16.03.1962
Neðri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Fyrir síðustu alþingiskosningar höfðu báðir núv. stjórnarflokkar það á stefnuskrá sinni að láta endurskoða skattalögin sem fyrst, með það fyrir augum að lækka beina skatta. Það var því eðlilegt, þegar ríkisstj. var mynduð, að í stjórnarsáttmálann væri tekið ákvæði í þessa átt. Það er komizt svo að orði í stjórnarsamningnum, að til þess að tryggja, að þær heildarráðstafanir. sem gera þarf, verði sem réttlátastar gagnvart öllum almenningi, hafi ríkisstj. ákveðið m.a. að endurskoða skattakerfið.

Skömmu eftir myndun ríkisstj. var því hafizt handa um allsherjarendurskoðun á skatta- og tollakerfinu. Sérstök nefnd fékk það verkefni að endurskoða tollskrána og tollakerfið allt. Það er geysimikið verk, og var í byrjun gert ráð fyrir því, að það mundi taka 2–3 ár. Því verki hefur miðað vel áfram, svo að gera má ráð fyrir, að frv. til nýrrar tollskrár verði lagt fyrir Alþ. næsta haust. Hins vegar hefur þegar verið gerð nokkur breyt. á tollalögunum með þeirri tollalækkun, sem Alþ. samþykkti í nóv. s.l.

Annarri nefnd var falin endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaganna. Þegar á þinginu 1960 var fyrsta skref stigið í þeim efnum með bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum, og voru þær breyt., sem þá voru samþ., bæði í því fólgnar, að sveitarfélögunum var þá þegar fenginn nýr tekjustofn, hluti af söluskatti, og enn fremur, að í stað hinnar gömlu reglu að jafna niður eftir efnum og ástæðum voru nú ákveðnir og lögfestir útsvarsstigar, þrír að tölu. Nú hefur verið lagt fyrir þetta Alþ. frv. til heildarlöggjafar um tekjustofna sveitarfélaga, sem var til umr. í þessari hv. d. í gær.

Í þriðja lagi var svo sérstökum mönnum falin endurskoðun l. um tekju- og eignarskatt, og áttu sæti í þeirri n. 6 menn. Formaður hennar var Björn Ólafsson fyrrum fjmrh., en auk hans áttu sæti í n. alþingismennirnir Gísli Jónsson, Jón Þorsteinsson, Ólafur Björnsson, Sigurður Ingimundarson og loks Svavar Pálsson endurskoðandi. En ráðuneytisstjórinn í fjmrn., Sigtryggur Klemenzson, tók sæti í nefndinni, Þegar fjallað var um þá þætti frv., sem varða framkvæmd skattamála.

Nefnd þessi skilaði sínum fyrstu till. á öndverðu ári 1960, og var í samræmi við þær flutt strax á því þingi frv., sem náði afgreiðslu, um nokkrar breyt. á skattalögunum, fyrst og fremst þær að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum, þannig að skattfrjálsar skyldu hjá einstaklingum 50 þús. kr. tekjur, hjá hjónum 70 þús. kr. og síðan 10 þús. kr. fyrir hvert barn. Nokkrar breyt. voru gerðar fleiri, en n. hélt áfram störfum til þess að ljúka heildarendurskoðun skattalaganna; og það frv., sem hér liggur fyrir, byggist á till. n. með örfáum breytingum.

Ég skal nú rekja í stórum dráttum þær helztu breyt., sem frv. felur í sér frá gildandi lögum.

Þess er fyrst að geta, að núgildandi heildarskattalög eru frá 1954, en síðan hafa verið gerðar nokkrar breyt. á skattalögum, og þótti nauðsynlegt að fella þessar breyt. inn í lögin, semja sem sagt nýja heildarlöggjöf, en auk Þess felur frv. í sér allmiklar breyt. á formi skattalaganna. Efnisröðun gildandi l. var að ýmsu leyti orðin óskipuleg vegna þeirra breyt., sem gerðar höfðu verið undanfarin ár. Við þessa endurskoðun laganna í heild hefur verið byggt á þeim grundvallarsjónarmiðum, að sem gleggst væri til yfirlits, að saman væri skipað í kafla öllum ákvæðum laganna, sem varða skattskyldu og það, hverjir séu skattaðilar, og um það fjallar I. kafli frv. II. kaflinn fjallar um ákvæðin um skattskyldar tekjur og III. kaflinn um skattskyldar eignir. Í IV. kafla frv. koma síðan skattstigarnir, bæði tekjuskatts- og eignarskattsstiginn. V. kafli er um skattstjórnaryfirvöld, VI. kafli um framtöl tekna og eigna, fresti, úrskurði, innheimtu o.fl., í VII. kafla eru refsiákvæði og viðurlög og í VIII. kafla ýmis ákvæði.

