14.12.1961
Neðri deild: 36. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

11. mál, Parísarsamþykktin um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar

Frsm. (Sveinn S. Einarsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hefur athugað frv. þetta og leggur einróma til, að það verði samþykkt óbreytt, eins og fram kemur í áliti n., sem prentað er á þskj. 202.

Parísarsamþykktin um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, sem frv. gerir ráð fyrir að verði staðfest af Íslands hálfu og fái lagagildi hér á landi, tekur til einkaleyfa, iðnteikninga, iðnlíkana, vörumerkja, firmanafna og til upplýsinga um uppruna eða upprunaheiti og varna gegn óréttmætri samkeppni, eins og segir í 2. málslið 1. gr. samþykktarinnar.

Óþarft er að ræða þýðingu þessara eignarréttinda í löngu máli. Uppgötvun vernduð einkaleyfi hefur í mörgu tilfelli orðið grundvöllur stórra nýrra framleiðslugreina eða leitt til áður óþekktrar hagkvæmni og þar með bættrar samkeppnisaðstöðu. Hugmyndir að baki sérstakrar gerðar eða tilhögunar áður þekktra hluta, eins og þær koma fram í iðnteikningum, mynztri, líkönum o.s.frv., eru tíðum mjög mikilsverðar, og alkunnug er þýðing vörumerkja og upplýsinga um uppruna o.s.frv. Með aðild að samþykktinni skuldbinda þátttökuríkin sig til að veita þessum mikilsverðu eignarréttindum ákveðna lágmarksvernd, og þegar rætt er um svið iðnaðar í þessu sambandi, þá er það í miklu víðtækari merkingu en venjulega er lögð í þau orð, þannig að það tekur einnig til verzlunar, landbúnaðar og yfirleitt allrar framleiðslustarfsemi og jafnvel einnig náttúrugæða.

Íslendingar hafa í ýmsum greinum aðstöðu til þess að framleiða sérstakar gæðavörur. Þarf ég aðeins að nefna hér fiskinn, Norðurlandssíldina, lambakjötið og ef til vill, þegar tímar líða, vissar tegundir grænmetis. Við hljótum að leggja megináherzlu á að notfæra okkur hina sérstöku náttúrlegu aðstöðu okkar í þessum efnum og miða að því marki með strangri vöruvöndun, að íslenzkur uppruni þessara afurða og frágangur þeirra og vörumerki þau, sem þær eru settar undir, séu viðskiptavinum okkar víðs vegar trygging hinna mestu gæða.

Ef þetta er hugleitt, þá er bersýnilegt, að sú vernd eignarréttinda, sem felst í Parísarsamþykktinni, getur verið undirstöðuatvinnuvegum okkar mikils virði. En í bráð er það þó ef til vill mest knýjandi, að aðild Íslands að samþykktinni auðveldar Íslendingum verulega að vernda einkaleyfishæfar uppgötvanir og koma þeim á framfæri erlendis án hættu á, að þær verði stældar eða hagnýttar með óréttmætum hætti.

Meðan Ísland stendur utan Parísarsambandsins, verður uppfinningamaður, sem telur sig hafa gert einkaleyfishæfa uppgötvun, að sækja strax um einkaleyfi í öllum þeim löndum, sem hann óskar að fá uppgötvunina verndaða í. Af þessu leiðir mjög mikinn kostnað, sem uppfinningamaður verður að leggja í, áður en úr því er skorið með rannsókn á umsókninni, hvort hún er einkaleyfishæf. Eins og nú háttar. verða því íslenzkir hugvitsmenn eitt af tvennu að ráða yfir verulegum fjármunum og vera þess albúnir að leggja þá í allmikla hættu með umsóknum í mörgum löndum þegar í upphafi eða eiga á hættu, að aðrir notfæri sér hugmyndir þeirra með röngu, ef aðeins er sótt um vernd fyrir þær í einu eða fáum löndum. Jafnframt leiðir af þessu, að mjög erfitt er um vik að kanna söluhorfur eða aðra hagnýtingarmöguleika, sem fyrir uppgötvuninni kunna að vera. Íslenzkir hugvitsmenn eiga því nú mjög óhæga aðstöðu í samanburði við uppfinningamenn flestra annarra landa, og er þetta vafalaust fremur skýring á því, hve tiltölulega fáar einkaleyfisumsóknir eru bornar fram af íslenzkum mönnum hér á landi, heldur en skortur á hugviti. Við þvílíkar aðstæður hafa menn mjög litla hvatningu til þess að leggja sig fram.

Í löndum þeim, sem aðilar eru að Parísarsamþykktinni, nýtur uppgötvun verndar frá þeim degi, sem beiðni um einkaleyfi hefur verið borið fram á í einhverju aðildarlandanna, og getur þá uppfinningamaðurinn beðið í allt að 12 mánuði með að sækja um einkaleyfi í hinum aðildarlöndunum, en nýtur eigi að síður verndar þann tíma. Þetta er í allflestum tilfellum nægilegur tími til þess, að hægt sé að ganga úr skugga um með frumrannsókn, hvers virði uppgötvunin kann að vera, og annað, sem er mikilsvert, hann getur strax án áhættu kynnt og sýnt uppgötvunina opinberlega og hafizt handa um að koma henni í verk. Þetta viðhorf er ekki síður þýðingarmikið fyrir það, að í Parísarsambandinu munu vera um 60 lönd og þ. á m. allur þorri hinna iðnaðarþróuðustu landa. Aðild Íslands að Parísarsamþykktinni til verndar eignarréttindum á sviði iðnaðar hefur því mjög mikla þýðingu fyrir hugvitsmenn hér á landi og mundi vafalaust mjög örva viðleitni manna til uppfinningastarfsemi, endurbóta á framleiðsluháttum o.s.frv. Og við megum ekki gleyma því, að margs konar rannsóknarstarfsemi fer nú mjög í vöxt, bæði á náttúruauðæfum landsins, hagnýtingu þeirra, og í margs konar framleiðslustarfsemi atvinnuveganna. Það fer ekki hjá því hér fremur en annars staðar, að þessi rannsóknarstarfsemi leiði til margvíslegra uppgötvana, sem séu þess virði að vera verndaðar á alþjóðavettvangi sem eign íslenzkra manna, þannig að þjóðin geti af því haft nokkurn hagnað.

Ég vil því eindregið leggja til, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþykkt og því verði vísað til 3. umr.