17.04.1962
Efri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

227. mál, lán til þriggja skipasmíðastöðva

Fram. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er vitað mál, að þetta eru síðustu klukkustundirnar, sem þingið starfar, og ég hafði heyrt um þessa till., að hún gæti verið á leiðinni. En ég verð að segja, að það er til æðimikils ætlazt af þm. þessarar hv. d., ef þeir eiga að taka afstöðu til slíkra heimilda alveg á síðustu klukkustundunum, án þess að nefnd hafi nokkra aðstöðu til að rannsaka þetta mál.

Það er rétt, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði um þetta, iðnn. brá skjótt við og hélt að ósk forseta fund til að afgreiða þetta mál, eins og það lá fyrir frá hv. Nd., sbr. þskj. 780, og afgreiddi það einróma á sínum fundi. Nefndin hafði hins vegar enga aðstöðu til að afgreiða það mál, sem hér hefur á síðustu stundu verið flutt um skrifl. brtt. og er komið fram á allra síðustu mínútum í meðferð málsins, og ég verð að mótmæla því alveg eindregið, að svona aðferðir séu viðhafðar, án þess að nefnd hafi nokkra aðstöðu til að kynna sér aðstöðu vélsmiðjunnar til að njóta slíks láns, eins og hér er farið fram á. Það er vitað mál, að þessi vélsmiðja hefur allt til þessa dags annazt allt aðra framleiðslu en hér er um að ræða og mun lítt undir það búin að hefja smíði á skipum. Hún hefur gott orð á sér fyrir sína núverandi framleiðslu, en undirbúningur hennar undir það að hefja smíði á skipum mun nánast enginn, að því er vitað verður. Ég er andvígur svona afgreiðslu mála og mun greiða atkv. gegn því, ef n. gefst ekki kostur að athuga nánar um það, hver grundvöllur er að slíkri till. sem þessari, sem hér er skriflega flutt.