07.12.1961
Neðri deild: 32. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

9. mál, alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávarins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið svo um alllangt skeið, að ýmsir hafa haft af því áhyggjur þungar, hversu óhreinkun sjávar af völdum olíu hefur aukizt hin síðustu ár og áratugi með vaxandi notkun olíu og tilsvarandi miklum flutningum á henni.

Olíumengun sjávar stafar að langmestu leyti frá skipum og þá fyrst og fremst olíuflutningaskipum, en þau skip eru nú talin vera um 4000 í gangi í heiminum og þá þau aðeins talin með, sem eru yfir 1000 brúttórúmlestir. Þegar olíuflutningaskip hafa lokið við losun farms síns, er venjulegt, að einhverjir af geymum þeirra eru fylltir af vatni til kjölfestu og byrjað að hreinsa þá, sem tómir eru, til þess að hafa þá tilbúna til þess að taka við nýjum farmi á lestunarstað. Hreinsun þessi fer fram á þann hátt, að það er sprautað í tankana heitum sjó með miklum þrýstingi, og var til skamms tíma hinu olíublandaða vatni alltaf dælt í sjóinn og er oft gert enn. Þess vegna getur það komið fyrir, að sjór verði af þessum sökum mjög mengaður olíu, sem flýtur ofan á sem brák, og vegna þess, hve hún er miklu léttari en sjórinn, þá heldur hún samhengi og getur flutzt um langan veg án þess að blandast við sjóinn, svo að nokkru nemi. Flutningaskip, sem nota geyma sína ýmist fyrir olíu eða fyrir kjölfestu, koma næst á eftir olíuflutningaskipunum að því er varðar óhreinkun sjávarins. Fjöldi skipa notar olíugeyma sína fyrir kjölfestuvatn, þegar búið er að nota olíuna af þeim, og er svo olíumenguðu kjölfestuvatninu dælt út, áður en skipið er lestað eða þegar taka þarf nýjar olíubirgðir um borð. Í nær öllum vélknúnum skipum drýpur eitthvað af olíu niður og blandast við austurinn í vélarúminu, sem síðar er dælt út, og er hér að vísu venjulega um lítið magn að ræða í hverju skipi, en á hinn bóginn eru skipin orðin ákaflega mörg, sem olíuna nota. Einnig eiga olíustöðvar í landi sinn þátt í olíuóhreinkun sjávarins, svo að taka verður fullkomlega tillit til þeirra líka. En af eðlilegum fjárhagslegum ástæðum er þó reynt að forðast, að olían berist í sjó frá þessum stöðum, og þegar það kemur fyrir, má oftar kenna vangá eða óhöppum en slæmum útbúnaði, eins og t.d. að leki komi að geymum, pípum eða lokum eða eitthvað þess háttar.

Afleiðingar þessarar olíumengunar sjávarins og óþægindi í því sambandi eru ýmis. Sú afleiðing olíumengunarinnar, sem langmestan þátt virðist eiga í því, að aðgerðir hafa verið hafnar erlendis til þess að koma í veg fyrir þennan óþrifnað, er saurgun á ströndum landanna og þá alveg sérstaklega á baðströndunum. Þetta kemur náttúrlega ekki mikið við okkur. En saurgun stranda af þessum orsökum er ákaflega hvimleið og leiðinleg, og mátti bezt sjá það, hvernig Seyðisfjörður fór, þegar olíuskipið var skotið þar í kaf og nálega allur fjörðurinn fylltist af olíu frá höfninni og út í fjarðarmynni, svo að ströndin öll, sem að firðinum lá, varð raunar alveg svört og mjög leiðinleg á allan hátt, og þó að þetta hafi verið sérstakt tilfelli og óhapp, verður olíuóhreinkun sjávarins yfirleitt til þess, að strendur landa geta af þessum orsökum orðið svona útleiknar, þó að ekki þurfi það að vera eins mikið og var í þessu tilfelli.