Samkv. þessu er efnisskipun frv., einkum I.–IV. kafla, með nokkuð ólíkum hætti því, sem er í gildandi lögum. Til þess að menn geti gert sér sem bezta grein fyrir þessum breyt. og eigi auðveldara um samanburð á ákvæðum þessa frv. og gildandi laga, þá hafa verið tekin saman yfirlit, sem birt eru sem fskj. með þessu frv. Það fyrra er á bls. 37 –34 í frv. Þar er fskj. A, sem sýnir, hvaðan úr gildandi skattalögum einstakar gr. frv. eru teknar og hverjar gr. eru nýmæli. Á bls. 34–35 er fskj. B með öðru yfirliti, sem sýnir, hvar einstökum ákvæðum gildandi skattalaga er skipað í frv. og hver ákvæði er gert ráð fyrir að verði felld niður. Ég vænti, að þessi yfirlit bæði verði hv. alþm. til glöggvunar við samanburð frv. við gildandi lög.

Í 5. gr. frv., sem svarar til 3. gr. gildandi laga, er tekinn upp C-liður um skatt félaga með ótakmarkaðri persónulegri ábyrgð, en sá liður féll niður við skattalagabreytingu 1959, væntanlega af vangá, og ber því að skoða þetta sem leiðréttingu fyrst og fremst.

Í 7. gr. frv., D-lið, er nýmæli um jöfnunarhlutabréf. Víðast hvar er nú heimilað, að hlutafélög geti gefið út jöfnunarhlutabréf til hluthafa, án þess að þau bréf eða sú hækkun, sem um er að ræða, sé talin skattskyld hjá félaginu eða hluthöfum. Þetta byggist á því, að um raunverulega leiðréttingu er að ræða vegna breytinga á gildi peninga, en með þessu er ekki verið að gefa hluthöfum nein ný verðmæti, heldur á sérhver hluthafi jafnmikinn hlut í fyrirtækinu eftir sem áður. Akvæðið er á þessa leið í 7. gr. D-lið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki telst þó til arðs úthlutun jöfnunarhlutabréfa, sem ekki hefur í för með sér breytta eignarhlutdeild hluthafa í hlutafélagi, og telst því ekki til skattskyldra tekna hluthafans, enda sé útgáfa bréfanna byggð á raunverulegum verðmætum í sjóðum, öðrum en skattfrjálsum varasjóði, eða öðrum eignum félagsins, er verið hafa í eigu þess minnst þrjú ár og sé samanlagt verð jöfnunarhlutabréfanna, miðað við hlutafé félagsins, ekki hærra en svarar til almennrar verðhækkunar frá stofnun félagsins eða frá innborgun hlutafjár.“

Eins miklar breytingar og hafa orðið á verðgildi peninga og verðlagi undanfarna áratugi hér á landi, þykir sjálfsögð leiðrétting að taka þetta ákvæði inn í skattalögin.

Í 10. gr. frv., H-lið, er nýmæli um launagreiðslur erlendis frá fyrir störf í þágu alþjóðastofnana. Þar segir svo, að skattfrjálsar skuli beinar launagreiðslur erlendis frá fyrir störf í þágu þeirra alþjóðastofnana eða ríkjasamtaka, sem íslenzka ríkið er aðili að, enda njóti starfsmenn hlutaðeigandi stofnana skattfrelsis af launum fyrir hliðstæð störf. Ef íslenzkur maður gerist starfsmaður slíkra stofnana og er búsettur í bækistöðvum þeirra, en slítur heimilisfesti á Íslandi, þá er hann undanþeginn sköttum fyrir þau laun. Ef hann hins vegar heldur áfram búsetu hér á landi og vinnur hér heima þau störf, sem alþjóðastofnunin hefur falið honum og greiðir honum laun fyrir, þá verður hann hins vegar að greiða af því fulla skatta. Það þykir rétt að torvelda ekki möguleika manna hér búsettra til þess að taka að sér slík launuð störf fyrir alþjóðastofnanir, þó að þeir vinni störfin hér heima. Með því fyrirkomulagi, sem nú gildir, má segja, að menn mundu stundum í rauninni flæmdir af landi brott vegna þeirra skattákvæða, sem gilt hafa. Þetta nýmæli miðar að því að gera hér leiðréttingu á.

