04.12.1961
Efri deild: 26. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

9. mál, alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávarins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. Þetta, sem er um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamþykkt um að fyrirbyggja óhreinkun sjávar af völdum olíu og enn fremur að setja reglur um frekari varnir gegn slíkri óhreinkun sjávarins, er að mestu leyti samhljóða alþjóðasamþykkt, sem gerð var í London hinn 12. maí 1954. Auk þess er með frv. Þessu, ef að lögum verður, veitt víðtækari heimild um frekari varnir hér við land en alþjóðasamþykktin nær til, og kemur það fram í 3. gr. frv. Alþjóðasamþykktin nær hvorki til skipa, sem eru undir 500 brúttórúmlestum, né olíustöðva á landi.

Mál þetta hefur um árabil verið til meðferðar og athugunar hér á landi af nefnd, sem til þess var kjörin hinn 6. apríl 1956 af þáv. siglingamálaráðherra, Ólafi Thors. Skilaði nefndin áliti sínu til rn. í desembermánuði s.l.

Með þeirri ört vaxandi notkun olíu, sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum um allan heim, hefur komið í ljós, að nauðsyn ber til þess, að settar verði skorður eða lög, sem fyrirbyggja óhreinkun sjávar af völdum olíu. Það er álit nefndarinnar, að höfuðorsök fyrir þeirri óhreinkun sjávar, sem nú á sér stað, megi rekja til hinna stóru olíuflutningaskipa, sem hreinsa geyma sína með gufu og dæla síðan olíumenguðu vatninu og botnfallssora úr tönkum skipanna í sjóinn. Auk þess er vitað, að hér veldur miklu kjölfestuvatnið, sem dælt er í sjóinn úr öllum skipum, bæði stórum og smáum. Skaðlegustu afleiðingarnar af óhreinkun sjávarins af völdum olíunnar eru taldar þessar: Í fyrsta lagi óþrif baðstranda og hafnarmannvirkja. Í öðru lagi mikill sjófugladauði. Og í þriðja lagi er talið ekki ólíklegt, að olíumengunin geti haft skaðleg áhrif á allt dýralíf og gróður sjávarins. Það er ekki að efa, að hér er um stórt hagsmunamál að ræða.

Hæstv. siglingamálaráðh. fylgdi máli þessu úr hlaði við 1. umr. hér í hv. deild með allýtarlegri ræðu, og tel ég því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Hins vegar má á það benda, eins og ég hef reyndar þegar gert, að með frv. Þessu er gert ráð fyrir að ganga allmiklu lengra en alþjóðasamþykktin gerir um frekari varnir, og nær það sérstaklega til þess, að gert er ráð fyrir, að sett verði reglugerð, sem nær til smærri skipa, og enn fremur um meðferð olíu í olíustöðvum í landi.

Svo sem fram kemur í nál. sjútvn. á þskj. 150, mælir nefndin einróma með samþykkt frv. óbreytts. Vil ég því leyfa mér, herra forseti, að mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.