16.04.1962
Neðri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar þetta frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna var lagt fyrir Ed. fyrir nokkrum dögum, gerði ég ýtarlega grein fyrir því. Þegar þess er einnig gætt, að ýtarleg grg. fylgir þessu frv. ásamt ýmsum fylgiskjölum, sem skýra málið mjög rækilega, sé ég ekki ástæðu til að rekja það hér að svo stöddu, en aðeins taka það fram, að eins og ríkisstj. gekk frá frv. og flytur það, var fullt samráð haft og samkomulag við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og stjórn þess bandalags samþykkti með atkv. allra 9 stjórnarmanna að mæla með samþykkt frv., eins og það liggur hér fyrir. Ég vil leggja til, að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.