16.10.1961
Efri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

11. mál, Parísarsamþykktin um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því að veita ríkisstj. heimild til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd hina svokölluðu Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, en með þessari Parísarsamþykkt stofna aðildarríkin, ef við hugsum að gerast aðilar að henni, til varanlegra samtaka um verndun eignarréttinda á sviði iðnaðar, og munu 60 ríki hafa gerzt aðilar að þessum samtökum, eins og fram kemur í grg. þessa frv. Iðnmrn. hefur haft þetta mál til undirbúnings og athugunar um alllangan tíma, og hefur málið haft nokkurn aðdraganda, en það er talið til hagræðis, að Íslendingar gerist aðilar að samþykktinni, einkum og sér í lagi fyrir þá aðila, sem hér geta eignazt eða sækja eftir því að fá einkaréttindi fyrir uppfinningar og önnur svipuð atriði í sambandi við einkaréttindi á sviði iðnaðarins. Það má segja kannske, að það sé eitt veigamesta atriðið í þessu máli, sem fram kemur í 4. gr. um forgangsrétt, sem skapast með þessu frv. fyrir Íslendinga, og hægari aðstöðu til þess að njóta verndar í þeim ríkjum, sem eru aðilar að þessari samþykkt.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál nú. Það er ósköp eðlilegt, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, þurfi nokkurn tíma til þess að fara gegnum samþykktina sjálfa, sem fylgir hér með frv.

Ég vildi mega leggja til, að þessari umr. lokinni, að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn.