14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

226. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði óskað þess hér í gær, þegar þetta mál var til umræðu, að það væri athugað af fjhn. á milli umræðna. Ég hef að vísu ekkert almennt að athuga við þann sið, að nefndir þings taki að sér fyrir hina og þessa aðila, og ekki sízt þegar ríkisstj. á í hlut, að flytja frv., en ég álít, að þessi siður megi ekki verða til þess, að málin fái þess vegna ekki athugun í nefnd. Við vitum allir, hvernig það gengur fyrir sig, þegar annaðhvort hæstv. ríkisstj., hver sem hún er á hverjum tíma, eða einhverjar og einhverjar stofnanir í þjóðfélaginu biðja okkur, sem erum í einhverri nefnd, um að flytja þar mál. Þá gerist það venjulega þannig í n., að það er samkomulag um að flytja málið. Það skoðast sem eins konar kurteisisskylda. En samkvæmt þingsköpunum er það þannig, að þegar ein n. flytur málið, þá þarf ekki að vísa því til hennar aftur. Ég álít þess vegna, að við megum ekki láta þann sið komast upp, að um leið og ein n. flytur mál, þá þýði það raunverulega, að málið sé aldrei athugað í nefnd, því að það er ekki síður að athuga málið, þegar ákvörðun er tekin um að flytja það. Ég vil eindregið mælast til þess, að fjhn. taki þetta mál til athugunar. Ég hef að vísu ekkert við það að athuga, hvort það er gert á milli 1. og 2. eða 2. og 3. umr., það er allt í lagi, en aðeins að hún athugi málið og fjhn.- menn láti sína skoðun í ljós á því, meira en bara að n. sé samþykk því að flytja málið og menn hafi um það óbundnar hendur.