17.04.1962
Neðri deild: 97. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf., fulltrúi Alþb. í fjhn., hefur fjarvistarleyfi, af því að hann skrapp í morgun austur í sitt kjördæmi, en hefur á fjhn.-fundi í morgun tekið þá ákvörðun að flytja sérálit í þessu máli, lagt fram brtt., sem enn hefur ekki verið útbýtt. Hins vegar býst ég við, að þær brtt. komi mjög bráðlega, og þær eru alveg samhljóða því, sem er á þskj. 769 frá Ed., þannig að ef hv. þm. hafa það þskj. hjá sér, þskj. 769, sem voru brtt., sem fluttar voru í Ed. af hálfu fulltrúa Alþb. í þeirri n. Ed., sem fjallaði um þetta, fjhn., þá yrðu það samsvarandi brtt., sem fluttar eru. En hins vegar, eins og hv. frsm. fjhn. gat um, þá er nauðsynlegt, að það sé höfð fljótaskrift á þessu máli nú, þannig að ég tel ekki rétt að fara fram á, að dokað verði við, þangað til þessum brtt. hefur verið útbýtt, heldur mun nú eftir ósk hv. 4. Þm. Austf. mæla nokkur orð með þessum till. og skýra afstöðu okkar þm. Alþb.

Frá því að opinberir starfsmenn voru með bannlögunum á verkföll 1915 settir í aðra aðstöðu en aðrir launþegar á Íslandi, hafa þeirra samtök og þeirra félög barizt fyrir því að fá samningsrétt og verkfallsrétt eins og aðrir launþegar. Strax þegar lögin voru sett 1915, voru ýmsir hinna mætustu manna hér á þingi, sem stóðu gegn því og vöruðu við því, og forustumenn BSRB hafa, frá því að það bandalag var stofnað, sífellt gert samþykktir um það, og hafa þær samþykktir verið studdar á þingum BSRB, að afnema bæri bannlögin við verkföllum frá 1915 og veita Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og hinum einstöku félögum þess jafnan rétt á við önnur launþegafélög í landinu, samningsrétt og verkfallsrétt.

Starfsmenn hins opinbera hafa þannig háð nú á 20. öld á vissan máta samsvarandi baráttu og verkalýðsfélögin háðu á sínum tíma, fyrst fyrir því, að þeim væri leyfilegt að starfa, og síðan fyrir því, að þeim væri leyfilegt að koma á verkföllum. Náttúrlega hefur sú barátta starfsmanna hins opinbera ekki verið eins hörð og sú barátta verkalýðsins var, enda ætti nú skilningurinn á okkar 20. öld að vera það mikill á þessum réttindum, að það ætti að geta hafzt í gegn, án þess að til svo róttækra aðgerða væri gripið eins og verkalýðurinn þurfti að gera, þegar hann var að knýja fram sín réttindi.

Meðan starfsmannafélög hins opinbera hafa ekki haft þessi réttindi, hafa þau raunverulega fyrst og fremst orðið að treysta á það, að þeir verkamenn í landinu, sem harðast sæktu fram, ynnu um leið fyrir þá í baráttunni, og afstaðan hefur orðið sú, að jafnvel einmitt félög hinna fátækustu verkamanna í landinu hafa á undanförnum árum og áratugum orðið að heyja þá baráttu, sem m.a. starfsmenn hins opinbera og þeirra bandalag hefur upp skorið ávextina af. Ég veit, að mörgum hefur fundizt það hart einmitt í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, að þeir skyldu verða að treysta á það, að fátækustu verkamennirnir yrðu oft að leggja á sig löng verkföll, sem síðan, þegar þau unnust, komu til góða starfsmönnum hins opinbera og öllum embættismönnum ríkisins.

