05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

192. mál, skólakostnaður

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vildi mjög óska þess, að þessu máli yrði lokið hér í dag. Umræðum var frestað hér fyrr, vegna þess að hæstv. menntmrh. óskaði eftir því, sem stafaði af því, að það þurfti að athuga nánar þá brtt., sem hefur verið gerð á frv. Brtt. hefur nú verið endurprentuð og borin þannig undir hæstv. ráðh., sem hefur tjáð sig fullkomlega samþykkan henni, og því sé ég ekki ástæðu til þess að fresta umr. vegna afstöðu hæstv. ráðh. til afgreiðslu málsins. Málinu var frestað í gær, vegna þess að formaður Alþb., hv. 3. þm. Reykv., óskaði eftir því, og var orðið við þeirri beiðni. Ég sé því enga ástæðu til að fresta málinu nú og legg mjög að hæstv. forseta að ljúka málinu í dag, áður en fundi er slitið. Þetta er afar mikið áhugamál fyrir öll þau héruð, sem standa að viðkomandi skólum. Nú er liðið langt á þingtímann og málið þarf að komast til Ed. á morgun, til þess að það verði örugglega afgreitt þar fyrir þingslit. Legg ég mjög mikla áherzlu á, að umr. verði lokið hér nú, nema því aðeins að hæstv. forseti gefi loforð um, að umræðunni verði lokið síðar í kvöld. Þá er mér náttúrlega sama, þótt málinu sé frestað um stund. En ég legg afar mikla áherzlu á, að málið verði afgr. hér í þessari deild í dag.