12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

Almennar stjórnmálaumræður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar ríkisstj. hóf störf sín, kvaðst hún ætla að vinna tvennt með alveg nýrri stefnu: ná varanlegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, gerbreyta þjóðfélagsháttunum. Það fyrra hefur algerlega mistekizt, og verður fram á það sýnt í þessum umr. Hið síðara mun heppnast, ef áfram heldur sem horfir, enda aðaltilgangur þess, sem aðhafzt hefur verið, að brjóta niður stuðning ríkisvaldsins við uppbyggingu almennings og láta þá uppbyggingu með því rýma fyrir hinum nýju öflum einkaauðsins, sem gera út Sjálfstfl. Stjórnin skírði stefnu sína Viðreisn, — bæði þurfti að finna snoturt nafn og eins mátti til með að gefa í skyn, að stjórnin hefði tekið við öllu á hliðinni. Á þeirri blekkingu þurfti að halda til að reyna að fá menn til að sætta sig við þá miklu kjaraskerðingu, sem samdráttarstefnunni fylgdi, og allar þær þvingunarráðstafanir, sem sýnilega þurfti að gera til að pína uppbygginguna í nýjan farveg, þ.e. á vegum beirra fésterkari, máske útlenzkra, ef í það fer. Enginn veit enn þá, að hve miklu leyti slíkt er fyrirhugað, en mikið er talað og af lítilli gát eða forsjá um blessun þess, ef útlendir kæmu hér með fyrirtæki. Ríður þó á fáu meir en setja slíku eðlilegar skorður og að Íslendingar treysti fyrst og fremst á sjálfa sig í atvinnumálum sinum sem undanfarið. Ríkisstj. heldur uppi miklu skrumi um, að hún hafi reist fjárhag þjóðarinnar úr rústum. Þessar blekkingar um rústirnar annars vegar og stórfelldan bata hins vegar verða bezt afhjúpaðar með því einfalda ráði að bera saman rústirnar og skrumhöll viðreisnarmanna, eins og hún stóð við síðustu áramót.

Við áramótin var gjaldeyrisstaða bankanna jákvæð um 526 millj., en var jákvæð um 228 í árslok 1958, hefur því batnað um 293. Á sama tíma hafa lausaskuldir vegna vörukaupa erlendis hækkað um nálega 300 millj., og stafar því betri gjaldeyrisstaða bankanna nú um áramótin eingöngu frá lausaskuldasöfnun erlendis. Á þessu tímabili hafa erlend lán til lengri tíma þar að auki aukizt um rúmlega 600 millj. kr. Ekkert bendir til, að hin ofboðslega kjaraskerðing né samdráttur framkvæmda hafi á nokkurn hátt orðið til að bæta heildarhag þjóðarinnar. Ríkisstj. mun benda á gjaldeyrisstöðu landsins, að gjaldeyrisstaða landsins hafi batnað s.l. ár, og er það rétt. En ekkert segir það út af fyrir sig um heildarafkomu þjóðarinnar, fremur en pyngjan ein eða veskið um afkomu einstaklingsins. Sú þjóð, sem dregur úr eða vanrækir arðbæra fjárfestingu sína, er ömurlega á vegi stödd og grefur undan afkomu sinni, jafnvel þótt hún eignist nokkrar krónur í reikning. Slíkt hefnir sín grimmilega.

Bætt gjaldeyrisstaða á síðasta ári á rætur sinar í því, að hér kom að landi meiri sjávarafli en dæmi eru áður til og seldist yfirleitt góðu verði, auk þess sem gjafafé frá Bandaríkjunum kom til á ný.

Kjaraskerðingin og samdráttarráðstafanir ríkisstj. hafa máske dregið eitthvað úr innflutningi, en þær drógu einnig tvímælalaust úr framleiðslunni. Hafa framleiðendur landsins verið óþreytandi að lýsa því, hvernig tilbúinn rekstrarfjárskortur, okurvextir og aðrar þvingunarráðstafanir hafa truflað rekstur fyrirtækjanna og dregið úr framleiðslunni, auk þess sem umfangsmiklar vinnustöðvanir eyðilögðu að verulegu leyti vertíðina í sumum beztu verstöðvum landsins í fyrra, og nú liggja allir togararnir.

