16.04.1962
Neðri deild: 96. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram strax, að ég er algerlega mótfallinn þeirri afgreiðslu á frv. á þskj. 190, sem meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. mælir með.

Lögin um lífeyrissjóð togarasjómanna voru á sínum tíma mikið baráttumál togarasjómanna yfirleitt. Málið náðist fram vegna eindreginnar baráttu þeirra og var á þeim tíma, þegar það varð að lögum, eftir því sem ég man bezt, skoðað sem einn þáttur í þá nýgerðum kjarasamningum þeirra. Á móti þessu frv. hafa borizt mótmæli frá miklum fjölda togarasjómanna. Það þýðir ekkert fyrir hv. 12. þm. Reykv. að mæla á móti því, að mikill fjöldi togarasjómanna hefur mælt á móti frv. og telur það vera mjög óhagstætt fyrir sig, að aðrir aðilar gerist aðilar að lífeyrissjóðnum en þeir, sem nú eru fyrir. Þetta er staðreynd, sem liggur hér skjallega fyrir.

Þá hafa enn fremur borizt mótmæli frá fleiri aðilum en togarasjómönnum, og má bar m.a. benda á eftirtalda aðila: Íslenzka landhelgisgæzlan mælir á móti því, Samband ísl. samvinnufélaga mælir á móti frv., og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mælir enn fremur á móti samþykkt frv. í sumum mótmælum, sem borizt hafa frá áhöfnum á togurunum, er bent t.d. á það, að frv. sé fram borið án þeirra vitundar og án nokkurs samráðs við þá og í fullri óþökk allra togarasjómanna. Aftur eru til aðilar, sem hafa mælt með frv., m.a. Sjómannafélag Reykjavíkur og Sjómannasambandið. Annar þessara aðila mælir þó með allmikill breytingu, m.a. um það, að rétt sé, að greiðslur til þeirra, sem í sjóðnum eru, hækki úr 50% í 60, það er allmikil breyting, sem væri náttúrlega full ástæða til að taka til athugunar.

Í frv. er t.d. ekkert um það, að bátasjómenn skuli verða meðlimir í lífeyrissjóðnum. Það var þó vitað, að fulltrúar sjómannanna, sem um málið hafa fjallað, voru því mjög meðmæltir, að stofnaður yrði lífeyrissjóður bátasjómanna, annaðhvort sem deild í lífeyrissjóði togarasjómanna eða sem sérstakur sjóður. Í frv. er ekki eitt einasta orð um slíkt — alls ekki. Það er alveg gengið fram hjá því. Þess í stað er svo lagt til, að sjóðurinn verði sameiginlegur fyrir togarasjómenn og undirmenn á farskipum. Eftir þeim mótmælum, sem borizt hafa frá togarasjómönnum, eru þeir því algerlega andvígir. Það er náttúrlega mála sannast, að togarasjómenn og undirmenn á farskipum hafa yfirleitt ekki margt sameiginlegt. Kjör þeirra eru mjög ólík, og ekkert liggur fyrir um það eða ég hef a.m.k. ekki orðið þess var, að það liggi neinar sérstakar áskoranir frá undirmönnum á farskipum, par sem þeir hafa óskað eftir þeirri tilhögun á þessu máli, sem frv. gerir ráð fyrir. Hitt hefði mér fundizt miklu eðlilegra, að þeir, sem stundað hafa atvinnu á farskipum, hefðu stofnað sinn sérstaka lífeyrissjóð á líkum grundvelli og lífeyrissjóður togarasjómanna er. Þetta hefur ekki verið gert, og skal ég ekkert um það ræða hér, hverjum það er að kenna, að ekki hefur verið farið inn á þá braut. Sjálfsagt eru sjómenn á farskipum allra góðra gjalda verðir, og það, að togarasjómenn vilja ekki fá þá til að verða aðila í sama sjóði, er ekki af því, að það sé nein sérstök andúð á móti þeim, sem sigla á farskipum. Það kemur allt annað til, sem hefur reyndar verið bent á af öðrum en mér. En stærsta gallann við þetta frv. tel ég þó vera þann, að bátasjómenn verða eftir sem áður útilokaðir frá lífeyrissjóðnum, sem þó var það, sem fulltrúar sjómannasamtakanna lögðu mest upp úr að yrði sett inn í lögin, svo framarlega sem lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna yrði á annað borð breytt.

Ég tel það mestu fjarstæðu að samþykkja þetta frv. gegn eindregnum mótmælum mikils meiri hluta starfandi togarasjómanna á flotanum hér.

Ég vil svo að lokum aðeins leyfa mér að benda á, að nú stendur yfir verkfall hjá togarasjómönnunum. Ég fullyrði, að afgreiðsla þessa frv. muni á engan hátt stuðla að lausn þeirrar deilu, heldur alveg þveröfugt. Það hefði mátt ætla, að hæstv. ríkisstj. hefði eitthvað gert til þess, að hægt yrði að leysa togaradeiluna á viðunandi hátt og það fyrr en síðar. En því miður hefur ekkert fram komið, sem bendir til þess, að svo verði núna á næstunni. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál, að allur togaraflotinn skuli vera bundinn við festar í höfnum inni. Þó er bað kannske enn þá alvarlegra, að margt bendir til þess, að togaradeilan verði ekki leyst fyrr en eftir marga mánuði, þ.e.a.s. svo framarlega sem hæstv. ríkisstj, kemur ekki með einhverjar þær tillögur til lausnar deilunni, sem báðir aðilar gætu við unað. Það er rétt samt að taka það fram, að ríkisstj. hefur flutt hér frv. um aðstoð við togarana, en það er líka ekki hægt að ganga fram hjá því að eigendur togaranna telja þá aðstoð allt of litla og hún getur að þeirra dómi engan veginn verið nægileg til þess, að þeir geti mætt þeim kröfum, sem togarasjómennirnir hafa gert til skipaeigendanna.

Ég vil nú mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að deilan leysist á þann veg, að báðir aðilar geti vel við unað. Það er mjög alvarlegt, að svo stór og fullkomin framleiðslutæki sem togararnir eru skuli liggja bundin í höfnum inni, vegna þess að togaraeigendurnir sjái sér ekki fært að bjóða þeim mönnum, sem á þeim vinna, viðunandi kjör. Um þetta er deilan. Og eins og stendur virðist enginn grundvöllur vera til staðar til þess að ræðast við, hvað þá meira. Svo alvarlegt er málið. Það má vel vera, að úr þessu rætist á næstunni, og það mundu engir fagna því meira en við, sem erum í þessari deilu eða höfum mætt þarna til samninga við togaraeigendur. Ég vil ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að ég óska eftir því og vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að taka þetta mál til nýrrar yfirvegunar og reyna að finna einhverja þá lausn, sem báðir aðilar gætu við unað. Það er ábyggilega öllum fyrir beztu, að þessi deila leysist og það sem fyrst. Hér er allt of mikið í húfi, til þess að hægt sé að horfa á 30–40 skip bundin, skip, sem veittu s.l. ár um 600 millj. kr. í gjaldeyri. Það munar um minna. Og ég hafði haldið, að jafnvel þótt talið sé, að gjaldeyrisaðstaða Íslands við útlönd hafi batnað á undanförnum árum, þá veiti ekki af þeim gjaldeyri, sem togaraflotinn hefur skapað á undanförnum árum og mun koma til með að skapa, svo framarlega sem deilan verður leyst, auk þess sem hér er um að ræða stórt hagsmunamál fyrir togarasjómenn.