Það hefur þess vegna verið svo og alveg sérstaklega verið greinilegt nú á síðustu tveim árum, eftir að mest hrakaði launakjörum opinberra starfsmanna eins og annarra launþega, að innan BSRB og félaga þess ók í sífellu baráttuhugurinn, og því var svo komið nú í vor, að kennarar við gagnfræðaskólana og barnaskólana hér í Reykjavik höfðu flestallir sagt upp sínu starfi frá því í haust. Það var raunverulega eina aðferðin, sem var eftir skilin þessum réttindalausu starfsmönnum. Og þegar yfirvöldin stóðu frammi fyrir því, að það mundi skorta kennara til þess að reka skólana hér í Reykjavík, bæði barnaskóla og æðri skóla, þá virðast yfirvöldin hafa rankað við sér, að svona mætti ekki lengur til ganga. Þá var fallizt á allverulega kauphækkun handa kennurunum og jafnframt sleginn botninn í alllanga samninga, sem fram höfðu farið milli ríkisstj. og BSRB, og er nú þetta frv. árangur Þeirra samninga.

Það, sem er Það merkilega við þetta frv. og það jákvæða við það, er sú réttarbót, sem opinberir starfsmenn fá með því, að Þeir öðlast samningsrétt. Þeir geta talað sem viðurkenndir aðilar, sem fulltrúar sinnar stéttar við hið opinbera, við fulltrúa ríkisvaldsins. Þeir geta samið, þeir geta greitt atkvæði í sínum félögum um þær till., sem fram koma, þeir geta látið í ljós sína skoðun með slíkum atkvgr. um, hverjar kröfur beri að gera, að hverjum till. beri að ganga, og hafa þannig allan þann samningsrétt, sem verkalýðsfélögin lengi hafa notið, og þessi samningsréttur er tvímælalaust mjög mikils virði, svo mikils virði, að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja tók einróma þá afstöðu að mæla með þessu frv. vegna þessara réttinda, sem þar með fengjust. Það, sem hins vegar næst ekki með þessu frv., er verkfallsréttur opinberra starfsmanna, og stjórn BSRB, sem var alveg einhuga um sína afstöðu, sagði í þeirri ályktun, sem hún gerði um þessi mál, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt ríkisstj. hafi ekki fallizt á, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt til jafns við aðra launþega, eins og bandalagsstjórn hefur barizt fyrir í samræmi við stefnu bandalagsþinga, telur stjórnin, að bandalagið hafi með frv. náð svo mikilvægum áfanga, að fulltrúum þess beri að samþykkja það, þó að hún viðurkenni ekki réttmæti þess, að kjör launþega séu ákveðin með lögskipuðum gerðardómi. Jafnframt telur stjórn BSRB sjálfsagt, að unnið verði áfram að því lokamarki, að opinberir starfsmenn njóti sama samningsréttar og aðrir launþegar búa við.“

Þetta var kafli úr ályktun, sem stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gerði, þar sem er jafnframt einróma lýst yfir samþykki við þetta frv. vegna þessara réttarbóta, sem í því felist, en jafnframt einróma lýst yfir, að stjórn BSRB viðurkenni ekki réttmæti þess, að kjör launþega séu ákveðin með lögskipuðum gerðardómi.

Það liggur því alveg greinilega fyrir, að það, sem stjórn BSRB með þing þess sambands á bak við sig óskar eftir, er, að kjör launþega í bandalaginu verði ekki ákveðin með lögskipuðum gerðardómi, heldur fái bandalagið og félög þess sömu réttindi og verkalýðsfélögin hafa nú þegar. Við álítum, að það eigi að verða við þessum kröfum. Við metum til fulls það stóra spor, sem stigið er með þessu frv. En við álítum, að Alþingi eigi að stíga sporið fullt, það eigi að veita starfsmannafélögunum og BSRB þennan rétt, sem þeir fara fram á, og fella burt úr frv. þann kafla og þau ákvæði, sem snerta það, sem kallað er í 14. gr. kjaradómur, sem er raunverulega nokkurs konar nýr gerðardómur. Og Alþb. flytur þess vegna brtt. á þskj., sem bráðlega verður útbýtt hér í d. og lagt var inn í morgun, sem eru samhljóða þeim brtt., sem voru á þskj, frá Ed., nr. 769, og skal ég nú örstutt gera grein fyrir þeim brtt.

Það er í fyrsta lagi sú brtt., að í 1. gr. falli niður 1. tölul. 2. mgr., þ.e. ákvæði, sem þar er um að undanþiggja ráðh. og hæstaréttardómara, Það ákvæði falli niður, þannig að ráðh. og hæstaréttardómarar sitji við sama borð og aðrir starfsmenn hins opinbera, þannig að það sé samið um þeirra kjör. Það virðist engin sérstök ástæða til þess að aðgreina þá frá öðrum starfsmönnum hins opinbera. Þeir hafa í launalögunum fram að þessu verið þar eins og aðrir starfsmenn, og þó að menn álíti, að þeim beri hærri laun en þeir hafa fengið fram að þessu, og menn hafi þar rétt að mæla, þá ætti líka í þeim samningum, sem fram fara, að vera hægt að tryggja það, að þessum miklu trúnaðarmönnum íslenzka ríkisins verði tryggð þau laun, sem þeim ber.

Þá er 2. brtt., við 2. gr. í 2. gr. er nú lagt til, að fjmrh. fari með fyrirsvar ríkissjóðs í þessum samningum. Við álítum það ekki eðlilegt, að fjmrh. fari einn, hver sem hann er á hverjum tíma, með slíkt fyrirsvar, og er það alveg óháð því, hvort við erum t.d. Alþb.- menn í ríkisstj. eða utan hennar á hverjum tíma, við álítum það ekki rétt, að þetta vald sé falið einum aðila. Nú er það þannig, að það er Alþingi, sem setur launalögin, þannig að það er núna Alþingi, sem er aðilinn, sem hvort sem við viljum nú kalla það semur um þessi laun eða ákveður þau, Þannig að við álítum rétt, að það sé framvegis Alþingi, sem sé aðilinn til samninga f.h. ríkisvaldsins við starfsmenn hins opinbera. Alþingi er eðlilega höfuðgrundvöllur ríkisvaldsins á Íslandi, og í þessum samningum álítum við rétt, að það sé Alþingi, sem hafi þarna fyrirsvar ríkisins, og það sé n. fimm manna, sem séu kosnir með hlutfallskosningu af Alþingi, sem annist þessa kjarasamninga. Við leggjum til, að 2. gr. verði breytt þannig, að hún hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta: „N. fimm manna, sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþingi, fer með fyrirsvar ríkisins, að því er varðar kjarasamninga skv. lögum þessum.“

Þá leggjum við til í þriðja lagi, að í 4. gr. breytist 2. mgr., sem er um það, að launakjör ráðh. og hæstaréttardómara skuli ákveðin af kjaradómi, orðist þannig: „Um launakjör ráðherra, hæstaréttardómara, ráðuneytisstjóra og forstöðumanna ríkisstofnana fer eftir ákvæðum laga um laun starfsmanna ríkisins.“

Það er með kjaradóminn t.d., það er engan veginn viðkunnanlegt, það er ráðh., sem skipar einn mann í hann, og hæstiréttur, sem tilnefnir þrjá menn, þannig að það er engan veginn eðlilegt, að það sé komið undir ákvörðun þess dóms, sem hæstiréttur og hæstaréttardómararnir og ráðh. útnefna að 4/5 hlutum, hvaða laun þessir menn hafa. Það er sama sem að gefa þeim sjálfdæmi. Þótt menn vilji fara að gera betur við ráðh. og hæstaréttardómara en gert hefur verið fram að þessu, þá er ekki ástæða til þess að selja þeim sjálfdæmi í þessum efnum.

