17.04.1962
Neðri deild: 97. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þegar þetta frv. um kjarasamninga hefur náð samþykki Alþ. og staðfestingu og öðlazt gildi, þá verður að sjálfsögðu hafinn undirbúningur að kjarasamningum, bæði af hálfu ríkisins og hálfu hinna opinberu starfsmanna. Eins og komið hefur fram, er það mjög mikið verk að afla gagna og upplýsinga, sem þarf í því efni. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að nokkur frestur geti liðið frá gildistöku laganna og þangað til beinar samningaviðræður hefjast. Í frv. er svo ákveðið, að þær samningaviðræður skuli hefjast ekki síðar en 1. ágúst n.k. Þessi undirbúningur og þar af leiðandi að sjálfsögðu viðræður, þegar þar að kemur, munu m.a. og kannske fyrst og fremst beinast að því, hvar í launaflokka eigi að skipa hverjum starfsmanni eða starfsmannahóp og um launahlutfallið milli þessara launaflokka. Ég geri varla ráð fyrir því, að hv. fyrirspyrjandi ætlist til þess í alvöru, að í umr. um þetta frv. hér á þessu stigi fari ég að ræða um, hvar eigi að skipa einstökum starfsmönnum ríkisins í launaflokka eða hvernig hlutföll eigi að vera þar á milli. Slíkt fellur undir þá undirbúningsvinnu, sem á að hefja, strax eftir að lögin hafa öðlazt gildi, og svo í samningaviðræðum þeim, sem eiga að hefjast eigi síðar en 1. ágúst.