27.02.1962
Neðri deild: 56. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

159. mál, sala hluta úr landi Hofteigs og eyðijarðarinnar Austmannsdals

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 319, sem ég flyt ásamt 2. þm. Austf., er um heimild fyrir ríkisstj. til að selja hluta úr landi jarðarinnar Hofteigs í Norður-Múlasýslu. Jörðin Hofteigur er mikil jörð, áreiðanlega ein í hópi hinna beztu á landinu, enda gamalt prestssetur. En með breytingu á prestakallaskipun 1952 var prestssetur lagt þar niður. Litlu síðar var skipt út úr landi jarðarinnar nýbýli á 1/3 hluta, og skömmu áður hafði einnig farið fram leiga á hluta úr landi jarðarinnar til nágrannabýlisins Hvannár á svonefndum Mörkum. En það er einmitt sú landsspilda, sem hér er farið fram á að heimilað verði að selja.

Því er ekki að leyna, að það eru ýmsum nokkur vonbrigði, þegar, eins og menn segja, lækkar reisnin yfir fornum höfuðbólum og stórum jörðum, en það virðist ekki um annað að ræða en taka málin eins og þau liggja fyrir. Nú er málum þannig háttað, að það hefur verið skipt út nýbýli úr landi jarðarinnar, og þessi hluti hefur verið nytjaður af öðru býli. Prestssetur hefur verið lagt þarna niður. Þá þykir mér einnig rétt að upplýsa það, að sá hlutinn, sem enn er hin eiginlega Hofteigsjörð, hefur nú til bráðabirgða verið leigður ábúanda nýbýlisins, hann hefur þann hluta til ábúðar um 5 ára skeið og áframhaldandi forgangsrétt að ábúð að þeim tíma liðnum. Mér finnst þess vegna ekkert vera því til fyrirstöðu að leggja til, að þessi hluti, sem hefur verið nytjaður af nágrannajörð, verði nú seldur, þar sem mjög er eftir því leitað og þar sem þannig háttar nú, að það virðist vera full þörf fyrir ábúendur Hvannár að fá þennan hluta, Merkurnar, til viðbótar við þá jörð, en henni hefur nú verið skipt. Á Hvanná hefur verið búið um skeið félagsbúi, og úr öðrum hlutanum hefur enn fremur verið skipt út nýbýli. Og eins og tekið er fram í grg., liggur einnig fyrir, að þessi hluti verði í framtíðinni nýttur sem land fyrir nýbýli. Ég held því, að það sé skynsamlegt að verða við þessum óskum og ekkert því til fyrirstöðu af hálfu ríkisins að selja landið.

Eins og við drepum á hér í grg., er fylgir, liggur fyrir yfirlýsing frá hreppsnefnd Jökuldalshrepps um það, að hún sé samþykk þessari sölu.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en vil leggja til, að málinu verði vísað til hv. landbn.