Þá er 4. brtt., við 7. gr. frv., og hún er á þá leið, að kjarasamningar skuli vera skriflegir og gerðir til ekki skemmri tíma en eins árs, en að greinin annars falli niður. Nú er gengið út frá því, að samningarnir skuli vera til tveggja ára. Hins vegar er í öðrum lagagreinum og síðari hlutanum af 7. gr. slegið föstu, að svo framarlega sem almennar breytingar verði á kaupgjaldi í landinu, þá skuli teknir upp samningar um að breyta þessu líka. Það er tvímælalaust óheppilegt að hafa þetta ákvæði. Við vitum allir saman, að það hefur verið það leiða við allar kaupgjaldsbreytingar á undanförnum árum, að þegar félag lægst launuðu og fátækustu verkamannanna, Dagsbrúnarmanna, hefur farið í verkfall og hefur máske oft með alllangri og fórnfrekri baráttu sigrað meira eða minna í því verkfalli, þá hefur, þegar þessir verkamenn, sem tekið hafa á sig þyngstu byrðarnar í baráttunni fyrir hækkuðum launum, hafa verið búnir að fá sín launakjör bætt, þá hefur það verið framkvæmt sjálfkrafa fyrir alla aðra aðila. Þetta er ekki réttmætt. Það er rétt, að hver aðili fyrir sig semji í þessum hlutum, og ég verð alveg sérstaklega að benda á, að meira að segja hæstv. ríkisstj. virðist vera þeirrar skoðunar, að það þurfi að komast út úr bessum vítahring í íslenzkum kaupgjaldssamningum, að begar t.d. Dagsbrún sé búin að semja, þá komi það af sjálfu sér, að allir aðrir fái eitthvað samsvarandi. Það þarf hvert félag að geta samið fyrir sig og tekið sína ákvörðun fyrir sig. Þess vegna álítum við, að 7. gr. eigi að breytast þannig, að kjarasamningar séu gerðir til ekki skemmri tíma en til eins árs, og síðan skuli þar við sitja, enda leggjum við svo aftur til við aðra gr., að þar séu gerðar þær breytingar, sem veita starfsmönnum hins opinbera fullan rétt líka til verkfalla.

Næst er 5. brtt. okkar, við 13. gr., þar sem tekið er fram og er í samræmi við það, sem lagt var til við breyt. á 2. gr., að formaður þeirrar n., sem Alþingi hefur kosið, skuli greiða atkvæði um miðlunartill., í staðinn fyrir að í 13. gr. er ákveðið, að fjmrh., svo að það sé í samræmi við 2. gr., skuli greiða slík atkvæði.

Höfuðbrtt. okkar eru hins vegar tvær: í fyrsta lagi við 14. gr., það er 6. brtt. á því þskj., sem útbýtt verður. Þar er ákveðið, eins og lagafrv. er nú, að Þegar ekki hafi tekizt samningar, þá skuli vísað til kjaradóms. Við leggjum hins vegar til, að þessi grein orðist þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Að öllu öðru leyti en fram er tekið í lögum þessum skulu gilda ákvæði laga nr. 80 1938, eftir því sem við á, varðandi verkföll, verkbönn og sáttatilraunir í vinnudeilum, er varða þá opinberu starfsmenn, er lög þessi taka til.” M.ö.o., að í 14. gr. sé ákveðið, að hinir opinberu starfsmenn hlíti sömu réttindum og sömu skyldum, hlíti sömu lögum og aðrir launþegar í landinu, verkamenn fengu með vinnulöggjöfinni frá 1938. Og í samræmi við þessa till. leggjum við síðan til í 7. brtt., að IV. kaflinn falli burt, 15.—21, gr., sem fjalla um kjaradóminn.

Eins og menn muna, hefur það komið fyrir áður í íslenzkri löggjöf, að það hefur verið reynt með brbl. að skapa gerðardóm í vinnudeilum verkamanna, og var fljótlega horfið frá því. Við álítum, að þó að þessi lög séu mikil framför frá því, sem verið hefur áður í þessum efnum, þá sé rétt að stíga það spor, sem nú er stigið, fullt með því að veita starfsmönnum hins opinbera sama rétt og verkamönnum og fara þess vegna ekki inn á neinn kjaradóm eða gerðardóm í þessum efnum, heldur láta fara þarna bara eftir vinnulöggjöfinni. Um það fjalla okkar 6. og 7. brtt. Ég þykist vita, að það muni, ef þær verða ekki samþ. núna, okkar brtt., þá muni ekki líða nema nokkur ár, þangað til orðið verður við þessu. Ég veit, að BSRB mun halda áfram, eins og stjórn þess einróma hefur lýst yfir, baráttunni fyrir því að fá þau réttindi, og það væri skemmtilegra af hálfu Alþingis að veita þeim þessi réttindi, þegar þeir óska þeirra nú, heldur en að láta þá vera að heyja langa og máske erfiða baráttu fyrir að fá þau.

Þá. leggjum við til í 8. brtt. aðeins í samræmi við þessar till.. að orðin þar um kjaradóm og enn fremur orðin „og dómenda“ falli niður. Það er í 26. gr.

Þá er að lokum 9. brtt. um, hvaða lög skuli falla úr gildi. þ.e. að breyta 29. gr. og m.a. bæta þar inn í að fella lögin nr. 33 frá 1915, um verkfall opinberra starfsmanna, niður, og enn fremur að fella niður ákvæðin til bráðabirgða.