Í 11: gr., B-lið, 2. mgr., er breytt nokkuð ákvæði um heimild til þess að flytja tap af atvinnurekstri milli ára. Þar segir svo:

„Tap, sem verður á atvinnurekstri félaga eða einstaklinga, má flytja á milli ára um fimm áramót og draga frá skattskyldum tekjum, þar til það er að fullu greitt, enda hafi verið fullnægjandi grein gerð fyrir tapinu á framtali um tekju- og eignarskatt fyrir það ár, þegar tapið varð.“ Hér er gerð sú breyting, að heimilað er að flytja slíkt tap um fimm áramót í stað tveggja samkv. núgildandi lögum. Hér á landi er ýmis atvinnurekstur mjög áhættusamur. Útgerðarfyrirtæki t.d. kann að hafa ágæta afkomu eitt árið, verður fyrir miklu tapi annað árið vegna aflabrests, verðfalls eða annarra orsaka. Það er eðlilegt, að skattalögin taki tillit til þess, að atvinnurekstur hér á landi er að ýmsu leyti áhættusamari og meiri áraskipti um afkomu hans heldur en víða annars staðar í háþróuðum iðnaðarlöndum, þar sem afkoma iðnaðarfyrirtækja er að jafnaði, má segja, svipuð frá ári til árs.

Í 12. gr., D-lið, er nýmæli, en þar segir, að frá tekjum skuli draga, áður en skattur er á lagður. einstakar gjafir til menningarmála, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga, þó ekki yfir 10% af skattskyldum tekjum gefanda, enda sé hver gjöf ekki undir 300 kr. Fjmrh. ákveður með reglugerð, hvaða málaflokkar og stofnanir koma til greina samkv. þessum staflið.

Það mun hafa verið á árinu 1959 eða nánar tiltekið á þinginu 1958–1959, sem flutt var till. til þál. í Sþ. um stuðning við mannúðarog vísindastarfsemi. Flm. voru hæstv. núv. forseti þessarar deildar, Ragnhildur Helgadóttir, og Björn Ólafsson. Till. var á þá leið, að Alþ. ályktaði að fela ríkisstj. að athuga, hvort unnt sé að auka fjárhagsstuðning við mannúðar- og vísindastarfsemi á Íslandi með því að gera framlög fólks til þeirra mála frádráttarhæf við álagningu tekjuskatts og útsvars. Þessi till. var samþ., og á grundvelli hennar var málið rannsakað, og nefnd sú, sem fjallaði um það, skilaði áliti og tillögum, sem skattalaganefndin fékk svo til meðferðar, og byggist þetta ákvæði í D-lið í verulegum efnum á till. þeirrar nefndar, þó að nokkrar breyt. hafi verið á því gerðar, en að meginefni til svipað. Ég ætla, að það sé rétt stefnt að örva menn til framlaga og gjafa til menningar- og líknarmála og vísindastarfsemi með þeim hætti, að þeir megi draga það frá tekjum á því ári, sem gefið er.

12. gr. E er nýr liður, þar sem segir, að draga skuli frá tekjum, áður en skattur er á lagður, m.a. kostnað við öflun bóka, tímarita og áhalda til vísindalegra og sérfræðilegra starfa, og það skilyrði að sjálfsögðu sett, að þessi kostnaðarliður sé studdur fullnægjandi gögnum.

í 13. gr., C-lið, er ákvæði um, að iðgjöld til stéttarfélaga, sjúkrasjóða, atvinnuleysissjóða skuli draga frá hreinum tekjum einstaklinga. Hér er bætt við ákvæði, að enn fremur sé heimilt að draga frá tekjum félagsgjöld til atvinnurekendafélaga, þó ekki umfram 5~o af veltu fyrirtækjanna.