Hjá okkur er talið, að sjófugladauði sé hvað hvimleiðasta afleiðing olíumengunar sjávarins, en kemur þó í öðru sæti í röksemdafærslu framámanna í þessum málum erlendis. En hér tel ég, að einmitt þetta atriði sé það, sem mestum skaða veldur okkur og leiðast sé að búa við. Við höfum ýmsa nytjafugla, svo sem æðarfuglinn, sem hefur oft og tíðum lent illa í þessu, og er æskilegt, að reynt verði að koma í veg fyrir það, eins og mögulegt er. Ef fuglar lenda í olíu, missa þeir möguleikann til þess að fljúga, þeir missa dún og fjaðrir og flothæfileika, þar sem fiðrið gegnblotnar. Þeir geta ekki hafið sig til flugs og deyja ömurlega, oft á löngum tíma.

Rannsóknir hafa farið fram á því erlendis sums staðar, hve mikil brögð séu að olíudauða fugla. Í Bretlandi hafa þess háttar rannsóknir verið gerðar af Royal Society for Protection of Birds, eða fuglaverndunarfélagi, verður það víst að þýðast, en fyrstu athuganir þar fóru fram á tímabilinu október-marz 1951–52, þannig að sjálfboðaliðar gengu reglulega á fjörur á strandlengjum í leit að dauðum eða olíuötuðum fugli. Árangur athugana þessara gaf í skyn, að milli 50 þús. og 250 þús. fuglar hefðu drepizt af völdum olíu þennan vetur við Bretlandsstrendur. Rannsóknum þessum var haldið áfram 3 næstu vetur, og voru niðurstöður svipaðar, eins og að ofan getur. Þjóðverjar hafa einnig látið fara fram athuganir á þessu máli, og hefur verið stuðzt við skýrslur frá fuglaathugunarstöð á Helgolandi í því efni. Er álitið, að a.m.k. 12 þús. fuglar hafi látið lífið hvert ár við strendur Þýzkalands af þessum orsökum. Sömu sögu hafa Hollendingar að segja, og hafa þeir látið fara fram allnákvæma athugun á strandlengjum síns lands og komizt að raun um, að a.m.k. 20 þús. fuglar farist árlega við Hollandsstrendur og geti þó sú tala verið miklu hærri, eða allt upp í 50 þús. fugla.

Aðrar afleiðingar af olíumengun sjávarins eru óhreinkun hafnarmannvirkja og veiðarfæra. En ekki er vitað, að verulega hafi gætt skaðlegra áhrifa fljótandi olíu á dýralíf eða gróður sjávarins. Þó er ekkert hægt að fullyrða um þetta, og má vel vera, að einmitt í þessu felist líka nokkur hætta.

Upp úr heimsstyrjöldinni fyrri fór athygli manna að beinast að olíuóhreinkun sjávarins, enda fer þá mjög vaxandi fjöldi olíukyntra skipa og mótorskipa og olíuflutningaskipum fjölgar mjög með hinni geysilegu aukningu olíunotkunar í heiminum. Bretar riðu fyrstir á vaðið til aðgerða í þessum vanda með því að boða til ráðstefnu skipaeigenda, olíufélaga og hafnaryfirvalda, með þeim árangri, að samþykkt voru lög, sem afgreidd voru árið 1922, um þessa hluti. Lög þessi bönnuðu gegn háum sektum, að olíu eða olíumenguðum sjó væri dælt útbyrðis. Og ekki leið á löngu, þar til aðrar þjóðir höfðu samið svipuð lög eða reglugerðir um þetta efni innan sinnar lögsögu, en þau gátu náttúrlega ekki tekið neinar ákvarðanir um það, sem gerðist utan þeirra lögsögu.

Árið 1934 skaut Bretastjórn málinu til þjóðabandalagsins, sem þá var starfandi, og skipaði þjóðabandalagið þá nefnd sérfróðra manna til að búa út uppkast að nýrri alþjóðasamþykkt um olíuvandamálið. Er hún hafði lokið sínu starfi og átti að fara að kalla saman nýja alþjóðaráðstefnu um málið, brauzt heimsstyrjöldin síðari út, svo að nú höfðu menn öðrum hnöppum að hneppa en hugsa um þessi mál. En það næsta, sem gerist í málinu á alþjóðavettvangi, er ráðstefnan, sem Bretar buðu til í London í maímánuði 1954, þar sem þessi alþjóðasamþykkt, sem hér liggur fyrir, varð til. Störf þessarar samkundu, sem kölluð var saman 1954, byggðust að verulegu leyti á því, sem þjóðabandalagið hafði í málinu gert áður, og því, sem margar þjóðir höfðu framkvæmt á árunum fyrir styrjöldina. Fulltrúar 32 þjóða tóku þátt í þessari ráðstefnu í Bretlandi. Auk þess sendu 10 lönd áheyrnarfulltrúa og Sameinuðu þjóðirnar tvo áheyrnarfulltrúa. Og árangurinn af ráðstefnunni varð, eins og ég sagði, alþjóðasamþykkt um að fyrirbyggja óhreinkun sjávar af völdum olíu.

