16.04.1962
Neðri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

226. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil við þessa umr. aðeins gera grein fyrir því, að eins og ráðgert var við 2. umr. málsins, þá hafði fjhn. fund um þetta mál í morgun, og lágu þá fyrir nánari upplýsingar um ábyrgðarheimildir, sem veittar hafa verið Framkvæmdabankanum og með hverjum hætti. En ég vil gera aðeins grein fyrir því, að þegar lögin um Framkvæmdabankann voru sett 1953, þá var upphaflega ábyrgðarheimildin 80 millj. kr. Síðan var lögunum breytt 1954 og hækkuð ábyrgðarheimildin þá um 145 millj. kr., þannig að hámarkið var þá 225 millj. Síðan voru ábyrgðarheimildirnar enn hækkaðar með lagabreytingu 1957, þá um 150 millj. kr. og hámarkið þá 375. Og loks var hækkuð ábyrgðarheimildin með lögum 1961 um 225 millj., og var þá hámarkið 600 millj. kr. Af ábyrgðarheimildunum, þessum 600 millj., sem hámarkið var orðið 1961, hefur alls verið notað 586 961970 kr. Það er svo rétt, að menn athugi það, að við notkun ábyrgðarheimildanna er miðað við það gengi, sem er í gildi eða í gildi var, þegar lánin voru tekin, og miðað við núgildandi gengi nema notaðar ábyrgðarheimildir um 1137 millj. kr.

Það, sem hér er farið fram á, hækkun ábyrgðarheimilda um 400 millj. kr., er, eins og áður hefur komið fram, til þess að hafa opna möguleika fyrir bankann til ríkisábyrgðarheimildar, án þess að sérstakar lántökur séu hafðar í huga, eins og fram kom strax í grg. frv. Það má þó benda á það, að Framkvæmdabankinn hefur að jafnaði tekið hin svokölluðu PL-480 lán frá Bandaríkjunum, sem ríkisstj. Bandaríkjanna hefur veitt hér í sambandi við innflutning á landbúnaðarafurðum frá Bandaríkjunum, og svo að menn átti sig nokkuð á því, þá hafa t, d. frá júnímánuði 1961 verið tekin þar þrjú lán, sem enn er ófrágengið, svokölluð PL-lán, upp á 49.7 millj., 32 millj. og 57.3 millj. Hér er um stórar upphæðir að ræða og hafa náttúrlega fyllt ört þá hækkunarheimild um 225 millj, kr., sem veitt var á sama ári, 1961. Og það má gera ráð fyrir, að framhald verði á þessu og þessi ábyrgðarheimild verði notuð í sambandi við þau lán með sama hætti og verið hefur. En að öðru leyti er ekki, eins og ég segi, um sérstaka lánveitingu að ræða. Hins vegar var nm. látin í té skrá yfir öll þau erlendu lán Framkvæmdabankans, sem tekin hafa verið með ríkisábyrgð, og eins og kunnugt er, hafa þessi lán mestöll farið í stærri framkvæmdir hér á landi, raforkuframkvæmdir, ræktunarframkvæmdir, fiskveiðasjóð, sementsverksmiðju, hitaveitu, iðnlánasjóð og frystihúsaframkvæmdir o.s.frv., sem mönnum er nú í stórum atriðum ljóst.

Í n. mæla 4 nm. með því, að frv. verði samþ., en 4. þm. Austf. lætur fyrir sitt leyti afgreiðslu málsins afskiptalausa.