13.04.1962
Efri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er meginefni frv. þessa að auka lífeyrissjóð togarasjómanna á þann veg, að hann nái einnig til undirmanna á farskipum, þar með talin varðskip. Undirmenn þessir hafa frá 1. jan. 1959 greitt 4% af kaupi sínu í lífeyrissjóð og skipafélögin greitt 6% á móti. Þessar greiðslur hafa yfirleitt runnið til lífeyrissjóða viðkomandi skipafélaga, nema hjá Skipaútgerð ríkisins og landhelgisgæzlunni, þar hefur framlögum verið safnað saman og þau geymd í sjóði, án þess að undirmennirnir fengju nokkra aðild að tilteknum lífeyrissjóði. Hjá hinum skipafélögunum hafa undirmennirnir hins vegar orðið félagar í lífeyrissjóði, en þó með þeim annmarka, að þeir hafa enga aðild átt að stjórn þessara lífeyrissjóða hjá skipafélögunum, en slíka aðild hafa yfirmennirnir hins vegar haft. Með samþykkt frv. yrði því undirmönnum á skipum landhelgisgæzlunnar og Skipaútgerðar ríkisins tryggð aðild að lífeyrissjóði togarasjómanna, en undirmenn á öðrum skipum yrðu fluttir yfir í lífeyrissjóð togarasjómanna frá hinum einstöku lífeyrissjóðum skipafélaganna.

Sá galli er á lífeyrissjóðaskipulagi okkar, að menn, sem flytjast milli sjóða, geta yfirleitt ekki flutt áunnin réttindi með sér. Lífeyrissjóði togarasjómanna er þó heimilt að kaupa réttindi handa þeim manni, sem flyzt úr sjóðnum og fær aðgang að öðrum lífeyrissjóði, ef sjóðurinn, sem maðurinn flyzt yfir til, er lögbundinn eða viðurkenndur af fjmrn. Hér er um mikilsverð réttindi að ræða, sem veitast munu undirmönnum á farskipum, ef frv. þetta verður samþykkt.

Það hafa borizt mótmæli gegn frv. Þessu frá áhöfnum allmargra togara. Eru mótmælin reist á því, að togarasjómenn telja það skerðingu á rétti sínum að hleypa farmönnum inn í sjóðinn. Þessi andmæli eru á misskilningi byggð. Í fyrsta lagi mun togarasjómönnum ekki hafa verið ljóst, að farmennirnir leggja á borð með sér þriggja ára framlög ásamt vöktum og ágóðahlut. Í öðru lagi eru störf farmannanna áhættuminni en störf togarasjómanna og því sennilegt, að sjóðurinn verði fyrir hlutfallslega minni útlátum við tilkomu þeirra. Hins vegar má gera ráð fyrir, að hlutfallslega minni ágóði falli sjóðnum í skaut vegna brottfarinna sjóðfélaga við þessa breytingu. Þegar öllu er á botninn hvolft, tel ég miklu meiri líkur á, að lífeyrissjóður togarasjómanna eflist við inngöngu undirmanna á farskipum heldur en hið gagnstæða, enda hlýtur það að öðru jöfnu að vera lífeyrissjóði til styrktar, að sjóðfélögum fjölgi.

Ef frv. þetta nær fram að ganga, verða allir togarasjómenn, svo og undirmenn á öllum kaupskipaflotanum, í einum og sama lífeyrissjóði. Með þessu er mikið áunnið. Háseti á kaupskipi, sem hættir starfi þar og verður þá háseti á togara, er þá við bæði störfin í einum og sama lífeyrissjóði. Háseti á Eimskipafélagsskipi, sem skiptir um atvinnu og verður háseti á skipi hjá Sambandinu, verður þá líka kyrr í sama sjóðnum, en þarf ekki, eins og nú gildir, að flytjast milli lífeyrissjóða og tapa réttindum í hinum fyrra sjóði. Að vísu kemur hér á móti, að háseti, sem hækkar upp í yfirmannsstöðu hjá sama skipafélagi, getur orðið að skipta um lífeyrissjóð samkv. reglum frv., í stað þess að vera kyrr í sjóði viðkomandi skipafélags. Þó ber þess að gæta, að samkv. 3. gr. frv. er heimild fyrir því að hafa þennan mann kyrran í togaralífeyrissjóðnum, og ef hann flyzt úr sjóðnum, þá er keyptur fyrir hann réttur í sjóðnum, sem tekur við honum.

Það má auðvitað finna ýmis dæmi um menn, sem geta haft hag eða óhag af þeim breytingum, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel þó ekki orka tvímælis, þegar á heildina er litið, að það, sem ávinnst, sé meira en það, sem glatast. Einu má ekki heldur gleyma: þessi aukning togaralífeyrissjóðsins er spor í áttina að einum allsherjarlífeyrissjóði fyrir alla sjómenn.