Í stórum dráttum er efni þessarar samþykktar þetta :

Í fyrsta lagi er orðið „olía“ skilgreint og til hvaða olíutegunda þessi samþykkt taki, þ.e.a.s. aðallega til þyngri olíanna. Undantekninga frá ákvæðum samþykktarinnar er síðan getið, en þær undantekningar taka til skipa, sem eru undir 500 brúttó-registertonnum, og til hvalveiðiskipa. Síðan kemur aðalefni samþykktarinnar, en það er, að bannsvæði eru ákveðin í viðauka við samþykktina, og innan takmarka þessara bannsvæða er tankskipum bannað að losa olíu eða olíumengaðan sjó. Og kemur þetta einnig til að gilda um önnur skip að þrem árum liðnum, frá því að samþykktin tekur gildi, nema þau séu á leið til hafnar, þar sem ekki eru skilyrði til að losna við olíuúrganginn, en þó skulu slík skip reyna að losa sig við hann eins fjarri landi og framkvæmanlegt er. Þá er ákvæði um, að skip með olíumengað austursvatn skuli útbúin skilvindum, þar sem hægt er að ná olíunni úr vatninu. Þá er ákvæði um það, að ríkisstj. skuli tryggja, að fyrir hendi sé í aðalhöfnum fullnægjandi útbúnaður til þess að taka við sora og olíuúrgangi úr öðrum skipum en tankskipum, og loks, að olíudagbók skuli vera færð í hverju skipi.

Þessi samþykkt var gerð í Bretlandi árið 1954, og til þess var ætlazt, að sem flest lönd gerðust aðilar að henni, og m.a. var því beint til íslenzku ríkisstjórnarinnar, að við tækjum einnig þátt í þessu samstarfi. Það varð til þess, að hinn 6. apríl 1956 skipaði þáv. siglingamálaráðh., Ólafur Thors, 7 manna nefnd til að athuga óhreinkun sjávar af olíu frá skipum, umbúnað olíustöðva í landi og óhreinkun sjávar af þeirra völdum og tjón, er þessi olíuóhreinkun veldur, og til að gera tillögur til rn. um málið. Í nefndina voru skipaðir auk skipaskoðunarstjóra, sem var formaður nefndarinnar, vita- og hafnarmálastjóri, einn fulltrúi olíufélaganna, einn fulltrúi skipafélaganna, einn efnafræðingur frá fiskideild atvinnudeildar háskólans, einn náttúrufræðingur og hafnarstjórinn í Reykjavík. Þessi nefnd hefur svo með meiri og minni töfum unnið að því að athuga þetta mál, og um áramótin 1960–61, eða í desember 1960, hefur þessi nefnd skilað áliti um málið. Tillögur n. eru þær í stuttu máli, að Ísland gerist aðili að samþykktinni frá 1954 og að settar verði reglur um meðferð olíu í olíustöðvum á landi, að því er varðar olíumengun sjávar, og loks, að settar verði reglur um meðferð olíu við og í höfnum landsins og næðu slíkar reglur þá einnig til íslenzkra skipa, sem samþykktin tekur ekki til, þ.e.a.s. skipa undir 500 tonnum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Hér er um mál að ræða, sem margar erlendar þjóðir hafa snúizt þannig við, að þær telja nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þessa óhreinkun sjávarins, í fyrsta lagi, eins og ég sagði, vegna baðstrandanna, í öðru lagi vegna fuglanna, í þriðja lagi vegna þess, hve það er almennt hvimleitt, að hafnarmannvirki og strendur séu útataðar í olíu, og loks með hliðsjón af því, þó að ekki sé beinlínis um það vitað eða hægt að fullyrða neitt um það, að það er ekki útilokað og jafnvel kannske nokkuð líklegt, að þessi olíumengun sjávarins geti haft áhrif á dýralíf í sjónum.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.