Í 13. gr. E-lið er það nýmæli, að draga skuli frá tekjum, áður en skattur er á lagður, námskostnað, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur. Hann megi draga frá tekjum næstu fimm ár, eftir að námi er lokið, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir kostnaðinum. Hér er um nýmæli að ræða. Í frv. var upphaflega svo ákveðið, að afborganir námsskulda mætti draga frá tekjum með þessum hætti, en það varð að ráði í Ed. að breyta þessu þannig, sem ég ætla að sé til bóta, að miða við námskostnað í staðinn fyrir námsskuldir, eins og upphaflega stóð. Nú er ástandið þannig, að þeir, sem koma frá námi, oft skuldum hlaðnir eftir langt og dýrt nám, þeir hafa að sjálfsögðu heimild til þess að draga frá tekjum sínum vexti af námsskuldunum, en ekki námsskuldir eða námskostnað að öðru leyti. Slíkir námsmenn eiga oft, sérstaklega fyrstu árin eftir að þeir taka við starfi, fullerfitt með að standa undir vöxtum og afborgunum, og þykir sjálfsagt að létta þeim þá byrði með því að lögfesta þetta ákvæði.

Í 15. gr. frv. er nýmælið um fyrningarafskriftir. Nú er svo ákveðið í lögum, að fyrningu véla, áhalda, atvinnutækja skuli reikna með ákveðinni hundraðstölu af upphaflegu kaupverði eða kostnaðarverði. Slíkt kaupverð eða kostnaðarverð er oft aðeins hluti, kannske fimmti eða jafnvel tíundi hluti af því, sem nýjar vélar og tæki kosta nú. Vegna hinnar öru verðbólgu, sem hér hefur verið um mörg ár, standa atvinnufyrirtæki, ekki sízt iðnaðarfyrirtæki, oft mjög illa að vígi vegna fyrningarreglnanna um vélar. Vélar, sem keyptar hafa verið t.d. fyrir 5 eða 10 árum, eiga nú að vera fyrndar að mestu eða öllu leyti. Þau þurfa að standa straum af endurnýjuðum vélakosti, en hið upphaflega kaupverð, sem afskriftirnar eru reiknaðar af, hefur sem sagt í mörgum tilfellum verið aðeins örlítill hluti af því, sem kostnaðurinn er nú við að endurnýja þessi tæki. Hér er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að í stað Þess að miða fyrningarprósentuna við upphaflegt kaupverð, þá sé nú miðað við endurnýjunarverð, þ.e.a.s. við mat á því, hvað kostar að endurnýja sams konar tæki eða kaupa sams konar tæki nú.

Í 22. gr. frv. eru svo nánari ákvæði um þetta, í H-lið Þeirrar greinar, sem stendur í sambandi við þetta nýmæli 15. gr. Þar segir: „Heimilt er atvinnufyrirtækjum á árunum 1962-63 að láta meta áætlað endurkaupsverð fastafjármuna sinna og breyta bókfærðu verði og eignum samkv. því, enda telst verðhækkunin ekki til skattskyldra tekna. Eignirnar skulu metnar til endurkaupsverðs að frádregnum þeim eignarhluta á nýja matverðinu, er svarar til þess árafjölda, sem liðinn er af áætluðum endingartíma, sbr. 15, gr.

Á því er enginn vafi, að hér er um eðlilegt sanngirnismál að ræða, og þessi nýja regla mun vafalaust verða til þess að skapa atvinnufyrirtækjum meiri möguleika til þess að fylgjast með aukinni og nýrri tækni, endurnýja tæki sín fyrr en ella. Og vitanlega er það hagsmunamál Þjóðarinnar allrar, að atvinnureksturinn á hverjum tíma sé aukinn með sem fullkomnustum tækjum, en sé ekki að burðast með gömul og úrelt tæki, sem ekki afkasta því sama og ný tæki, eru e.t.v. dýrari í rekstri, en fyrirtækin hafa, m.a. vegna skattalaganna, ekki haft tök á eðlilegri og nauðsynlegri endurnýjun.

