13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

167. mál, lögskráning sjómanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil ekki una því, að ég sé sagður segja það ósatt, að þegar hv. þm., sem nú var að enda við að tala, hafði gert grein fyrir því, hvaða undirtektir þetta mál hefði fengið í hans þingflokki, og bar þau boð til n., að ef til vill mundi ríkisstj. síðar á þessu þingi flytja frv. um að tryggja öllum þennan rétt, sem í þessu frv. fælist, og spurði að því, hvort ég vildi þá bíða með þetta mál þangað til, þá taldi ég þetta of óljós skilaboð til nefndarinnar og sagði, að ég vildi ekki bíða, heldur vildi ég afgr. málið út úr n. En jafnframt spurði ég þá um það: Eru þá hv. nefndarmenn meiri hl. reiðubúnir til að flytja það sem brtt. við þetta frv.? — Og þeir sögðu: Við erum ekki tilbúnir til þess að svo stöddu. — Þetta er sannleikur málsins. Fram að þessu hafa þeir ekki viljað fylgja tillögu um það að tryggja 200 þús. kr. bætur öllum, heldur átti ég að bíða með afgreiðslu þessa máls á öðru þinginu, sem það var flutt, upp á óljós vilyrði fyrir því, að ef til vill kæmi ríkisstj. með frv., sem færi í bessa átt og tryggði öllum 200 þús. kr. bætur. Hv. þm. sagði, að það væri vanmat á samtökum sjómanna af minni hendi að vilja ekki láta þennan rétt vinnast smám saman með samningum. Það er búið að berjast fyrir þessum rétti núna í meira en tvö ár, og það hefur tekizt að ná honum sums staðar, en annars staðar ekki. Þetta er staðreynd, sem maður horfist í augu við. Þá vill maður fara fljótfarnari leiðina, ef skilningur væri fyrir hendi, löggjafarleiðina. Ég efast ekkert um það, að með áframhaldandi baráttu fæst þessi réttur yfir alla línuna, en það á ekki að una því, að ósamræmi um mál sem þetta ríki í mörg ár og lengst á þeim stöðum, þar sem samtökin eru veikust til að knýja þennan sjálfsagða rétt fram.

Ég held, að þessum hv. þm. hefði verið sæmst, sem búinn er að liggja á málinu án þess að skila nál. í fast að hálfum mánuði, — honum hefði verið sæmst að þegja.