13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2555 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

167. mál, lögskráning sjómanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu, sem hér hefur farið fram, en finnst þó rétt að leggja hér nokkur orð í belg. Ég held satt að segja, að það þurfi ekki að vera að deila um þetta, vegna þess að mér virðist það koma fram hjá báðum málsaðilum, sem hér hafa látið til sín taka, að þeir séu sammála um þá meginstefnu, að lágmark viðkomandi trygginga eigi að vera 200 þús. kr. Og það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er, að þetta verði tryggt í sambandi við lögskráningu sjómanna varðandi þá sjómenn, sem þegar hafa samninga um þetta. Nú hef ég ekki skilið þá, sem að þessu frv. standa, öðruvísi en þeir telji líka rétt, að þeir sjómenn, sem enn eru ekki búnir að ná þessum samningum, njóti þessara hlunninda, og þess vegna held ég, að það, sem nú skiptir mestu máli, sé að tryggja þessum sjómönnum það, að þeir fái þessi réttindi. Og þetta finnst mér að eigi að vera mjög auðveit með því að gera lítils háttar breytingu á þeirri till. eða því frv., sem hér liggur fyrir, þannig t.d., að í stað þess, sem í frv. segir, að við lögskráningu á skip skuli liggja fyrir yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um, að samningsbundnar líf- og slysatryggingar séu í gildi, þá orðist þetta dálitið á aðra leið eða þannig, að við lögskráningu lægi fyrir yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um, að hver skipverji hafi verið líf- og slysatryggður og sé lágmark tryggingarinnar 200 þús. kr.

Ég trúi ekki öðru en hv. flm. telji eðlilegt að fallast á þetta og þess vegna verði þetta lögbundið þannig, að í sambandi við lögskráningu á skip liggi það jafnan fyrir, að það sé búið að líftryggja og slysatryggja hvern skipverja fyrir þessa lágmarksupphæð. Ég held, að þetta sé svo sjálfsagt mál, að það sé eðlilegt, að það sé gengið örugglega frá þessu einmitt í sambandi við lögskráninguna, þ.e. búið sé að tryggja þessa lágmarkstryggingu. Hitt er hins vegar alveg rétt, eins og hér hefur komið fram, að þetta útilokar á engan hátt frjálsa samninga milli sjómanna og útvegsmanna um þetta mál, því að allir eru sammála því, að þetta eigi aðeins að vera lágmark, og sjómenn geta að sjálfsögðu farið fram á það og eiga líka að fara fram á það, að tryggingin verði hærri en hér er ákveðið, og um það gætu hinir frjálsu samningar fjallað, þar sem löggjöfin gerði ekki annað en að tryggja örugglega þetta lágmark.

Ég held, að ef frv. væri breytt í þetta horf, að það lægi fyrir við lögskráningu örugg yfirlýsing frá vátryggingarfélagi um það, að búið sé að tryggja hvern skipverja fyrir þessa lágmarksupphæð, þá gæti það komið að verulegum notum og þá ættu hv. flm. þakkir skilið fyrir að hafa hreyft þessu máli.