Nú er svo ákveðið, að félög megi draga frá tekjum sínum útborgaðan arð, allt að 8%, áður en skattur er á lagður. Það er sem sagt hið gildandi ákvæði nú. Ef þau hins vegar borga meira en 8% í arð, þá kemur skattur bæði hjá félaginu og hjá félagsmanni, m.ö.o. um tvísköttun að ræða. Með þessu frv. er lagt til að hækka þennan hundraðshluta úr 8% upp í 10%. Þegar þess er gætt, að hæstu sparisjóðsvextir eru nú 9%, þ.e.a.s. af því fé, sem bundið er eitt ár, þá er ekki óeðlilegt, að slík skattfrjáls arðsútborgun hjá félögunum sé hækkuð upp í 10%, og má þó vera, að sumir telji eðlilegra, að þetta mark væri nokkru hærra, en út í það skal ekki farið hér. Hins vegar er slíkur arður að sjálfsögðu jafnan skattlagður hjá hluthöfunum sjálfum.

Í 17. gr., 2. mgr., er svo ákveðið, að ef nokkuð af ársarði félaga er lagt í varasjóð, þá er sú upphæð undanþegin tekjuskatti og skal koma til frádráttar við ákvörðun skattskyldra tekna. í núgildandi lögum er þetta þó bundið við, að það sé ekki hærri fjárhæð en 1/5 hluti af hagnaði félagsins. Þessu er breytt þannig, að í stað 1/5, eða 20%, er heimilað að leggja með þessum hætti í varasjóð 25%, eða fjórðung af hagnaði félaganna. Tveir aðilar eru það, sem hafa haft nokkru rýmri varasjóðshlunnindi, en það eru samvinnufélög, sem mega leggja skattfrjálst þriðjung af tekjuafgangi sínum í varasjóð, og enn fremur félög, sem hafa sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, mega draga frá tekjum sínum varasjóðstillag, sem nemur af hreinum tekjum. En á þessi útgerðarfélög eru jafnframt lagðar sérstakar kvaðir, sem sagt þær, að 50% af því fé, sem þau leggja í varasjóð, skuli geymt á sérstökum reikningi í banka, og nefnist sá hluti varasjóðsins nýbyggingarsjóður. í öndverðu var þessum nýbyggingarsjóði ætlað það hlutverk að tryggja endurnýjun skipastóls útgerðarinnar. Þessum tilgangi var aldrei náð, og það er talið af kunnugustu mönnum, að lögin um nýbyggingarsjóði hafi að mestu verið dauður bókstafur, þannig að þetta sérákvæði um heimild útgerðarfélaganna til að leggja þriðjung af hreinum tekjum í varasjóð skattfrjálst hafi aldrei komið að neinu verulegu gagni, og því hafi það litla sem enga raunhæfa þýðingu að halda þessu ákvæði áfram. Er því lagt til, að varðandi þessi félög skuli gilda almenna reglan um önnur félög, 25% skattfrjálst í varasjóð.

Varðandi samvinnufélögin, þá snertir þetta í rauninni í framkvæmd svo að segja eingöngu viðskipti samvinnufélaganna við utanfélagsmenn, og það er erfitt að sjá, hvaða rök eru fyrir því, að varðandi viðskipti við utanfélagsmenn skuli samvinnufélögin eiga að njóta forréttinda fram yfir aðra atvinnurekendur, sem stunda verzlun eða annan atvinnurekstur. Það þykja því öll rök hníga að því að fá hér algert samræmi milli félaga, þannig að um þau öll gildi 25% varasjóðsfrádrátturinn,

Í 17. gr., 3. mgr., er nokkur breyt. gerð frá gildandi l. Þar segir, að kaupfélög, pöntunarfélög og önnur samvinnufélög megi draga frá tekjum sínum það, sem þau greiða félagsmönnum í árslok eða færa þeim til séreignar í stofnsjóði, og telst það ekki til skattskyldra tekna hjá félaginu. Þetta ákvæði, sem er í gildandi lögum, er sem sagt látið haldast, en við það er bætt samkv. þessu frv.: „Á sama hátt mega félög, sem aðeins vinna úr eða selja afurðir félagsmanna, draga frá það, sem þau úthluta félagsmönnum sínum í hlutfalli við framlög þeirra af afurðum. Upphæðir þær, sem þannig er úthlutað, teljast fram til skatts sem tekjur hinna einstöku félagsmanna.“ Þau rök eru fyrir þessari breyt., að það hefur þótt orka tvímælis í framkvæmd, hvaða félög féllu þarna undir, og hafði verið talið óljóst um ýmis félög önnur en samvinnufélög, og þykir því réttara að taka af öll tvimæli um önnur félög en samvinnufélögin.

