15.02.1962
Efri deild: 47. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

141. mál, heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. Það, sem hér liggur fyrir, fjallar um breyt. á l. nr. 35 frá 1940, um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir, og er flutt af heilbr.- og félmn. að tilmælum borgarráðs Reykjavíkur.

Lögin nr. 35 frá 1940 fjalla um skipun og hlutverk heilbrigðisnefnda og efni heilbrigðissamþykkta. 8. gr. þeirra fjallar um viðurlög við brotum gegn staðfestri heilbrigðissamþykkt eða vanrækslu á að hlýða í tæka tíð fyrirmælum gefnum samkvæmt henni. Skv. þessari lagagrein má ákveða mönnum sektir, sem geta numið allt að 5 þús. kr., og einnig er í þessari sömu lagagrein heilbrigðisnefnd heimilað að láta vinna verk, sem hún hefur fyrirskipað, á kostnað þess, sem vanrækt hefur að vinna verkið eða láta vinna það. Á báðum þessum leiðum, sem heilbrigðisnefndum eru þarna heimilaðar til þess að halda mönnum til hlýðni við fyrirmæli sín, eru annmarkar í framkvæmd. Á sektaleiðinni, sem auk þess er seinfarin, er sá annmarki, að í ýmsum tilfellum nær hún ekki tilgangi sínum hreinlega vegna þess, að hinn brotlegi getur séð sér hag í óhlýðni sinni, þótt greiða þurfi sekt, vegna þess að óhlýðnin gefur honum möguleika til ábata, sem gerir meira en að vega á móti sjálfri sektinni. Hinni aðferðinni, að láta vinna verk á kostnað þess vinnuskylda, hefur mjög sjaldan verið beitt hér í Reykjavík t.d., og mér þykir trúlegt, að henni hafi enn sjaldnar eða kannske yfirleitt ekki verið beitt utan Reykjavíkur, enda er sú aðferð mjög þung í vöfum. Og út af fyrir sig má líka segja, að það sé óæskilegt, að heilbrigðisnefndir standi í framkvæmdum fyrir einstaklinga eða fyrirtæki, ef hægt er að afstýra slíku með öðrum ráðum.

Sú aðferð, sem oftast er beitt til þess að halda mönnum til hlýðni við fyrirmæli heilbrigðisnefnda og vænlegust er til árangurs, er lokun eða hótun um lokun, og þó er sú leið ekki einhlít. Það er oft, sem alls ekki er hægt að beita henni, við skulum segja t.d. að loka fyrirtækjum, sem veita almenningi þjónustu, jafnvel öryggisþjónustu, sem ekki kemur til mála að niður megi falla, og því líkt.

Með þessu frv. er lagt til, að auk þeirra ráðstafana, sem ég áður nefndi, verði einnig heimilað að beita dagsektum, allt að 1000 kr., til þess að halda mönnum til hlýðni við samþykktir heilbrigðisnefndar eða þvinga þá til hlýðni og að þeim fylgi lögtaksheimild. Dagsektir renni í bæjar- eða hreppssjóð eins og aðrar sektir samkvæmt þessari sömu lagagrein, og það verði lagt á vald heilbrigðisnefndar að ákveða mönnum slíkar dagsektir. Öll rök virðast hníga að því, að sú aðferð geti orðið fljótvirk og vænleg til árangurs, þar sem aðrar aðferðir henta ekki.

Sú heimild, sem þarna er farið fram á til handa heilbrigðisnefndum með frv., á sér að því leyti fordæmi í íslenzkri löggjöf, að þess eru ýmis dæmi, að yfirvöldum sé veitt heimild til að beita dagsektum til þess að þvinga menn til hlýðni við lögmætar ákvarðanir sínar. Hliðstætt dæmi virðist það t.d. vera, þegar húsaleigunefnd var á sínum tíma veitt heimild til þess í húsaleigulögunum frá 1943 að skylda húseiganda að viðlögðum dagsektum til að taka upp aftur fyrri afnot húsnæðis til íbúðar, ef hann hafði heimildarlaust tekið það til annarrar notkunar. Auk þess eru mörg dæmi þess, að yfirvöld geta ákveðið mönnum dagsektir vegna vanrækslu á lögboðinni skýrslugjöf. Má t.d. nefna það dæmi, að samkv. lögunum um þjóðskrá 1956 getur hagstofan þröngvað mönnum með dagsektum til þess að láta tiltekin gögn í té, og mörg önnur dæmi mætti nefna.

Í grg. með frv. er að því vikið, að ef húseigandi hefur að engu bann heilbrigðisnefndar við útleigu á óhæfu íbúðarhúsnæði, lætur ekki sektarákvæði hindra sig, þar sem ábati af leigutekjum gerir meira en vega á móti hugsanlegri sektargreiðslu, þá er ekki framkvæmanlegt að loka slíkum íbúðum, a.m.k. ekki til lengdar, og það er í rauninni fyrst og fremst þetta vandamál, sem var haft í huga, þegar óskað var eftir, að þetta frv. væri flutt, þótt hins vegar dagsektarákvæði samkvæmt því sé ekki einskorðað við útleigu á óhæfum íbúðum. Í þessu sambandi má minna á það, að Reykjavíkurbær hefur á undanförnum árum haft með höndum miklar íbúðabyggingaframkvæmdir til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði. Þegar fólk flytur í þær íbúðir úr óhæfu húsnæði, reynist oft erfitt að fyrirbyggja það, að hið óhæfa húsnæði sé leigt út aftur þrátt fyrir bann heilbrigðisnefndar. Verði þetta frv. hins vegar að lögum, ætti ákvæði þess að geta orðið verulega að liði í baráttunni fyrir útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni Þessari umr. visað til 2. umr. Frv. er flutt af nefnd, og geri ég því ekki till. um vísun til nefndar.