05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

192. mál, skólakostnaður

Benedikt Gröndal:

Hæstv. forseti. Þegar frv. þetta í sinni upprunalegu mynd var sent til menntmn., var n. mjög fljót að afgreiða það með því að mæla einróma með því. N. gat verið fljót við afgreiðslu þessa máls, vegna þess að sama mál í mjög svipaðri mynd hefur verið fyrir þinginu undanfarin ár, og menntmn. hefur þá, að verulegu leyti skipuð sömu mönnum, fjallað ýtarlega um það. Snemma á s.l. ári hélt n. t.d. fundi með fræðslumálastjóra og fjármálaeftirlitsmanni skóla um þetta, þannig að hjá n. lágu fyrir mjög ýtarleg gögn og allmikil athugun, sem olli því, að nm. þótti óþarfi að kalla þessa sömu aðila fyrir um sama mál aftur nokkrum mánuðum siðar. Nm. voru reiðubúnir að afgreiða málið eins og það þá var.

Kjarninn er sá, að í n. var á síðasta þingi og enn á þessu þingi mikill áhugi á að koma því til leiðar, að ríkið gengi til móts við þau sveitarfélög, sem hafa umrædda skóla, og tæki á sig verulegan eða allan hluta af kostnaði við þá. Það, sem nú hefur gerzt með brtt., sem eru mest ræddar, hefur gerzt utan n., en þó þannig, að ég, sem er form. n., hef vitað af breytingunum og hef að mínu leyti ekki gert við þær aths. Hér er gengið lengra en áður var og sérstaklega eftir að sá varnagli hefur verið settur inn, að sveitarfélög geti sjálf sagt til, hvort þau vilja þiggja stuðninginn eða ekki. Af öðrum nm. er mér kunnugt um, að frsm. n. í þessu máli hefur einnig fylgzt með Þessum breytingum, en beinar óskir hafa ekki borizt til mín frá öðrum nm. um, að málið yrði tekið upp aftur. En hvað þetta snertir geta nm. óskað þess, ef þeir vilja, og þá mun ég að sjálfsögðu gera það, sem beðið er um í þeim efnum.