Aukin framleiðsla sjávarafurða, landbúnaðarafurða og iðnaðarvara á árinu 1961 á sér engar rætur í ráðstöfunum núv. ríkisstj., heldur varð þrátt fyrir þær. Það var ekki aðeins, að núv. valdasamsteypa tæki við góðri stöðu landsins út á við í árslok 1958, sem hafði farið batnandi á því ári, heldur fékk hún í arf meiri og betri framleiðslutæki en þjóðin hafði nokkru sinni áður átt, og þar til viðbótar var búið að gera ráðstafanir fram í tímann til útvegunar enn fleiri tækja og semja um fjáröflun, m.a. lán til frekari framkvæmda með góðum kjörum. Og það er vegna þessarar uppbyggingar og þessara tækja, sem ríkisstj. hefur mistekizt að koma hér á því mátulega atvinnuleysi, sem er einn liðurinn í jafnvægishugsjón stjórnarstefnunnar og ásamt með sífelldum gengisfellingum á að halda launasamtökunum niðri. Það er þessi arfur úr rústunum, sem bezt hefur dugað fólki gegn samdráttarstefnu núv. valdhafa, að ógleymdri útfærslu landhelginnar, sem blátt áfram hefði ekki getað komið til mála, ef núv. stjórnarflokkar hefðu einir getað ráðið þá.

Árangurinn af útfærslu landhelginnar hefur orðið jafnvel betri en við þorðum að vona, en framlag þessarar stjórnar í því máli hefur það eitt orðið að færa landhelgina inn aftur í 6 mílur á stórum svæðum til mikils tjóns, þótt það hafi ekki náð að spilla svo, að heildarárangur sé ekki góður samt.

Allt ber því að sama brunni. Aukin framleiðsla hefur orðið þrátt fyrir, en ekki vegna ráðstafana núv. ríkisstj., og lifað hefur verið á því fyrst og fremst, sem búið var í haginn, áður en yfir skall. En það gildir ekki um alla framtíð, enda berast nú þegar aðvörunarraddir úr öðrum löndum um, að fjárfesting Íslendinga sé nú orðin allt of lítil.

Afstaða ríkisstj. í landhelgismálinu og fleiri málum sýnir, að stjórnin er að sama skapi flöt fyrir þrýstingi erlendis frá sem hún er harðskeytt og illvíg inn á við. Sama hefur komið fram í sjónvarpsmálinu, svo að almenna hneykslun hefur vakið. Hafa áreiðanlega margir þungar áhyggjur af þessu, þar sem á næstunni ríður sennilega meira á því en oftast áður í sögu þjóðarinnar, að með festu sé haldið á málefnum hennar í skiptum við aðrar þjóðir.

Víkjum þá aftur að efnahagsmálunum. Það, sem bagaði mest vinstri stjórnina og raunar aðrar stjórnir á undan henni, var vísitölukerfið, sem skrúfaði verðlag og kaupgjald upp á víxl, engum til hagnaðar. Út af þessu fór vinstri stjórnin frá, þar sem ekki náðist samkomulag um að stöðva þá óheillarás, enda þótt framsóknarmenn sýndu fram á, að með því var hægt að tryggja lífskjörin eins og þau voru í okt. 1958. Þennan meginágalla efnahagskerfisins fékk núv. valdasamsteypa lagfærðan verulega veturinn 1959. Framsfl. hafði sem sé sömu afstöðu til málsins í stjórnarandstöðunni þá og í stjórninni áður og hafnaði þegar í upphafi stjórnarandstöðu sinnar þeirri vinnuaðferð, sem var að verða eins konar hefð hér á landi, að stjórnarandstaðan skyldi vera í því fólgin að drepa, ef hægt væri, öll mál fyrir stjórninni og reyna að brjóta sér þar að auki braut til valda með því að vinna skemmdarverk á efnahagskerfinu. En þannig hagaði Sjálfstfl. sér t.d. í andstöðu sinni við vinstri stjórnina, sem öllum er í fersku minni, sem muna vilja.

Framsfl. hefur á hinn hóginn tamið sér allt önnur vinnubrögð í stjórnarandstöðunni, sem m.a. kom fyrst fram í því að gera nýju valdasamsteypunni 1959 kleift að laga þann ágalla á efnahagskerfinu, sem örðugastur hafði verið og orðið hafði vinstri stjórninni að fótakefli fremur en nokkuð annað. Þetta var að sjálfsögðu ekki gert stjórnarinnar vegna, heldur þjóðarinnar vegna. Menn geta svo spreytt sig á því að íhuga, hvernig farið hefði um verðgildi ísl. krónunnar og dýrtíðarmálin í höndum þessarar stjórnar, ef Framsfl. hefði synjað um að slíta vísitöluna þannig úr sambandi 1959.

