05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

192. mál, skólakostnaður

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem hér var sagt, að ég hafði kvatt mér hljóðs í þessu máli fyrir tveim dögum. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs þá, var, að fram hafði komið brtt. á þskj. 601, sem mér sýndist vera missmíð á. Þar var sem sé ákvæði um það, að tilteknir héraðsskólar skyldu vera eign ríkisins, án þess að nánar væri gerð grein fyrir því, að þar þyrfti samþykki til að koma, og sýndist mér, að eigi væri hægt að setja slíkt ákvæði með almennum lögum, nema í samræmi við ákvæði þar um í 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Nú hefur þessi brtt. verið prentuð upp á þskj. með sama númeri og þessi missmíð leiðrétt, þannig að í raun og veru er ekki ástæða til þess að tala um það efni frekar. Má segja, að þar með sé niður fallin meginástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs. En ég vil aðeins vekja athygli á því, úr því að ég hafði kvatt mér hljóðs, að við 2. umr. lá fyrir einróma álit hv. menntmn., þar sem hún mætti með frv. eins og það lá fyrir óbreyttu, og ég hefði vænzt þess, að hv. n. léti eitthvað til sín heyra um þessa brtt., sem nú liggur fyrir, annaðhvort að hún hefði tekið hana fyrir til athugunar og mælt með henni eða móti eða að hún ættaði sér að gera það. Einnig þykir mér nokkuð á skorta, að ekki virðast liggja fyrir glöggar upplýsingar um það, hvort héraðsskólar, fleiri eða færri, telja þá brtt., sem þarna liggur fyrir á þskj. 601, leysa sinn vanda, en talið er, að brtt. sé flutt í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti. Varðandi þann héraðsskóla, sem starfar í mínu kjördæmi, þá er mér ekki kunnugt um, að hann hafi látið í ljós álit sitt um þetta, þótt það geti hugsazt, að það hafi gerzt nú alveg nýlega. En mér hefði fundizt æskilegt, að þetta hefði legið fyrir, hvort skólarnir sjálfir telja þessa till. leysa sín vandamál, og ef ekki liggur fyrir álit frá þeim öllum, hverjir af þeim hafa talið svo vera.

Ég hafði gert ráð fyrir, að þetta mundi upplýsast í sambandi við það, að hv. menntmn. tæki till. til athugunar og meðferðar, eins og venjulegt er.