Þetta eru höfuðbrtt., og þótt þær séu þetta margar, þá býst ég við. að þm. sé ljóst, þó að því miður sé ekki búið að útbýta þskj., að höfuðatriðin eru raunverulega þessi tvenn, annars vegar að veita hinum opinberu starfsmönnum fullan verkfallsrétt og hins vegar að láta n. fimm manna, sem kosnir væru með hlutfallskosningu á Alþingi, fara með fyrirsvar ríkisins í þessum efnum.

Einu vildi ég þó skjóta fram hérna, aðeins til athugunar fyrir þm., án þess að ég hvorki flytji né óski eftir neinni brtt. um slíkt nú, en aðeins vekja athygli á því, af því að það er almennt júridískt atriði í þessum málum. Þegar sagt er í 3. gr., að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja skuli fara með fyrirsvar ríkisstarfsmannanna, þá er það að vísu mjög eðlilegt, eins og sakirnar standa nú, og þetta bandalag hefur líka haft alla baráttu og alla samninga og allt slíkt um þetta. Hins vegar vil ég vekja eftirtekt á því, að í sjálfri vinnulöggjöfinni er svo ákveðið með því orðalagi, sem þar er. að samband eða sambönd verkalýðsfélaga skuli fara með slíkt fyrirsvar, að svo miklu leyti sem það eru ekki hin einstöku verkalýðsfélög, og yfirleitt er það þar, að það eru hin einstöku verkalýðsfélög, sem hafa með slíkt að gera. Ef fullt samræmi hefði átt að vera þarna á milli, þá hefði átt að ákveða, að starfsmannafélögin færu með þetta, og jafnvel þó að menn vildu gera þá breyt. þarna á að taka fram, að það væri heildarsamband starfsmanna, sem færi með slíkt, þá hefði verið hreint júridískt séð rétt að orða það þannig, að það bandalag eða það samband, sem starfsmennirnir mynda, eða þau bandalög eða þau sambönd, sem starfsmannafélögin mynda, skuli fara með þetta. Það er samsvarandi orðalag og er í vinnulöggjöfinni. Ég veit, að bæði fjhn. þessarar hv. d. og eins fjhn. Ed. urðu varar við óskir frá ákveðnu bandalagi hér, bandalagi háskólamenntaðra manna, um, að tillit væri tekið til þeirra óska og samningsréttar af þess hálfu og annað slíkt í þessu sambandi, sem ekki var orðið við eða jafnvel var ekki hægt að verða við í þessu sambandi, en þá mundi náttúrlega ekki í framtíðinni vera neitað um það. Við skulum segja, ef t.d. allir háskólamenntaðir menn vilja hafa sitt eigið bandalag, þá mundi því vafalaust ekki verða neitað um þann samningsrétt, sem aðrir starfsmenn hafa. Ég vil aðeins vekja eftirtekt á þessu, vegna þess að það er ekki vani hjá okkur í löggjöf að löghelga þannig sérstök sambönd í almennri löggjöf. Við getum það í löggjöf, þar sem við erum að veita þeim réttindi og stuðning til ýmiss konar nefndakosninga og annars slíks. En hins vegar er ekki nema eðlilegt, að þetta frv. sé afgreitt svona núna og kemur ekki að neinu leyti að sök, því að innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eru öll starfsmannasambönd bæði ríkisstarfsmanna og sambönd hins opinbera. Einmitt það bandalag hefur háð þrautseiga baráttu, sem nú er komið að mjög mikilvægum áfanga í.

Ég skil það vel, eins og hv. frsm. fjhn. tók fram, að það er lítill tími til stefnu, og þess vegna mun ég ekki ræða þetta mál frekar. Það væri náttúrlega hægt, ef hæstv. forseti óskaði þess frekar, ef þskj. færi bráðum að koma, að brtt. væru teknar aftur til 3. umr., til þess að hægt væri að flýta fyrir þessu, en ef menn hins vegar treystu sér til þess að ganga til atkv. um það núna og hefðu gamla þskj., 769, þá er hægt alveg að notast við það í atkvæðagreiðslunni.