Þessi valdasamsteypa fékk lagaðan þannig mesta ágallann þegar í byrjun og hafði því betri skilyrði en nokkur önnur stjórn áratugum saman til að koma á jafnvægi í efnahagsmálum og halda áfram öflugri uppbyggingu og tryggja áframhaldandi kjarabætur. En brátt kom í ljós, að þetta var ekki ætlunin. Tók nú forráðamenn Sjálfstfl. að dreyma stóra drauma um hina góðu, gömlu daga fyrir 1927, þegar íhaldið réð eitt. Nú höfðu þeir líka fengið félagana að sínu skapi, Alþýðuflokk hinn nýja. En hugarfarinu hjá forráðaliði Alþfl. nýja er lýst í leiðara í Alþýðublaðinu nú fyrir skemmstu, þar sem leitazt er við af mikilli hreinskilni að fá menn til að skilja, að Alþfl. geti ekki sett Sjálfstfl. kosti eða skilyrði, því að það þyrfti að þreyta Sjálfstfl. og það svo, að Alþýðuflokksmenn yrðu að fara úr stjórninni. Menn eiga af þessu að sjá og skilja, að allt verður að vera eins og íhaldið vill. Við þetta atlæti hafa viss öfl, sem mestu ráða í Sjálfstfl., fært sig svo upp á skaftið, að opinberlega er farið að tala um ýmislegt nýstárlegt, t.d. að leggja niður sum stærstu og þýðingarmestu ríkisfyrirtækin og afnema vökulögin þvert ofan í vilja sjómanna. Á engu slíku hefur verið svo mikið sem imprað áratugum saman, einfaldlega af því að allir hlutaðeigendur vissu, að ekkert í þá átt kom til mála að Framsfl. samþykkti.

Þegar núv. stjórnarflokkar höfðu marið meiri hl. á Alþingi með kjördæmabreytingunni, sem barin var fram í samvinnu við kommúnista, sem þá voru taldir góðir og liðtækir Íslendingar, fengu menn að sjá, hvað við var átt með því, að taka þyrfti upp nýja stefnu, og viðreisnin hófst. Viðreisnin er fólgin í því að magna dýrtíðina innanlands sem mest og halda jafnframt niðri kaupgjaldi og afurðaverði, draga um leið úr útlánum og gera með margvislegum hætti sem örðugast fyrir með fjármagn í nýjar framkvæmdir. Á að minnka með þessu neyzlu og fjárfestingu og leggja grunn að nýju þjóðfélagi, með því að draga á allan hátt úr stuðningi við fjárfestingu þeirra, sem ekki hafa fullar hendur fjár, en þeir taki við, sem mestu fénu ráða.

Byrjað var með stórfelldri gengislækkun, frystingu sparifjár og öðrum þeim ráðstöfunum, sem menn kannast við. Á tveim árum hafa álögur til ríkissjóðs verið hækkaðar um 800–900 millj. og þar með meira en tvöfaldaðar, þótt jafnframt væru raunverulega minnkuð framlög til verklegra framkvæmda. En ekki er þetta látið nægja, því að til viðbótar eru nú lagðir nýir stórskattar á framíeiðendur. Útflutningsgjöld á sjávarafurðir eru hækkuð stórkostlega og sérskattur innleiddur á bátaútveginn til þess að standa undir erfiðleikum togaraflotans, í stað þess að taka nauðsynlegan stuðning við togaraútgerðina af opinberu fé, því að togaraútgerðin á inni hjá þjóðarbúinu fyrst og fremst. Lögleiddur er 2% launaskattur á bændur ofan á vaxtahækkun og styttingu lánstíma. Jafnhliða þessu ætla svo ráðh. að rifna af monti út af því, að allir sjóðir séu yfirfljótanlega fullir af peningum, segjast safna stórfé alls staðar. Íslendingar búa við vaxtakjör, sem engin framleiðsla getur staðið undir. Vaxtaokrið hefur þó ekki komið sparifjáreigendum til góða, því að afleiðing viðreisnarinnar hefur orðið meiri rýrnun á verðgildi sparifjár en nokkru sinni fyrr og miklu meira en étið upp auknar vaxtatekjur.

