05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

192. mál, skólakostnaður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef nú fengið svör við því að mestu leyti, sem ég spurði um áðan, og þakka ég fyrir þau svör. En hinu verður ekki á móti mælt, að mjög svo undarleg vinnubrögð hafa nú verið hér höfð við afgreiðslu þingmáls. Ég minnist þess ekki, að það hafi yfirleitt gerzt, að mál sé ekki aftur tekið til athugunar í nefnd, — það er ekki mjög tímafrekt, stundum eru hreint og beint undir umr. máls gerðar ráðstafanir til þess að ná í nm. og vita um þeirra afstöðu, — ef einhver smábreyting hefur orðið við afgreiðslu málsins, frá því að n. fjallaði um það, því að margar okkar brtt. við frv. eru um það, að vikið er til orði, og þarf ekki meira til, til þess að málið breytist samt allverulega, og þá leyfa sér yfirleitt ekki að halda málinu áfram, nema ganga úr skugga um, hvort þetta hafi breytt afstöðu nm. Og ef mál tekur slíkri breytingu, að ætla megi, að það varði nokkru um afstöðu nm., þá eiga þeir rétt á því sem nm., að málið sé undir þá borið á ný, áður en það komi í d. til meðferðar, og d. á einnig rétt á því og kröfu á því, að n. hafi fyrst komizt að niðurstöðu um mál og tekið afstöðu til þess í því formi, sem það er, þegar það er til umr. í deildinni.

Það er vitanlega alveg hárrétt, að ekkert mál, sem ég man eftir, hefur gerbreytzt eins og þetta, þegar við 3. umr. liggur fyrir till. um að fella 1. gr. niður, sem n. mælti með, fella 2. gr. niður, sem n, mælti með, að breyta 3. gr. svoleiðis, að hún er gersamlega um allt annað og miklu meira en hún var, þegar n. fjallaði um hana, og fella 4. gr. niður og orða 5. gr. á annan hátt. Þar með var frv. búið og ekki fleiri gr. til í því. Öllum var þeim breytt, og samt er n. ekki kölluð saman aftur. Og nafninu þarf að breyta líka á frv., og samt er ekki kölluð saman nefndin. Formaður vissi um, hvað var að gerast, og einn annar nm. segist líka hafa vitað um það og þar með búið. Ég álít, að þarna hafi verið nokkuð gengið fram hjá rétti n. og þá sé ekkert eðlilegra en þingdeildin vilji vita um það, hver er afstaða n. til þessa máls í hinum gersamlega endurnýjaða búningi. Hver er afstaðan til þessa umskiptings, því að hér er um umskipting að ræða?

Þá skal ég aðeins víkja örfáum orðum að því, sem hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) sagði hér áðan, og sé ég ekki, að neinn geti á móti því mælt, að málið er að formi til algerlega sem nýtt mál og hefur hvorki legið fyrir þingdeild til 1. umr. í því formi né fyrir n., að því er nú er upplýst, og er borið fram sem brtt. við málið, en á þann hátt, að nafn og allar gr. frv. breytast. Og þegar málið hefur nú fengið þennan búning, þá er því svo þröngur stakkur skorinn, að það fjallar eingöngu um núv. héraðsgagnfræðaskóla, að Laugarvatni, Laugum, Núpi, Reykholti, Reykjanesi, Reykjum og Skógum, og kveður á, að þeir skuli vera séreign ríkisins, en ekkert almennt um, hvaða lagaákvæði skuli vera um héraðsgagnfræðaskóla almennt á Íslandi. Ég tek undir með hv. 6. þm. Sunnl. um það, að eðlilegast væri, að ákveðið væri með þessu frv., sem við hér komum til með að afgreiða, að í fyrsta lagi breyttu nú þessir gagnfræðaskólar formi, frá því að vera reknir sameiginlega af héruðunum og ríkinu, og að einnig yrðu þeir heimavistarskólar gagnfræðastigs, sem síðar verði reistir og samþykktir af fræðslumálastjórninni, séreign ríkisins, svo að við fengjum ekki tvenns konar fyrirkomulag á gagnfræðaskólum, sem hingað til hafa verið kallaðir héraðsgagnfræðaskólar. Að vísu er algerlega rangt að kalla þá héraðsgagnfræðaskóla, eftir að héruðin hætta alveg að vera aðilar að þeim, en í frv. voru þeir alls staðar kallaðir, eins og ákveðið er nú í lögum, héraðsskólar. Það var af því, að þeir voru reknir af héruðunum, en nú er verið að hætta því. Ég hef ekki séð hina uppprentuðu útgáfu af till., en í brtt., sem lá fyrir okkur hér á síðasta þingfundi, þegar málið var rætt, þá var innan sviga í málsgr. í brtt.: héraðsskólar. (Gripið fram í: Það er enn.) Er það enn? Það á auðvitað alls ekki rétt á sér, því að nú eru þeir á engan hátt héraðsskólar, það á undir engum kringumstæðum að vera. Þeir verða hreinir ríkisskólar með þessari breytingu, og það væri algerlega rangt að kenna þá lengur við héruðin, því að það er verið að skilja þá frá héruðunum með þessari lagabreytingu, svo að enn þarf að gera þá breytingu á þessu frv. Það ætlar sem sé aldrei að enda þessi ferill með breytingar, heldur áfram sífelldar breytingar.

Málið hefur verið allt of lítið athugað. Eins og frv. var lagt fyrir upphaflega, þá var hreint og beint á því tekið. Það var nákvæmlega í sama formi og frv., sem Pétur Ottesen flutti hér og fleiri með honum fyrir nokkrum árum, og það frv. var sjálfsagt gerhugsað, og það var að öllu leyti í eðlilegu formi. En svo hefur þessi hraðsuða, sem orðið hefur á málinu síðan, farið þannig úr hendi, að alltaf þarf að vera að breyta því.

Ég vil í framhaldi af því, sem hv. 6. þm. Sunnl. vék hér að áðan, taka fram, að ég felli mig betur við það, að héðan í frá verði allir héraðsskólar, allir þeir skólar, sem við höfum kallað héraðsskóla hingað til, séreign ríkisins, eins og þessir skólar, sem nú eru í landinu, og það breytir ekkert eðli málsins, það er í raun og veru bara að ákveða það, að sams konar skólar, sem stofnaðir verði með samþykki fræðslumálastjórnarinnar, skuli vera einnig séreign ríkisins. Það er eðlilegast. Ég vil leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. um þetta og vona, að það verði ekki talið tefja neitt fyrir málinu. Við verðum alltaf að vera við því búnir undir umr. máls, að fram komi brtt., og hér þarf að gera breyt. að því er snertir orðið héraðsskólar, því að engum getur dottið í hug að kalla þá það í lögum, sem eru að gera þá að hreinum ríkisskólum. Mín breyting er þá svona: „Einnig verða þeir heimavistarskólar gagnfræðastigs, sem siðar verða reistir með samþykki fræðslumálastjórnar, séreign ríkisins.” En ég sem sé legg til munnlega, að orðið „héraðsskólar“ í málsgr. falli niður, því að það á ekki lengur við, og vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till., þar sem hún er bæði skrifleg og of seint fram komin.