24.03.1962
Neðri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

192. mál, skólakostnaður

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Á fundi, sem haldinn var í Bjarkarlundi á s.l. hausti af Fjórðungssambandi Vestfjarða og á voru mættir þingmenn Vestfjarða flestir, var gerð samþykkt um að fela þm. Vestfjarðakjördæmis að beita sér fyrir því, að ríkið bæri að öllu leyti rekstrarkostnað af héraðsskólum, að frádregnum tekjum þeirra. Það var því skömmu eftir að þing hófst, að þm. Vestf. komu saman og ræddu málið og ákváðu að flytja um þetta frv., ef á þyrfti að halda. En áður en það yrði gert, kom mönnum saman um að fela hv. 1. þm. Vestf., Gísla Jónssyni, að ræða málið við hæstv. menntmrh. Var hann oft á haustinu og vetrinum inntur eftir því, hvort hann hefði rætt málið við ráðherrann, og kvað hv. 1. þm. Vestf. sig hafa gert það og hafa fengið loforð hans fyrir því, að um þetta yrði flutt stjfrv. á þessu þingi og væri það væntanlegt á hverri stundu. En síðan eru liðnar margar vikur. Þetta veldur því, að Vestfjarðaþm. hafa ekki talið ástæðu til að flytja málið í frumvarpsformi. Það var skömmu áður en hv. 1. þm. Vestf. fór utan á þing Norðurlandaráðs, að ég innti hann eftir þessu máli, og sagði hann mér þá, að hann ætti von á því á hverri stundu, að stjfrv. kæmi fram um þetta, og hafði hann fyrir því orð hæstv. menntmrh.

Ég var því dálítið undrandi, þegar hv. 1. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason, sem nú situr hér um stund á þingi fyrir Gísla Jónsson, ber fram frv. um þetta mál með nokkrum flokksmönnum sínum, en hefur ekki á þetta mál minnzt, svo að ég viti, við Vestfjarðaþingmenn, og mun honum þó hafa verið kunnugt um þessa forsögu málsins. En nú er þetta mál komið fram og grípur á þessu sama, sem þm. Vestf. var falið og þeir frestuðu að flytja frv. um einungis vegna fregna um, að það kæmi sem stjfrv. fyrir þingið og ætti þannig möguleika á því að ná afgreiðslu á þessu þingi. Vil ég vænta þess, að þetta sé þá í raun og veru það frv., sem við höfum verið að bíða eftir frá hæstv. ríkisstj., og komi þá í sama stað niður, þó að það sé að forminu til ekki flutt sem stjfrv. En ef svo er ekki, ef hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að flytja málið í öðru formi og koma því þannig fram, þá vil ég spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort það sé ekki rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. hefur eftir honum haft, að von hafi verið og sé á stjórnarfrv. um þetta mál, eða þá í sambandi við það, hvort þetta frv. geti þá alveg komið í þess stað og fái sem sé fljótlega afgreiðslu nú á þessu þingi, því að efnislega er það um það mál, sem okkur Vestfjarðaþingmönnum var falið að koma fram, ef við gætum, á fundinum í Bjarkarlundi. En þessari fsp. vil ég leyfa mér að beina til hæstv. menntmrh.