17.04.1962
Efri deild: 97. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

167. mál, lögskráning sjómanna

Jón Árnason:

Herra forseti. Frv. þetta um lögskráningu sjómanna hefur verið til umr. í sjútvn. Það er í sambandi við hin hörmulegu sjóslys, sem átt hafa sér stað, að það hefur komið í ljós, að þrátt fyrir það að sjómannafélög og útgerðarmenn hafa tekið upp í kjarasamninga sín í milli ákvæði um aukna líf- og slysatryggingu til viðbótar þeim ákvæðum, sem lögboðið er, þá hefur átt sér stað í stórum stíl vanræksla á því, að staðið hafi verið við þessi samningsatriði, og hefur verið látið undir höfuð leggjast að kaupa umræddar líftryggingar.

Það hefur orðið nokkur ágreiningur í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að um sé að ræða nýja áhættu fyrir skráningarstjórana, ef frv. þetta verður að lögum. Í sambandi við það er n. kunnugt um, að ríkisstj. mun gefa sérstaka yfirlýsingu í því sambandi, og í trausti þess, þá mælir sjútvn. með frv. óbreyttu. Að vísu voru ekki allir nm. á fundi við endanlega afgreiðslu málsins. Einn þeirra, hv. 5. þm. Norðurl. e., var fjarverandi, nú þegar n. gekk frá málinu. en hann hafði þó áður tjáð sig samþykkan frv. í aðalatriðum, en taldi þó, að það þyrfti að ganga betur frá þessu ákvæði frv. Ég vil því leyfa mér, herra forseti, fyrir hönd n. að mæla með því, að frv. verði samþykkt.