24.03.1962
Neðri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

164. mál, innheimta opinberra gjalda

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er um heimild til sameiginlegrar innheimtu opinberra gjalda. í 1. gr. segir, að fjmrh. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs, forráðamönnum sveitarfélaga, svo og opinberum stofnunum að semja sin á milli um, að innheimt skuli í einu lagi gjöld, sem greiða ber Þessum aðilum. Í 2. gr. segir um hlutdeild hvers aðila í kostnaði þessarar gjaldheimtu. Í 3. gr. segir, að allar skyldur og réttindi í sambandi við slíka innheimtu skuli ganga til Þess aðila, sem tekur að sér hina sameiginlegu innheimtu. í 4. gr. segir, að sameina megi gjalddaga einstakra opinberra gjalda o.s.frv. Og 5. gr. fjallar um sérákvæði, ef sjúkrasamlag er aðili að innheimtu.

Tildrög Þessa máls eru Þau, að á árinu 1960 hóf fjmrn. athugun á Því, hverjar leiðir kynnu að vera til að lækka útgjöld við innheimtu þinggjalda í Reykjavík, en með þinggjöldum er aðallega átt við tekjuskatt, eignarskatt, námsbókagjald, kirkjugjald, kirkjugarðsgjald, almannatryggingagjald, slysatryggingagjald og atvinnuleysistryggingagjald. Þessi athugun leiddi í ljós, að með skipulagsbreytingum og endurbótum varðandi bókhald og innheimtu mætti draga verulega úr kostnaði. Kom þar einkum til greina aukin vélanotkun og hentugra fyrirkomulag í skrifstofuhaldi. Þegar þetta lá fyrir, að verulega mætti spara með breytingum á fyrirkomulagi þinggjaldanna, kom til athugunar, hvort ekki væri rétt að stofna til sameiginlegrar innheimtu á þessum ríkissjóðstekjum og hins vegar fasteignagjöldum og útsvörum til borgarsjóðs Reykjavíkur. Viðræður fóru fram við forráðamenn Reykjavíkurborgar, og niðurstaðan varð sú, að báðir aðilar töldu sér mikinn ávinning að því að sameina innheimtuna. Eftir þessar viðræður þótti rétt að kanna, hvort Sjúkrasamlag Reykjavíkur hefði ekki einnig hug á því að sameina innheimtu sjúkrasamlagsgjalda þessum gjöldum til ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar. Sú athugun leiddi í ljós, að þar gæti einnig verið um verulegan sparnað að ræða.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er almenn heimild til sameiningar á innheimtu, en fyrsta skrefið er fyrirhugað það, að sameinuð verði á eina hönd innheimta Þinggjalda í Reykjavík, útsvara og fasteignagjalda til borgarsjóðs Reykjavíkur og sjúkrasamlagsiðgjalda. Ef þetta ber góðan árangur, kemur að sjálfsögðu til greina að sameina einnig innheimtu fleiri gjalda hér í Reykjavík, ef til vili afnotagjalds útvarps o.fl., og einnig verður að sjálfsögðu kannað, hvort ekki mundi henta að sameina einnig innheimtu á ýmsum stöðum utan Reykjavíkur, en fram til þessa hefur rannsókn þessara mála beinzt að Reykjavík einni. Frv. sem sagt heimilar sameiningu innheimtu einnig á öðrum stöðum.

Varðandi sparnað við Þessa sameiningu er það ljóst, að hann getur orðið verulegur, og stafar það bæði af því, að sameiningin ein út af fyrir sig sparar verulegt fé, en auk þess munu þær endurbætur, sem fyrirhugaðar eru varðandi bókhald, skrifstofuhald og starfshætti Þessarar sameiginlegu innheimtu, leiða til verulegs sparnaðar. Það er gert ráð fyrir því, að miðað við ársgrundvöll muni kostnaðurinn nú hjá þessum þremur aðilum vera um 11 millj. kr. Eftir sameininguna er gert ráð fyrir, að rekstrarkostnaður verði um 5 millj. kr., þannig að áætlanir þær, sem gerðar hafa verið, benda til þess, að spara megi við þetta um 6 millj. kr. á ári. Það er gert ráð fyrir því, að samið sé um skiptingu kostnaðarins á milli þessara aðila frá ári til árs, en í fyrstu er gert ráð fyrir, að 42–43% af kostnaðinum falli í hlut ríkisins, sama hundraðstala í hlut Reykjavíkurborgar og afganginn greiði Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Þessi hlutföll verða svo endurskoðuð, eftir að reynsla er komin um eitt ár af þessari starfsemi, og þá metið að nýju, hver sé eðlileg hlutdeild hvers aðila í kostnaðinum.

Við þessa sameiningu er gert ráð fyrir, að ríkissjóður og Sjúkrasamlag Reykjavíkur spari hlutfallslega mest, og það stafar af því, að fyrir nokkrum árum voru gerðar gagngerðar breytingar á innheimtu- og bókhaldsfyrirkomulagi bæjargjalda til Reykjavíkur, þannig að þær endurbætur, sem nú eru fyrirhugaðar í þessu efni, eru þegar fyrir nokkru komnar í framkvæmd varðandi innheimtu útsvara og fasteignagjalda.

Ég vænti þess, að þessar skýringar nægi, vil aðeins bæta því við, að auk þess sparnaðar, sem af þessu leiðir, er enginn vafi á því, að bæði fyrir launagreiðendur og aðra þá, sem ber samkv. lögum skylda til að innheimta opinber gjöld, er mikið hagræði að því að gera skil til eins aðila í stað þriggja eða fleiri áður. Innheimtan ætti að vera árekstraminni og árangursríkari, uppgjör reikninga og skulda verða auðveldara. Fyrir gjaldendur ætti það einnig að vera hægðarauki að geta greitt þessi gjöld sín á einum stað.

Ég vænti þess, að mál þetta, sem alger samstaða var um í hv. Ed., fái sömu viðtökur hér í þessari d., og legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.