Þá er gerð sú breyt. á tekjuskattsstiga félaga, að skattur þeirra skuli vera 20% af skattskyldum tekjum í stað 25%, sem nú gildir. í frv. um tekjustofna sveitarfélaga er gert ráð fyrir, að útsvar félaga sé 20% á lægri tekjur, ég held allt að 75 þús., en 30% á hagnað, sem þar er yfir. Ef þessi frumvörp verða bæði samþ., þá er sem sagt tekjuútsvar og tekjuskattur af félögum yfirleitt samtals 50% eða helmingur af hagnaði félaganna, en auk þess kemur svo aðstöðugjaldið til.

Þá er það ákvæði í 25. gr. B, sem fjallar um eignarskattstigann, að skattfrjáls eign, sem samkv. gildandi l. er 30 þús., skuli nú verða 100 þús. kr. hjá hverjum manni. Auk þess er eignarskattstiginn gerður einfaldari. í stað þess, að í gildandi I. eru 9 mismunandi prósentur, þá verða Þær aðeins 3 eftir Þessu frv.

Í 42. gr. segir, að þegar maður kærir skatt sinn til ríkisskattanefndar, þá skuli skattþegni eða umboðsmanni hans heimilt að flytja mál sitt fyrir nefndinni, og einnig er svo ákveðið, að úrskurðir ríkisskattanefndar skuli vera rökstuddir. í framkvæmd hefur það verið svo að undanförnu, að kærendur hafa oft og tíðum ekki fengið með úrskurðinum rökstuðning fyrir honum, og þykir rétt að gera þetta að almennri reglu, að úrskurðirnir skuli rökstuddir, og kærandi á þá heimtingu á því að fá að sjá þann rökstuðning.

Ég kem þá að þeirri breytingu, sem má segja að sé altviðamikil og ein af þeim þýðingarmestu, sem gerð er með þessu frv., og það eru hinar víðtæku breyt. á skattstjórn og framkvæmd skattamála. Þessum málum er háttað í stórum dráttum á þessa lund nú: Undirskattanefndir eru 219 að tölu og 3 menn í hverri nefnd, eða samtals 657 menn í undirskattanefndum. Þessar nefndir leggja á þinggjöld og endurskoða framtöl, en leggja einnig á söluskatt. Sums staðar eru skattstjórar starfandi, og eru þeir nú 10 að tölu. Skattstjórarnir eru á þessum stöðum: Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akureyri, Siglufirði, Ísafirði, Akranesi. Skattstjórarnir, sem hafa stjórn skattstofu með höndum, vinna sömu verk og undirskattanefndir, þ.e. álagningu þinggjalda og söluskatts. Þeir hafa skattaeftirlit og endurskoðun framtala. Síðan koma yfirskattanefndir, sem eru 24 að tölu, 3 menn í hverri nefnd, eða samtals 72 menn. Verkefni yfirskattanefnda er að úrskurða skatta- og útsvarskærur, hafa eftirlit með störfum skattstjóra og skattanefnda, framkvæma ýmis hlunnindamöt, fara yfir skattaframtöl o.fl. Ríkisskattanefnd er svo æðsta stigið og yfirstjórnandi skattstjóra, skattanefnda og yfirskattanefnda. Í nefndinni eiga sæti þrír nefndarmenn. Ríkisskattanefndin er sem sagt æðsta kærustig í skatta- og útsvarsmálum, endurskoðar framtöl af öllu landinu, úrskurðar beiðnir um eftirgjafir o.s.frv. Kostnaður við framkvæmd skattamálanna, þar með talin laun og kostnaður við undirskattanefndir, skattstofur, yfirskattanefndir. ríkisskattanefnd, — þessi kostnaður var árið 1960 9.6 millj. kr. Á árinu 1962 varð hann 10.7 millj. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir gagngerum og róttækum breytingum á þessu skipulagi. Undirskattanefndir og yfirskattanefndir verða afnumdar samkv. þessu frv., landinu í þess stað skipt í nokkur skattaumdæmi. 2 frv. var upphaflega gert ráð fyrir, að þau umdæmi féllu saman við kjördæmi við alþingiskosningar og yrðu 8 að tölu. í hv. Ed. Þótti við athugun réttara að bæta þar við einu skattaumdæmi, Vestmannaeyjum, vegna algerrar sérstöðu þeirra, þannig að í frv. nú er gert ráð fyrir 9 skattaumdæmum og 9 skattstjórum. Fyrir hverju skattaumdæmi er skattstjóri, sem ákvarðar skatta og úrskurðar kærur út af skattaákvörðunum, en þeim úrskurðum má skjóta beint til ríkisskattanefndar eftir frv., í stað þess fyrirkomulags, sem nú er, að kærur fara fyrst til undirskattanefndar eða skattstjórans, síðan til yfirskattanefndar og loks til ríkisskattanefndar. M.ö.o.: hér er fækkað um eitt stig. Gert er ráð fyrir því, að skattstjóri hafi umboðsmenn í hverju sveitarfélagi og bæjarfélagi utan aðseturs síns.