Vinnuveitendur farmanna hafa fram til þessa aðeins greitt 6% af föstu kaupi þeirra í lífeyrissjóð. Þegar undirmenn á farskipum eru komnir yfir í lífeyrissjóð togarasjómanna, breytist þetta, því að samkv. reglum togaralífeyrissjóðsins á vinnuveitandi að greiða 6% af heildarárslaunum, en þar er öll yfirvinna meðtalin. Þar sem undirmenn á farskipum hafa oft mjög mikla yfirvinnu, — hún er í mörgum tilfellum 1/3 hluti af öllu kaupi þeirra, felst nokkur kjarabót þeim til handa í því að fá 6% lífeyrissjóðsálagið einnig greitt á yfirvinnukaupið. Heilbr.- og félmn. hefur rætt frv. þetta á nokkrum fundum og leitað umsagnar margra aðila um málið. Hafa skoðanir þessara umsagnaraðila verið nokkuð skiptar. Meiri hl. n. telur rétt að mæla með samþykkt frv. með tilteknum breytingum, sbr. þskj. 730.

Ég vil þá að lokum gera örstutta grein fyrir þessum brtt. n. Það er fyrst breyting við 3. gr. frv., en breytingin er í því fólgin að taka af öll tvímæli um, að undirmenn á varðskipum heyri einnig undir þessi lög og flytjist yfir í lífeyrissjóð togarasjómanna. Þá er jafnframt tekið fram um farskipin, að þar sé átt við bæði skip, sem notuð séu til farþegaflutninga og vöruflutninga, vegna þess að orðið „farskip“ er ekki svo skýrt, að það gæti kannske orkað tvímælis, hvernig ætti að skilja það, en til þess að taka af allan vafa um, að hér sé átt við bæði skip, sem annast farþega- og vöruflutninga, þá er sú skýring tekin inn í breyt. á 3. gr. Þá er einnig bætt við 3. gr. í sambandi við heimild útgerðar farskipa til að tryggja yfirmönnum lífeyrisréttindi í sjóði þessum, þá er því bætt við: „ef samkomulag næst um það við stéttarfélög yfirmanna.“

2. brtt. er við 1. mgr. 5. gr., en sú grein fjallar um það, hve margir eigi sæti í stjórn sjóðsins og hverjir skipi stjórnarmenn. í frv. var gert ráð fyrir, að sjóðurinn væri skipaður 5 mönnum, en meiri hl. n. leggur til, að hann verði skipaður 7 mönnum og þar verði bætt við fulltrúum frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Þetta er gert af þeim ástæðum, að allir yfirmenn á togaraflotanum eru í Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, og það er því eðlilegt, að þeir eigi fyrirsvarsmann í stjórn sjóðsins. Á hinn bóginn er það svo, að allstór hluti farmanna starfar hjá Skipadeild SÍS, en hún er meðlimur í Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, og það er því rétt, að Vinnumálasambandið fái einnig fulltrúa í sjóðsstjórnina. Og þá er enn fremur lagt til í brtt., að sömu aðilar skipi hver um sig einn varamann, enda verður að telja það eðlilegt í svona fjölmennri stjórn, að þar séu varamenn tiltækir, svo að ekki þurfi að standa á því, ef einhver aðalmanna forfallast.

Þá er 3. brtt. við 13. gr. frv., en í 13. gr. er sagt, að upphæð ellilífeyrisins sé hundraðshluti af meðallaunum hlutaðeigandi sjóðfélaga síðustu 10 starfsár hans. Nú hefur komið ábending um það frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, að þetta gæti í sumum tilfellum verið ranglátt gagnvart yfirmönnum á togurum, skipstjórum og stýrimönnum, þar sem þeir væru oft fyrri hluta ævinnar skipstjórar, en síðari hluta ævinnar hættu þeir skipstjórnarstarfi og gerðust hásetar eða bræðslumenn á togurunum, og það væri ósanngjarnt gagnvart þessum mönnum, að upphæð ellilífeyris hjá þeim miðaðist við 10 síðustu starfsárin, þegar þeir eru e.t.v. á lægstu laununum. Þess vegna var gerð þarna á breyting í till. n., þannig að við sé bætt: „eða síðustu 20 starfsárin, ef það er sjóðfélaga hagfelldara”.

Ég hygg, að þó að það sé aðeins meiri hl. n., sem stendur að þessum brtt., þá telji þó þeir nm., sem eru í minni hl., að þessar brtt. séu einnig til bóta.