09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

142. mál, sjúkraþjálfun

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. var sammála um að mæla með þessu frv., en við tveir nm., hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) og ég, berum fram tvær brtt. á þskj. 647.

Önnur till., við 3. gr., er aðeins um, að greinin verði orðuð á annan veg en gert er, en efnisbreyting er engin. Okkur finnst satt að segja 3. gr. ekki vel orðuð og ekki viðkunnanlegt, eins og þar er talað um, að „meðhöndla sjúklinga“.

Hin brtt. okkar snertir 4. og 5. gr. og er á þann veg að sameina 4. og 5. gr. í eitt, þannig að sama ákvæði gildi um þá aðila, sem um ræðir í 4. gr. og 5. gr. í 4. gr. er um lækna að ræða og þá fyrst og fremst sérfróða lækna, nuddlæknana. En í hinni greininni er um að ræða sjúkrahús, elliheimili, hressingarhæli og aðrar stofnanir, sem þurfa á sjúkraþjálfurum að halda til starfa. Okkur finnst eðlilegt, að nákvæmlega sömu ákvæði gildi um sjúkraþjálfara, hvort sem þeir starfa á lækningastofum hjá nuddlæknum eða á öðrum stofnunum.

Í öðru er okkar brtt. ekki fólgin, en hún er meðfram flutt af því, að landlæknir hefur bent á þetta ósamræmi í bréfi til Alþingis, og sömuleiðis hefur stjórn Læknafélags Íslands eindregið óskað eftir því, að þessu yrði breytt, að ég hygg í svipað horf og við gerum tillögu um á þskj. 647. En eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. tók fram, þá er ósk komin fram um það, að nefndin athugi betur, hvort ekki náist samkomulag um þessi atriði, og þess vegna vil ég óska eftir því við hæstv, forseta að mega draga þessar brtt. til baka til 3. umr.