30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

192. mál, skólakostnaður

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Hæstv. forseti. Frv. það, sem liggur hér fyrir til 2. umr., hefur menntmn. d. haft til athugunar og einróma samþykkt, að það nái fram að ganga.

Þetta mál hefur, svo sem kunnugt er, verið mjög lengi á döfinni og meira að segja oftar en einu sinni verið hér á síðustu árum í líkum búningi og það birtist nú í þessu frv., en fyrst og fremst byggist það á tillögum héraðsskólamanna og fulltrúa sýslufélaga, frá ýmsum fundum þeirra og þó sérstaklega fundi, sem þeir héldu haustið 1956. Það er öllum þeim, sem hafa komið nærri þessum hluta skólamála, ljóst, að hér varð að gera breytingu á, og hefur 1. flm. frv., hv. 1. þm. Vestf. (SB), ljóslega lýst því og enda orsökum þess, að það er hér flutt. En mér þykir þó ástæða til þess að fara nokkrum frekari orðum um þá breytingu, sem hér er ráðgerð á skólakostnaðarlöggjöfinni, og af hvaða orsökum hún er gerð.

Frv. gerir ráð fyrir Því, að kostnaður verði greiddur úr ríkissjóði að því er varðar héraðsskóla eða heimavistarskóla gagnfræðastigsins að fullu, bæði rekstrarkostnaður og stofnkostnaður. En nú segja lög svo fyrir, að ríkissjóður greiði 3/4 hluta af stofnkostnaði og viðkomandi sýslusjóður 1/4, en rekstrarkostnaður greiðist að hálfu leyti úr ríkissjóði og að hinum hlutanum úr viðkomandi sýslusjóðum. Hér er um að ræða sjö heimavistarskóla, heimavistargagnfræðaskóla eða héraðsskóla. Þeir eru átta í landinu, að því er ég bezt veit. Sá áttundi er á Austurlandi, Eiðaskóli, sem er rekinn einvörðungu af ríkinu.

Það segir sig sjálft, að ríkissjóður verður að greiða töluvert meira fé til þessara mála en áður hefur verið, verði frv. að lögum. En þessi auknu útgjöld, eftir því sem reiknað hefur verið út og miðað við árið 1961 í stofnkostnaði og 1959 í rekstrarkostnaði, eru ekki svo tilfinnanleg. Samkv. skýrslu, sem hér liggur fyrir á fskj. og fylgir frv., er útgjaldaaukning ríkissjóðs talin mundu nema um 750 þús. kr. Nú má vera, að þessi fjárhæð yrði, ef reiknað væri með rekstrarkostnaðarreikningum 1961, nokkru hærri, þó þarf það ekki að vera. En þar á móti kemur það, að ríkið, þegar það hefur eitt orðið yfirráð yfir þessum skólum, hefur mjög tök á því að haga rekstri þessara skóla á hagkvæmari hátt en verið hefur. Þá er þess líka að gæta, að sumarnotkun þessara skóla flestra er engin eða að kalla engin, en gæti orðið meiri og öflugri, t.d. í menningar- og uppeldisskyni, en verið hefur, ef ríkið hefði alfarið með skólana að gera. Og svo er hins að geta, að þegar ríkið hefur losað sig við getulausan eða getulítinn aðila, sem sýslusjóðirnir eru yfirleitt, — það hefur komið glögglega í ljós, — þá getur það meir farið sinna eigin ferða, því að sannast sagna er almennt talið af kunnugum mönnum, að sýslusjóðir geti í raun og veru ekki verið aðilar að skólum sem þessum og eigi ekki að vera það og fyrst og fremst vegna þess, að þessa sjóði vantar öldungis tekjustofna, sem færir séu að standa undir rekstrar- og stofnkostnaðaraðild skólanna.

Þá er ein ástæða enn mjög rík til þess, að ríkið taki þessa skóla að sér að fullu. Það er vitanlegt, að nemendur á þessum skólum eru hvarvetna komnir að. Ég hef skýrslur frá 1958 um þetta atriði, og þá kemur í ljós, að um 35% af nemendum á þessum skólum eru úr viðkomandi héraði, en um 65% utan héraðs. Það má því kalla, að þessir skólar séu miklu fremur ríkisskólar en héraðsskólar. Þá er að geta þess, að meiri hluti eða mikill hluti sýslufélaga í þessu landi sleppur algerlega við að greiða kostnað í sambandi við héraðsskóla, en þeir hinir sömu nota engu síður en aðrir skólana. Þessar og margar fleiri ástæður liggja til þess, að þetta frv., sem hér er til umr., eigi hinn fyllsta rétt á sér.

Ég vil geta þess, að fræðslumálastjóri og eins fjármálaeftirlitsmaður skóla eru báðir þeirrar skoðunar, að það spor, sem yrði stigið með því að samþykkja þetta frv., yrði mjög til bóta, mikill ávinningur, ekki sízt fyrir ríkissjóðinn, og þeir hafa báðir lagt til, að ákvæði í þessa átt yrðu gerð að lögum.

Það kom fram í ræðu hv. 1. flm. þessa máls, að þeir tveir ráðh., sem hafa með þetta mál að gera, hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., væru báðir hlynntir málinu. Ég hef átt tal við hæstv. menntmrh., og hann hefur tjáð mér, að hann sé sammála menntmn. um það, að þetta frv. eigi rétt á sér og rétt sé, að það gangi fram. Hins vegar hefur hann tjáð mér, að hans samþykki sé bundið því skilyrði, að ákvæði frv. eigi einungis við þá sjö héraðsskóla, sem nú eru starfandi í landinu.

Þá er það annað atriði, sem ekki er tekið fram um í frv., en er nánast tækniatriði. Það er spurningin um það, með hverjum hætti eignaskipti skuli fram fara, ef af því verður, að ríkið taki þessa skóla. Bæði þessi atriði munu tekin til athugunar fyrir 3. umr.

Það er von þeirra, sem vilja veg og gengi héraðsskólanna, að sú breyting, sem hér er áformað að gera á lögum um skólakostnað, megi ná fram að ganga og verða að lögum á yfirstandandi þingi. Eins og ég sagði áðan, er það áreiðanlega mikill ávinningur fyrir þau héruð, sem að skólunum standa, og yfirleitt fyrir alla þá aðila, sem að skólunum standa, og þannig í rauninni er það þá þjóðin í heild, sem hlýtur stærsta hlutinn af þeirri breytingu, sem þetta frv. stefnir að.