17.04.1962
Neðri deild: 97. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram í umr. um þetta mál, bæði í hv. Ed. og þessari hv. d., liggur hér fyrir bráðabirgðasamkomulag milli ríkisstj. og opinberra starfsmanna, sem Framsfl. hefur talið rétt að fylgja, eins og aðstæður eru. Hins vegar er rétt að gera sér grein fyrir því, að opinberir starfsmenn líta sjálfir á þetta samkomulag sem bráðabirgðasamkomulag, vegna þess að þeir stefna að öðru og meira.

Það má vel svo vera, að þetta bráðabirgðasamkomulag eigi eftir að standa nokkurn tíma og jafnvel nokkuð lengi. En það fer áreiðanlega fyrst og fremst eftir því, hvernig hæstv. ríkisstj. eða þær ríkisstj., sem um þessi mál koma til með að fjalla, halda á málinu. Það hefur um nokkurt skeið verið haft svipað fyrirkomulag við ákvörðun um verð á landbúnaðarvörum, og þetta fyrirkomulag hefur gefizt nokkuð vel, á meðan það náðist samkomulag milli viðkomandi aðila, í þessu tilfelli milli bænda og neytenda, en hins vegar gefizt illa, þegar til þess þurfti að grípa að vísa úrskurði til gerðardóms. Þess vegna held ég, að það hafi meginþýðingu, ef það fyrirkomulag, sem þetta frv. fjallar um, eigi að heppnast, að samningsaðilar geti haldið þannig á málum, að samkomulag náist, án þess að málið þurfi að ganga undir gerðardóm. Reynslan í sambandi við ákvörðun landbúnaðarverðsins sýnir það alveg hiklaust. Þess vegna vildi ég leggja á það mikla áherzlu, að hæstv. ríkisstj., sem sennilega kemur til með að fjalla um fyrstu slíka kjarasamninga, sem gerðir verða, sýni þá sanngirni í þessum málum gagnvart opinberum starfsmönnum, að eigi þurfi til þess að koma, að málið gangi undir kjaradóm. En með því hygg ég að yrði lagður heilbrigðastur og beztur grundvöllur undir það skipulag, sem þetta frv. fjallar um, ef það á að verða varanlegt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjalla um mál þetta nánar, tíminn líka mjög stuttur, sem eftir er af þingtímanum, til að sinna því. En í sambandi við það vildi ég gjarnan bera fram eina fyrirspurn til hæstv. fjmrh.

Í bréfaskiptum, sem farið hafa fram milli hæstv. ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands, hefur það komið fram, að hæstv. ríkisstj. teldi það eðlilegt, að hækkað yrði nokkuð kaup hinna lægst launuðu starfsmanna innan Alþýðusambands Íslands, þ.e. verkamanna. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að fjölmargir opinberir starfsmenn eru í lægri launaflokkum en lægst launuðu verkamenn. Ég skal nefna nokkur dæmi um þetta. Skv. samningum Dagsbrúnar við atvinnurekendur er mánaðarkaup verkamanna, þar sem samið er um mánaðarkaup, frá 4700 kr. til 5400 kr. En í IX.–XV. launaflokki hjá ríkinu eru fjölmargir starfsmenn, sem eru undir þessu lágmarki hjá Dagsbrúnarmönnum. Lágmarkið hjá Dagsbrúnarmönnum er sem sagt 4 700 kr. mánaðarkaup. í t.d. IX. launaflokki hjá opinberum starfsmönnum, Þar sem kennarar voru áður, er mánaðarkaupið eftir tvö ár, — þær tölur, sem ég nefndi hjá Dagsbrúnarmönnum, eru miðaðar við, að þeir séu búnir að vera starfsmenn við viðkomandi fyrirtæki í tvö ár, — en hjá starfsmönnum í IX. fl. hjá ríkinu er kaupið 4 800 kr. Í Þessum launaflokki voru kennarar, áður en þeir fengu kauphækkun á dögunum, flestir fulltrúar, t.d. fulltrúar hjá ríkisútvarpinu, pósti og síma. í X. launaflokki, en í þeim flokki eru t.d. lögregluþjónar, allir bókarar, símvirkjar og tollverðir, þá er mánaðarkaupið eftir tvö ár ekki nema 4 700 kr., sem er lægsti flokkur hjá mánaðarkaupsmönnum hjá Dagsbrún. Þegar komið er svo niður í neðri flokkana, eins og t.d. XI. flokk, sem bílstjórar eru í og fleiri slíkir starfsmenn hjá ríkinu, þá er kaupið orðið enn lægra, er eftir tvö ár ekki nema 4 200 kr. eða 500 kr. lægra en hjá Dagsbrúnarmönnum. Ég held þess vegna, að það hljóti að liggja í augum uppi, að fyrst hæstv. ríkisstj. telur eðlilegt að hækka kaup hjá lægst launuðu verkamönnunum, sem ég er henni fullkomlega sammála að sé rétt að gera, þá sé ekki síður eðlilegt að hækka kaupið hjá lægst launuðu starfsmönnum ríkisins eða hjá þeim, sem eru neðan við IX. launaflokk. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann teldi það ekki eðlilegt skv. því, sem hefur komið fram í bréfi hæstv. ríkisstj. til Alþýðusambandsins, að hækka nú þegar kaup þeirra opinberu starfsmanna, sem ég hef hér minnzt á, og ég vil spyrja hann að því, hvort hæstv. ríkisstj. hafi jafnvel ekki ákveðið eitthvað í þeim efnum og hvaða hækkun hún mundi þá telja eðlilega og hvenær hún teldi eðlilegt, að slík hækkun kæmi til framkvæmda.