Verulegur hluti af sparifé landsmanna hefur verið dreginn úr umferð inn í Seðlabankann og þar að auki verið minnkuð afurðalán úr Seðlabankanum. Frysta spariféð nemur yfir 300 millj., og er talsmönnum stjórnarinnar sagt að segja, að svona verði þetta að vera til að koma í veg fyrir verðbólgu, það myndi verðbólgu, að spariféð sé í umferð. Í Seðlabankanum er svo haldið uppi okurvöxtum á afurðalánum til að geta borgað vexti af þessu dauða sparifé, og brást ríkisstj. Í vetur loforði til útgerðarsamtakanna um að lækka afurðavextina, m.a. af þessari ástæðu.

Þeir, sem fyrir þessu ráða, eru eitthvað undarlega slitnir úr tengslum við starfslíf þjóðarinnar. Þeir virðast ekki hafa hugmynd um, hverju athafnasamt myndarfólk getur komið til leiðar, ef því er trúað fyrir peningum. Framsóknarmenn sögðu strax, að Þessar aðfarir allar saman hlytu að reisa óviðráðanlega dýrtíðaröldu í landinu og fengju ekki staðizt. Mundi þetta verða undirrót upplausnar og samdráttar í búskap þjóðarinnar og skapa lítt leysanleg vandamál. Slíkt öngþveiti var orðið í dýrtíðar og kjaramálum eftir eitt ár, að ríkisstj. réð ekki við neitt. Stappaði nærri allsherjarverkfalli í upphafi síldarvertíðar í fyrrasumar, ofan á mikla stöðvun í byrjun vetrarvertíðar. Og stjórnin fann enga lausn. Þá tókst samvinnufélögunum og launasamtökunum að finna hóflega lausn, sem bjargaði síldveiðunum og þar með afkomu þjóðarinnar s.l. ár, og var því tekið með miklum fögnuði um land allt. En því var mest fagnað, að kjarasamningarnir voru þannig, að allir sáu, að kapp var á lagt að leita að raunhæfri lausn, sem gat staðizt, og hér sveif nýr andi yfir vötnunum, ólíkur því, þegar fjallað var um þessi mál á vegum sjálfstæðismanna 1958. Nú átti ríkisstj. leik á borði, sem framsóknarmenn bentu strax á. Kauphækkunin var ekki meiri en svo, að atvinnuvegirnir gátu borið hana, flestar greinar að óbreyttu, en allar, ef vextir voru lækkaðir og minnkaðar þvingunarráðstafanir í lánamálum. Um þetta þarf ekki að þræta. Þetta eru staðreyndir, sem þá voru auðsæjar kunnugum, en nú liggja skjallega staðfestar fyrir allra augum. Síldarverð til útvegsins hækkaði. Iðnaðurinn fékk yfirleitt alls ekki að hækka vörur sínar vegna kaupbreytingarinnar. Frystihúsin stóðu tæpast, en þau hefðu notið vaxtalækkunar mest, og ofan á allt er nú sannað með opinberum skýrslum, að útflutningsverð á fiski var hækkandi og hækkaði verulega á síðasta ári. Við þetta bættist stórvaxandi sjávarafli, upp í metframleiðslu, og vaxandi gjaldeyristekjur, en við þessar ástæður rak ríkisstj. samt á nýja gengislækkun, en þjóðin stóð agndofa af undrun.

Nú er komið í ljós, að sjávarframleiðslan 1961 varð 18% meiri að verðmæti en árið áður og svo sem fyrirsjáanlegt var mörg hundruð millj. meiri en ríkisstj. reiknaði með, þegar hún var að reyna að finna tyllirök fyrir gengislækkuninni í sumar.

Rétt er að geta þess, að ríkisstj. hefur aldrei gert minnstu tilraun til að sýna fram á, að gengislækkunina hafi þurft vegna atvinnuveganna, enda hefur mikið af þinghaldinu í vetur gengið í að fá lögfesta flókna og mikla lagabálka til að reyta af sjávarútveginum með nýjum álögum allan ávinning, sem ella gat komið til mála fyrir hann af gengislækkuninni í sumar, svo að fyrir sjávarútveginn stendur allt verr en áður.

