08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á úr ræðu hv. frsm. meiri hl. n. Hann talaði um, að ef ekki væri lækkaður skattur á félögum, Þyrfti að hækka skatta á einstaklingum, því að annars yrði tekjum fyrirtækisins jafnað niður á fjölskyldur Þær, sem eiga fyrirtækið. Tekjurnar yrðu dregnar út úr fyrirtækinu yfir á einstaklingana, ef ekki væri lækkaður skattur á fyrirtækjunum. Ég skil ekki, hvernig á að gera þetta. Hvernig er þetta hægt án þess að brjóta lög? (Gripið fram í: Reikna því hærra kaup.) þeir verða þá að vinna við fyrirtækið, allir hluthafar, ef þeir eiga að geta tekið þetta í kaupinu sínu. þeir hluthafar, sem ekki vinna við fyrirtækið, geta aldrei gert þetta, svo að ég held, að þetta sé ákaflega hæpin skýring. Ef þeir vinna þarna, eiga þeir auðvitað sitt kaup.

Þá nefndi hann, að það gæti ekki haft áhrif á verðlag, þó að fyrningar væru hækkaðar, vegna þess að fyrningarnar yrðu að koma á einhvern hátt fram, ef endurnýjaðar væru eignirnar. Þetta er út af fyrir sig rétt. En ég get ekki skilið, að það hafi ekki áhrif á verðlag hjá fyrirtæki, ef viðurkennd gjöld hækka stórlega. Maður getur hugsað sér fyrirtæki, sem er undir ákvæðum verðlagsyfirvalda. Nú hækka allt í einu útgjöldin. Verður það ekki viðurkennt í verðlaginu?

Að lokum fór hann að leiðrétta þann misskilning hjá mér, eins og hann nefndi það, að ég hefði viljað halda því fram, að eignirnar ykjust við matið. Ég hef aldrei haldið þessu fram. Mér er það fyllilega ljóst, að eignirnar eru nákvæmlega þær sömu, þó að þær séu metnar til endurkaupsverðs, og ég tel það ekki eðlilegt að fara að skattleggja þá breytingu á eignunum, hef aldrei haldið því fram. En hinu verður ekki neitað, eins og frsm. líka viðurkenndi, að þessi breyting á bókfærðu verði eignanna skapar möguleika til að gefa út jöfnunarhlutabréf, og það er arðurinn af jöfnunarhlutabréfum; sem á að verða skattfrjáls og verður nýr frádráttur hjá fyrirtæki, sem ekki var áður.

Þá segir hv. þm.: Þetta verður allt skattlagt hjá einstaklingunum. — Það verður því aðeins skattlagt hjá þeim, að þeir komist í nokkurn skatt, þó að þeir fái þennan arð. Nú er búið að breyta svo sköttum einstaklinga, að það er ekki víst að þessar upphæðir, einhver hluti þeirra eða mikill hluti þeirra, komi nokkurn tíma til neins skatts. Og þótt einhver hluti þeirra kæmi til skatts hjá einstaklingunum, þá gæti það orðið allt annar skattur. Það er því alls ekki fullnægjandi skýring, að þetta komi til skatts hjá einstaklingunum. En í öllu falli verður skattur lægri hjá fyrirtækinu, og um fyrirtækin erum við að ræða núna, en ekki skattalagabreytingu hvað snertir einstaklinga.

Annars vil ég að lokum segja það, að það er litt skiljanlegt, hversu mikil áherzla er lögð á það að fella niður eða lækka stórlega tekjuskatt, langsamlegasta léttbærasta skattinn af öllum sköttum, sem fyrirtæki borga. Og þetta gera sömu menn og halda uppi veltuútsvörum og sölusköttum. En þarna greinir á milli okkar, þarna greinir á milli tveggja stefna. Stefna forsvarsmanna þessa frv. er að afnema alla beina skatta og setja á söluskatta og neyzluskatta. Jafnvel veituútsvar, sem þessir sömu menn viðhalda hér í landinu, sem leggst á tapreksturinn alveg eins og hina, sem hagnast, það er ekki byrjað á að leiðrétta slíkt ranglæti, heldur að lækka þann skattinn, sem er bæði réttlátastur og léttbærastur.