13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

108. mál, fiskimálasjóður

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta frv. á tveimur eða þremur fundum sínum. Hún sendi það stjórn fiskimálasjóðs til umsagnar, og mælti stjórn sjóðsins einróma með frv.

Eins og ég tók fram í framsöguræðu við 1. umr. þessa máls, þá er hér ekki farið fram á nema eina breyt. á lögunum um fiskimálasjóð. Það er sú breyting, að hámark lánanna hækki úr 150 þús. kr. í 300 þús. kr. Ég gat þess þá einnig, að þótt þessi breyt. yrði gerð á lögunum, þá væri ætlunin, að áfram héldist óbreytt það ákvæði laganna, að ekki má lána nema sem svarar 25% af andvirði þeirra mannvirkja, sem lánin ganga til, svo að það ákvæði laganna takmarkar að sjálfsögðu upphæð lánanna, hvað sem liður hámarkinu í krónutölu.

Nú hefur sjútvn. við nána athugun á þessu máli komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að breyta þessu hámarki, ekki aðeins eins og frv. sjálft gerir ráð fyrir í 300 þús. kr., heldur í 400 þús. kr. og þess vegna flytur hún þá brtt. við frv. á þskj. 372, að sú breyt. verði gerð. Um þessa brtt. er n. einhuga.

Það má vera, að einhverjum þyki þetta mikil hækkun frá því, sem er í núv. lögum, að hækka hámark lánanna úr 150 þús. kr. í 400 þús. kr. eins og brtt. ber með sér. En þessi breyt. verður í framkvæmdinni ekki svona mikil, þótt hún líti þannig út á pappírnum. Reyndar væru þetta engar öfgar, að hækka hámark lánanna þannig, vegna þess að þetta hámark, sem nú er í lögum, 150 þús. kr., er búið að vera óbreytt í 15 ár, og sú hækkun, sem orðið hefur á þeim mannvirkjum, sem lánin ganga til, er sannarlega mun meiri. En hitt er aftur á móti annað mál, hvort fiskimálasjóður má við því að taka á sig þessa hækkun, hvort árlegar tekjur hans leyfa það, og það má telja nokkurn veginn víst, að sjóðurinn mundi ekki geta lánað svona há lán almennt, eins og tekjustofnum hans er nú háttað. En þá vil ég minna á, að í fyrsta lagi er þetta aðeins heimild, og sjóðsstjórnin notar þetta hámarksákvæði auðvitað með fullri varúð og í fullu samræmi við árlegar tekjur sjóðsins. Hún fer ekki hærra með lánin en fjárhagur sjóðsins leyfir. Auk þess kemur til 25% ákvæði laganna, sem ég nefndi áðan, að það dregur af sjálfu sér úr þessari lánahæð, svo að það á ekki að þurfa að koma að neinni sök, þótt þessi hækkun verði gerð.

Út frá þessum sjónarmiðum varð sjútvn. sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. með þeirri breyt., sem ég hef nú greint frá og er flutt á þskj. 372.