04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

167. mál, lögskráning sjómanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls urðu nokkrar umr. hér í deildinni í tilefni af því, að það var upplýst, að þetta frv. nær ekki til nema nokkurs hluta sjómannastéttarinnar. Ég kvaddi mér því hljóðs og lýsti yfir þeirri brtt. við frv., sem mér fannst vera líkleg til samkomulags, að aðalgrein frv. eða 1. gr. yrði orðuð á þessa leið:

„Yfirlýsingu frá viðkomandi tryggingarfélagi um, að hver einstakur skipverji hafi verið líf og slysatryggður og sé lágmark tryggingarinnar minnst 200 þús. kr.“

Þessari till. minni var mjög vel tekið af hv. 1. flm. frv., Pétri Sigurðssyni, og lýsti hann fylgi sínu við hana. Mér kom því dálítið á óvart, þegar ég sá í nál. hv. sjútvn., að þessi till. hafði ekki verið tekin til greina. Ég leyfi mér því að leggja fram svo hljóðandi brtt. við frv.:

„Við 1. gr. Meginmál greinarinnar orðist svo: Yfirlýsing frá viðkomandi tryggingarfélagi um, að hver einstakur skipverji hafi verið líf og slysatryggður og sé lágmark tryggingarinnar minnst 200 þús. kr.“

Ég held satt að segja, að Alþingi geti ekki svo skilizt við þetta mál, að það samþykki ekki slíkt lágmark og það, sem hér um ræðir.

Að undanförnu hafa hvað eftir annað komið fyrir sjóslys, þar sem aðstandendur látinna sjómanna hafa ekki fengið aðrar tryggingar en þær, sem almannatryggingarnar veita, sem eru 90 þús. kr. Ég held, að allir hv. þm. ættu að geta verið sammála um það, að slíkt er algerlega ófullnægjandi og má ekki koma fyrir í framtíðinni. Og það verður ekki tryggt á annan hátt, úr því sem komið er, en þann, að það liggi fyrir í hvert skipti, sem sjómaður er skráður á skip, að það sé búið að tryggja þá lágmarkstryggingu, sem hér um ræðir. En eins og fram kom við 1. umr. þessa máls, þá er það ekki nema nokkur hluti sjómannastéttarinnar. sem hefur fengið þetta tryggt með samningum. Aðrir mundu þurfa að segja upp samningum, og ýmislegt gæti af því hlotizt, sem menn óskuðu ekki eftir, kannske langvinnir samningar um önnur atriði sjómannakjaranna, og þess vegna er langheppilegast, að löggjafinn leysi þetta mál nú í eitt skipti fyrir öll. Ég veit ekki annað en það liggi fyrir yfirlýsing um það frá samtökum útvegsmanna, að þau vilji mæla með því, að útgerðarmenn yfirleitt taki að sér þessa tryggingu, svo að það á ekki að vera því til fyrirstöðu hér, að útgerðarmenn séu neitt á móti þessu, þó að þetta sé ekki enn komið inn í samningana. Og þess vegna er í raun og veru ekki verið að skapa hér neitt fordæmi um það að lögbjóða tryggingar, sem viðkomandi aðili sé andvigur, vegna þess að það liggur hér fyrir frá þeim, sem eiga að greiða þessar tryggingar, útgerðarmönnum, að þeir séu reiðubúnir til þess að fallast á þessar greiðslur. Þegar þannig stendur á, má segja, að hér sé ekki verið að skapa neitt sérstakt fordæmi fyrir því, að Alþingi sé að skylda atvinnurekendur til að greiða tryggingar, sem þeir séu andvígir. Ég leyfi mér því að leggja fram þessa brtt. og afhenda hana hæstv. forseta.