin kunna ekki að hafa dugað? Mér sýnist því, að röksemdafærslan fyrir þessari skattalækkun vegna verðbólgunnar sé alveg fallin um sjálfa sig, ef menn ætla að halda fram, eins og þeir hafa gert, skattsvikum fyrirtækjanna. Af þessari ástæðu tel ég það óþarft að afgreiða löggjöf um fríðindi handa fyrirtækjunum vegna þess hluta eigna sinna, sem enn er óafskrifaður. Hvað snertir svo þær eignir, sem hér eftir verða keyptar, þá þarf enga lagabreytingu. Þær eru keyptar á því verði, sem Þeir fá fyllilega viðurkennt í reglum um afskriftir, og það þarf ekki neina nýja lagabreytingu vegna þeirra eigna. Afskriftirnar verða í samræmi við það verð, sem á þeim eignum er nú, þegar þær eru keyptar.

Ég hef bent hér á meginatriði þessa frv., Þau stórkostlegu skattfríðindi, í fyrsta lagi með margföldun skattfrjálsra afskrifta, í öðru lagi með enn meiri margföldun á skattfrjálsum arðsúthlutunum, í þriðja lagi með hækkun á skattfrjálsu framlagi í varasjóð og í fjórða lagi með lækkun á skattinum sjálfum úr 25% í 20%, og niðurstöður mínar eru því þessar í fáum orðum sagðar:

Í fyrsta lagi sýnist mér allar líkur benda til þess, að þorri fyrirtækja verði skattfrjáls hvað tekjuskatt snertir. Í öðru lagi, að skattfrelsið hækkar verðiag óneitanlega á vörum og þjónustu þessara fyrirtækja. í þriðja lagi, að um leið og léttbærasta skattinum er aflétt, er viðhaldið þungbærum og ranglátum sölusköttum og veltuútsvörum. Og í fjórða lagi, að tekjurýrnun ríkissjóðs af þessari lagabreytingu hlýtur að valda nýjum álögum á almenning í formi neyzluskatta eða tolla.