09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

121. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Frsm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur rætt frv. þetta, og eins og fram kemur í grg. þess, var sú breyting ein fólgin í frv. þessu frá því, sem áður hefur gilt í lögum, að í stað hafnarstjóra, skipaðs af ráðherra og með setu í hafnarstjórn, kjósi bæjarstjórn Keflavíkur einn mann í hafnarstjórn og hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps annan mann. Áður hafði það gilt í lögum, að þessir aðilar skyldu koma sér saman um einn mann, og hefur ekki þrátt fyrir samkomulag á undanförnum árum verið talið æskilegt, að sú skipan gilti áfram.

Þegar til þessarar stjórnar var á sínum tíma stofnað með landshöfn í Njarðvíkum, þá mun ekkert fordæmi hafa verið fyrir skipun slíkrar stjórnar og því talið eðlilegt, að þessir aðilar kæmu sér saman um einn mann í stjórnina.

Þrátt fyrir þetta samkomulag, sem ég áðan minntist á, þykir nú eðlilegt, að við ósk bæði hafnarstjórnar og þessara tveggja aðila verði orðið um það, að þeir skipi sinn hvorn aðila í hafnarstjórnina.

Eins og í grg. kemur fram, hefur landshafnarstjórn mælt með samþykkt frv., en það var flutt að ósk hennar.

Sjútvn. hefur, eins og fram kemur á þskj. 646, mælt einróma með því, að frv. verði samþ. eins og það kom frá Nd.