17.04.1962
Efri deild: 96. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

227. mál, lán til þriggja skipasmíðastöðva

Frsm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur rannsakað þau málsskjöl, sem liggja fyrir, og haft spurnir af því, hvað lá fyrir hv. iðnn. Nd., þegar þessi mál lágu fyrir þar, og er tjáð, án þess að hafa haft aðstöðu til að fara í gegnum einstök málsskjöl, að það hafi legið fyrir tölulegar upplýsingar varðandi ástæður þeirra aðila, sem um getur á þskj. 780 og þegar hafa verið samþ. við 2. umr. málsins. Hins vegar liggja engar upplýsingar fyrir varðandi þá skriflegu brtt., sem hér hefur verið flutt, og niðurstaða n. varð af þeim ástæðum sú, að hún hefur óbundnar hendur um afstöðu til málsins.

Þetta vildi ég af hálfu n. segja, en að öðru leyti vísa til þess, sem ég áðan sagði við 2. umr. málsins, að ég tel það mjög hæpið, að hægt sé að samþykkja jafnáhrifamikla ábyrgð og hér um ræðir, án þess að nokkur vitneskja sé um möguleika þessara aðila, sem hér um ræðir, til skipasmiða. Ég vil hins vegar ekki á nokkurn hátt vefengja það, að þessi aðili geti verið eins hlutgengur og þeir aðrir, sem um ræðir, en aðstaða til þess að meta það var engin, þar sem engar upplýsingar lágu fyrir um þetta atriði.