04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

167. mál, lögskráning sjómanna

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. 7. landsk. (EðS) benti á í ræðu sinni hér áðan, að stjórnarflokkarnir hefðu nú fyrir skemmstu fellt frv. um að lögfesta 200 þús. kr. skyldatryggingu sjómanna á fiskiskipum, eins og samningar þeirra kveða á um. Ég mun ekki ræða frekar um afgreiðslu þess frv. í hv. d., en get tekið undir allt það, sem hv. 7. landsk. sagði um það mál.

Um það frv., sem hér liggur fyrir, vil ég benda á, að það mun sýna sig, að mikil vandkvæði munu á því verða, að ákvæði yfirlýsingarinnar verði framkvæmd. Alsiða mun vera, t.d. hér á vertíðinni við Suðurland og annars staðar reyndar líka, að þá séu aðeins þeir menn lögskráðir, sem eru um borð í skipum, sem róa frá landi, en ekki þeir, sem vinna við bátana í landi, við beitingu eða aðgerð. Nú kemur það vitanlega oft fyrir, að sjómenn forfallast og verða veikir. Þá er fenginn einhver þeirra manna, sem vinna við bátinn í landi, til að róa einn eða fleiri róðra. Nú er mikil hætta á því, að lítið eftirlit verði haft um það, hvort viðkomandi maður, sem fenginn verður í staðinn fyrir hinn skráða sjómann, sem af einhverjum ástæðum hefur ekki getað farið í róðurinn, verður lögskráður eða ekki, enda máske oft og tíðum erfitt að koma slíku eftirliti við. Af því, er hér hefur verið bent á, tel ég, að sú yfirlýsing, sem hér liggur fyrir í frv: formi, nái ekki fyllilega tilgangi sínum, þótt ég hins vegar viðurkenni það, að hún er til bóta — og það mikilla bóta — frá því, sem nú er. Ég tel það vægast sagt mjög illa farið, að frv. Þeirra hv. 4. og 7. landsk. skyldi ekki ná fram að ganga. Afgreiðsla þess hér í hv. d. segir nokkuð til um þann hug og áhuga, sem stjórnarflokkarnir bera til íslenzkra sjómanna. Það hefði mátt ætla, að eftir að fyrir lágu meðmæli allra þeirra aðila, sem frv. var sent til umsagnar, mælt með samþykkt þess, hefðu stjórnarflokkarnir séð sóma sinn í að samþ. Það. En því miður var það ekki, og ber að harma slíka meðferð á jafnþýðingarmiklu máli og hér um ræðir.

Sérstaklega verð ég að undrast yfir framkomu hv. 1. þm. Vestf. í málinu. Hann er gamall sjómaður og þekkir máske mörgum alþm. betur kjör og allar aðstæður íslenzkra sjómanna. Hefði því mátt ætla, að hann, þessi hv. þm., mundi yfirleitt styðja fram komnar till. til úrbóta á málefnum sjómanna, m.a. um það að lögfesta 200 Þús. kr. dánarbætur til aðstandenda þeirra, sem missa sína fyrirvinnu í sjóinn. Því miður virðist þessi hv. þm. vera þar nú á annarri skoðun, þó að hann hafi hér áður á Alþ. lýst sig fylgjandi hækkuðum tryggingum fyrir sjómenn, eins og hv. 7. landsk. benti hér á.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta. Ég vil þó taka það aftur fram, að þrátt fyrir það að ég sé ekki að öllu leyti ánægður með það orðalag, sem á yfirlýsingunni er, tel ég hana vera til bóta, en harma hins vegar, að það frv., sem hér lá fyrir um það að lögfesta þá tryggingu, sem er í samningum sjómanna, skyldi ekki ná fram að ganga.