03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

108. mál, fiskimálasjóður

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Sjútvn. hefur haft til meðferðar frv. á þskj. 386 um breyt. á lögum nr. 89 5. júní 1947, um fiskimálasjóð, og er álit n. prentað á þskj. 544.

Efni frv. er að gera breyt. á 5. gr. laganna, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fiskimálasjóður má veita viðbótarlán gegn síðari veðrétti til stofnunar alls konar fyrirtækja, er horfa til eflingar fiskveiðum og hagnýtingu sjávarafurða, og séu lán þessi einkum veitt til þeirra staða, þar sem er tilfinnanleg vöntun slíkra fyrirtækja, en lítið fjármagn fyrir hendi. Hvert þessara lána má ekki fara fram úr 25% af stofnkostnaði fyrirtækisins og ekki að viðbættum lánum með betri veðrétti nema meira en 85% af stofnkostnaði. Engin lánveiting má nema yfir 150 þús. kr. Lánskjörin séu þau sömu og hjá Fiskveiðasjóði Íslands.“

Breytingin, sem frv. fjallar um, er þess efnis, að hámark lánanna úr fiskimálasjóði verði hækkað úr 150 þús. kr. upp í 400 þús. kr., og eru sjútvn: menn sammála um að mæla með þeirri breytingu.

Í sambandi við athugun þessa frv. hefur n. aflað sér ýmissa upplýsinga um starfsemi fiskimálasjóðs og m.a. haft til athugunar reikninga sjóðsins frá því um 1950 til 1961. Fiskimálasjóður hefur nú starfað um rúmlega aldarfjórðungs skeið með því nafni, og voru ákvæði um hann sett fyrst árið 1935, Þegar lögunum um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o.fl. var breytt. Sjóðnum var þá ætlað, samkv. þeim lögum, að standa straum af ýmiss konar starfsemi í sambandi við athugun á nýjum mörkuðum og nýjar aðferðir við verkun á fiski. Enn var þessum lögum breytt árið 1937 og verkefni sjóðsins þá nánar afmarkað. Skal það ekki rakið. En eftir stríðið, eða árið 1947, var lögunum um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o.fl. breytt mjög verulega og afnumin ýmis ákvæði í lögunum varðandi útflutning á sjávarafurðum. En eftir stóðu þau lög, sem nú gilda um fiskimálasjóð, og er honum í þeim lögum ætlað það hlutverk, sem fram kemur í gr., sem ég las hér áðan.

Fiskimálasjóður hefur, eftir því sem fram kemur í upplýsingum, sem n. hefur fengið frá stjórn sjóðsins eða skrifstofu, veitt samtals um 460 lán fram til síðustu áramóta og auk Þess nokkur á þessu ári, og voru útistandandi í lánum um síðustu áramót 31.6 millj. kr. Auk þess hefur svo sjóðurinn veitt styrki. Ég ætla, að tekjur sjóðsins hafi verið síðustu tvö árin kringum 6 millj, hvort árið og að af þeirri upphæð muni um 1/3 hafa verið varið til styrkja og 35 til lánveitinga eða því sem næst. Það kemur fram við athugun á skrá um skuldunauta, sem fylgir reikningum sjóðsins, að sjóðurinn hefur veitt lán til svo að segja allra eða kannske allra verstöðva í landinu, þannig að starfsemi hans hefur verið mjög útbreidd og komið mörgum að gagni. Það er óhætt að segja, að þetta hafi verið hin þarfasta lánsstofnun. Hann hefur veitt lán sín út á síðari veðrétt, þegar þeir, sem voru að reyna að koma upp fyrirtækjum til verkunar og vinnslu á afla, höfðu tæmt aðra lánsmöguleika, og þar með hafa lánveitingar sjóðsins áreiðanlega oft og tíðum ráðið úrslitum um það, að hægt var að koma upp slíkum fyrirtækjum, svo sem hraðfrystihúsum, fiskimjölsverksmiðjum, lifrarbræðslum eða fiskverkunarstöðvum o.s.frv., til hagsbóta fyrir sjávarútveginn í þeim byggðarlögum, sem þar eiga hlut að máli.

Sjóðurinn hefur jafnan látið sér nægja síðari veðrétt, og má þá kannske segja, að stundum hafi getað orkað tvímælis um það, hvort lánin mundu greiðast, en veðréttur þessarar þörfu stofnunar hefur í raun og veru verið framtið sjávarútvegsins og hlutaðeigandi byggðarlaga.

Þess er að vænta, að þessi breyting geti orðið til þess að efla enn þessa starfsemi, en til þess þyrfti sjóðurinn að sjálfsögðu á komandi tímum að fá meira fjármagn í hendur en hann nú fær. En eins og ég sagði áðan, þá leggur nefndin einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.