05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

192. mál, skólakostnaður

Halldór E. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en í sambandi við þau ummæli, sem hv. 1. þm. Vestf, viðhafði áðan, að hann hefði rætt þetta mál við þá þm., sem þetta mál varðaði, þá vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel mig varða héraðsskólamál. Í því kjördæmi, sem ég er þm. fyrir, er héraðsskólinn í Reykholti, og varðar mig þess vegna um þetta mál eins og aðra hv. þm., innan þess ramma, sem hv. 1. þm. Vestf. talaði um. Við mig hefur hv. þm. ekki rætt um þetta mál. Hins vegar breytir það ekki afstöðu minni til málsins.

Eins og þetta frv. var lagt fyrir í fyrstu, þá var ég fylgismaður þess og hefði verið ánægður með það á marga lund, ef það hefði náð fram að ganga. Hér hefur það hins vegar gerzt, að frv. hefur verið gerbreytt, að mér skildist á hv. 1. þm. Vestf. með samkomulagi milli einhverra hv. þm. og hæstv. ráðh. Eins og till. var lögð fyrir hér á fundi í fyrrakvöld, var með öllu ómögulegt að greiða henni atkv. Ég tel mig ekki hafa neitt umboð til að afhenda Reykholtsskóla, en með samþykkt þeirrar till. var búið að gera það og svo um aðra héraðsskóla. Hins vegar eins og málið liggur nú fyrir, þá er öðru máli að gegna. Það er komið senn að þingslitum, og ef málið fer að tefjast, þá nær það ekki fram að ganga á þessu þingi. Inn í það er kominn nú sá varnagli, að það þarf enginn eigandi héraðsskóla að ganga að því, nema hann af fúsum vilja vilji það, og eftir að sú breyting hefur verið gerð, að engin lög falli niður, þá heldur hann öllum þeim rétti, sem hann hefur gagnvart þeim lögum, sem nú gilda, bæði um rekstur og stofnkostnað. Þess vegna á hann um það að velja, að hafa það, sem er, eða þetta, sem hér á að samþ.

Enda þótt þetta beri allt að með óvenjulegum hætti og hætti, sem ekki má í raun og veru framkvæma hér á hv. Alþ., þá mun ég nú samt, þrátt fyrir það sem orðið er, fylgja þessu máli fram, þar sem héraðsskólarnir eiga sjálfir allan réttinn til að velja eða hafna.