13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2545 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

167. mál, lögskráning sjómanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er fjarri því, að ég vilji mæla gegn þessu frv. Ég tel það vera til bóta, en vil þó segja nokkur orð í tilefni af því.

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að á undanförnum árum hafa útgerðarmenn samið um það við sjómenn á nokkrum stöðum að tryggja sjómenn, sem farast eða verða fyrir algerri örorku af slysum í þjónustu útgerðarinnar, fyrir 200 þús. kr. auk þeirra 90 þús. kr., sem almannatryggingarnar ákveða. Þeir menn, sem hafa öðlazt slíkan samningsrétt, eru því tryggðir fyrir 290 þús. kr. En þar sem samningar hafa ekki tekizt við útgerðarmenn um þetta, eru bæturnar, sem koma frá almannatryggingunum, aðeins 90 þús. kr. Við samninga milli sjómanna og útgerðarmanna s.l. tvö ár hefur verið leitað eftir því að fá þessi samningsákvæði alls staðar hjá sjómönnum, en það hefur ekki tekizt enn þá, og er því um tvenns konar rétt þarna að ræða að því er sjómennina snertir.

Þegar fyrir tveimur árum var staðið upp frá samningaborði og ekki fékkst samkomulag um þetta, þá lofuðu þó báðir aðilar að styðja að því, beita sér fyrir því, að þessi réttur yrði öllum sjómönnum tryggður með löggjöf, og með þetta loforð beggja aðila í huga var það, að ég og annar þingmaður, hv. 7. landsk., fluttum á seinasta þingi frv. til laga um það, að allir sjómenn skyldu vera tryggðir fyrir 200 þús. kr. auk hinnar lögboðnu tryggingar. Það frv. var borið fram snemma á því þingi, en ekki fékkst það afgr. á þinginu, þó að meðmæli bæði verkalýðssamtaka og Vinnuveitendasambandsins væru fyrir hendi. Þó að svona færi, vildum við enn freista þess að fá þennan rétt sjómanna lögfestan og bárum því fram frv. á ný í byrjun þessa þings. Því var vísað til heilbr.- og félmn. og hefur verið rætt þar nokkrum sínnum, en ekki fengizt þar samstaða um málið, þó að rækilega væri gerð grein fyrir því, að þessi réttur hefði komizt inn í samninga á nokkrum stöðum, en annars staðar hefði ekki tekizt að fá þennan rétt tryggðan sjómönnum með samningum, og misrétti væri því ríkjandi, og á það bent, að hvað eftir annað hefði komið fyrir, að heilar skipshafnir hefðu farizt án þess að vera tryggðar, ýmist sökum þess, að samningar höfðu ekki haldizt um þetta atriði, eða eins og í þessum tilfellum, að samningar höfðu ekki fengizt um þessa aukatryggingu, og þá hefur það gerzt, þegar svona hefur borið til, að ástæða hefði þótt til að setja í gang víðtæka fjársöfnun, söfnun til hjálpar aðstandendum, og væri slíkt lítt viðunandi. Við vorum einatt að ræða þetta mál enn þá einu sinni í heilbr.- og félmn. um þær mundir, sem sjóslys var hér í febrúarmánuði, og það var þá vitað, að þeir menn voru ótryggðir, og skorti þá ekki á, að menn í meiri hl. í hv. heilbr.- og félmn. tjáðu sig fúsa til að leggja til, að frv. yrði fellt. Þá afgr. þó n. fljótlega málið, þannig að meiri hl. vildi ekki leggja til, að það yrði samþ., en minni hl. fylgdi tillögu um samþykkt þess. Minni hl, gaf þá út nál., síðan er liðið hátt í hálfan mánuð, en enn þá hefur ekki komið neitt álit frá hv. meiri hl. nefndarinnar.

Þetta eru þær viðtökur, sem málið hefur fengið hér á hv. Alþingi, en þá flytja menn hér frv. um að reyna að tryggja rétt sjómannanna í þeim tilfellum, þegar samningsbundni rétturinn ekki heldur, en það tryggir á engan veg rétt þeirra manna, sem búa á þeim félagssvæðum, þar sem útgerðarmenn hafa verið svo óbilgjarnir að vilja ekki semja um þessa sjálfsögðu tryggingu. Ég segi því: Þetta frv. er til bóta til þess að reyna að tryggja samningsbundna réttinn hjá þeim, sem honum hafa náð, en misréttið er enn þá ríkjandi að því er snertir þá sjómenn, sem hafa ekki fengið samningsréttinn tryggðan við sína útgerðarmenn, og úr því er ekki hægt að bæta á neinn annan hátt en með lögum, og þennan rétt á að mínu áliti að tryggja með löggjöf. Það er sama aðferðin og oft hefur verið höfð, að ná í gegnum samninga réttindum. mannréttindum og kjarabótum, og oft og tíðum hefur svo það gerzt, að löggjafinn hefur talið rétt að tryggja þann rétt almennt með lögum. Ég verð að segja það, að ég skil það ekki, að menn skuli stimpast á móti frv. eins og þessu, sem borið er fram með meðmælum bæði verkalýðssamtaka og vinnuveitendasamtaka, og allir þeir aðilar, sem snurðir hafa verið. höfðu sent hv. heilbr.- og félmn. sterk meðmæli með því, að málið yrði samþykkt. nema hvað Tryggingastofnunin sjálf lét hvorki uppi skoðun með né móti. En það vantaði ekki, að Vinnuveitendasamband Íslands hafði reynzt sá drengur að standa við sín orð og mæla með löggjöf um þetta efni, bæði í fyrra og nú.

Ég harma þessa meðferð málsins og taldi fulla ástæðu til að rekja þetta mál, svo að þm. vissu, hvernig á þessu máli hefur verið tekið, og er ekki farið fram á neitt annað í frv., sem fyrir þinginu liggur, en að öllum sjómönnum verði tryggðar 200 þús. kr. dánarbætur og bætur vegna fullrar örorku í viðbót við þær 90 þús. kr., sem almannatryggingalöggjöfin gerir ráð fyrir, og meðmæli fylgja frá öllum aðilum. Ég vil vona, að þm. snúist þannig við því máli, að þetta sjálfsagða mál fáist lögfest, ef einhvern tíma skyldi koma nál. frá meiri hl. n., sem ekki hefur séð dagsins ljós enn. Þó mun ég, meira að segja þó að reynt verði að bregða fæti fyrir málið á þann hátt að láta ekkert nál. koma, fara þess á leit við hæstv. forseta, að málið verði tekið á dagskrá og til umr. og afgreiðslu án slíks nál. frá meiri hl., þá að það sé óvenjulegt.