Gert er ráð fyrir, að ríkisskattanefndin starfi áfram og að skipaður skuli ríkisskattstjóri, sem verði formaður nefndarinnar.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ýmsar þekkingar- og hæfnikröfur séu gerðar til skattstjóranna. Skattstjóri skal auk hinna almennu skilyrða, segir í 29. gr., hafa lokið prófi í lögfræði eða viðskiptafræði, vera löggiltur endurskoðandi eða hafa aflað sér sérmenntunar í skattalöggjöf og framkvæmd hennar. Víkja má þó frá þessu, ef maður hefur áður gegnt skattstjórastarfi. Með þessum ákvæðum eru gerðar strangari kröfur en hingað til hefur verið um undirbúningsmenntun skattstjóra. Er ætlunin sú að koma á þeirri skipan, að á skattstofunum starfi menn, sem eru menntaðir og þaulvanir þessum málum, skattamálum, og með þessu komist á meira samræmi, betra eftirlit, heldur en hingað til hefur verið. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þdm. að gera svo vel að hafa hljótt í fundarsalnum.)

Nú er það svo, að enginn einn embættismaður hefur yfirstjórn skattamálanna í landinu, að undanteknu að sjálfsögðu því, að skattamálin öll heyra undir fjmrn. En hver skattstjóri hefur sitt umdæmi, og það er talið nauðsynlegt að koma á þeirri skipan, að hér verði einn maður, sem hefur yfirsýn, umsjón og yfirstjórn á þessum efnum, og því mælir 31. gr. svo fyrir, að skipaður skuli ríkisskattstjóri. Hann skal fullnægja sömu skilyrðum og ákveðin eru í 29. gr. um embættisgengi skattstjóranna. Og ríkisskattstjórinn, sem verður formaður ríkisskattanefndar, á að hafa viðtækt eftirlit, leiðbeiningar og rannsóknarvald í skattamálum.

Með þessari breyt. á framkvæmd skattamála er gert ráð fyrir því, að vinnist margt. í fyrsta lagi er talið, að þessi skipan muni verða miklum mun ódýrari heldur en sú, sem nú hefur verið um langan aldur, þannig að með þessari nýju skipun sparist verulegt fé. En í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að meira samræmi og betra og strangara eftirlit komist á í þessum efnum heldur en verið hefur.

Ég hef nú rakið í stórum dráttum hinar helztu breyt., sem gerðar eru með þessu frv. frá gildandi lögum. Að sjálfsögðu eru breyt. miklu fleiri, og vísa ég um það til grg, frv. Þótt hér sé um mjög veigamiklar endurbætur að ræða í skattamálum, má þetta ekki skiljast svo, að ýmsar fleiri breyt. en þessar væru ekki æskilegar. Ég tel, að það sé margt í okkar skattalöggjöf, sem enn þurfi að breyta, en skal nú ekki fara út í það atriði frekar hér. Ef þetta frv. verður að lögum, þá verður að sjálfsögðu haldið áfram endurskoðun skattalaganna, ekki með þeim hætti að gera ráð fyrir sérstakri nefnd, sem hafi það með höndum, heldur verður það fyrst og fremst að vera í höndum ríkisskattstjórans að benda á þær breyt., sem hann telur að verði til bóta, og annað það, sem æskilegt væri að breyta, eftir því sem reynslan sýnir okkur á hverjum tíma.

Ég legg svo til, að Þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.