Reynslan sýnir nú, að framsóknarmenn höfðu alveg rétt fyrir sér í því, sem þeir héldu fram s.l. sumar, alveg eins og fram hefur komið, að réttmætt var það, sem við sögðum 1960, að „Viðreisnar“-fásinnan hlyti að leiða til óviðráðanlegs dýrtíðaröngþveitis og röskunar á þjóðfélagsgrundvellinum, þeim sem okkur hefur bezt gefizt. En sá grundvöllur er að styðja sem drengilegast einstaklingsframtak dugmikils fólks, þótt ekki hafi fullar hendur fjár, og félagslega uppbyggingu almennings.

Gengislækkunin í sumar er eitthvert átakanlegasta frumhlaup, sem hent hefur í stjórnmálum síðustu ára. Er það nú viðurkennt af öllum, nema ríkisstj. auðvitað og nokkrum æsingamönnum í því liði, sem telja, að þetta hafi verið hraustlega útilátið högg í orustunni við almenning í launasamtökunum um lífskjaraskerðinguna og svo bændur auðvitað. En hér mun gilda, sem gamlir kváðu, „að skamma stund verður hönd höggi fegin“. Hér mun líka eiga við, að „reiðin er slæmur ráðgjafi“, en í bræði var hér unnið fljótræðisverk. Svo erfitt sem ástandið var fyrir gengislækkunina í sumar, er þó allt hálfu verra síðan. Ber það upp á sömu dagana og stjórnarblöðin halda því fram, að viðreisnin hafi heppnazt svo vel, að líklega komist málefni almennings endanlega í viðunandi horf núna fyrir páskana.

Það munu hafa verið gjaldeyriskrónurnar fyrir síldina í fyrra, sem örva svona þessa áhugamenn í ritstjórnarliði stjórnarinnar, og svo þessar 150 millj.; sem ríkisstj. tók eignarnámi af sjávarútveginum í sumar og lagði í ríkissjóð, svo að hann fór að eiga inni í Seðlabankanum, — þótti þetta mikið afrek í þeim herbúðum.

Er þá rétt að íhuga, hvernig heppnazt hefur í raun og veru og hvað talið er viðunandi á stjórnarheimilinu. Gengið var fellt í annað sinn á 16 mánuðum í einu mesta góðæri, sem komið hefur, svo vel hafði viðreisnin heppnazt. Allur togaraflotinn, eins og hann leggur sig, liggur bundinn, og bólar ekki á neinni lausn. Framfærslukostnaðar-vísitalan hefur hækkað um 27%, eða 54 stig á gamla mælikvarðann, sem notaður var. Til þess að geta búið í lítilli íbúð nýrri þarf vísitölufjölskyldan á hinn bóginn að hafa yfir 100 þús. kr. í árstekjur. Eru þó ekki öll dýrtíðarkurl komin enn til grafar. Upp á móti þessu flóði komu kauphækkanirnar í sumar, sem ríkisstj. er búin að gera að engu aftur, þótt framleiðsluaukning hafi orðið mjög mikil.

Hliðstætt er búið að bændunum, nema nú eiga þeir einir allra að fá yfir sig 2% launalækkun upp í gengistöp viðreisnarinnar. Þá hafa ýmsar fjölskyldur fengið fjölskyldubætur, sem eru þó eins og krækiber í dýrtíðarámu ríkisstj. Við þessar ástæður er launakerfið í landinu algerlega brostið. Mannsæmandi lífi verður alls ekki lifað lengur á því kaupi, sem mikill meginþorri manna getur unnið sér inn á venjulegum vinnudegi, og það sama er að segja um bændurna. Upplausnarmerki sjást alls staðar. Opinberir starfsmenn bindast samtökum í stórhópum til að ganga úr stöðum sínum að óbreyttu. Ákveðið er nú að stokka upp öll launamál opinberra starfsmanna; ekki seinna en á miðju næsta ári, og stórir hópar þeirra knýja fram hækkanir strax. Launafólk og bændur undirbúa sókn út úr þessari sjálfheldu. Á meðan reyna menn að fleyta sér og sínum einhvern veginn með sífellt meiri og meiri þrældómi.

Út af því upplausnarástandi, sem ríkisstj. skapaði með gengislækkuninni í sumar, ofan á annað, sem fyrir var, er ríkisstj. svo núna farin að gefa út áskoranir um almennar kauphækkanir til þeirra, sem lægst eru launaðir. En fyrir nokkrum mánuðum, bara örfáum mánuðum, voru það kölluð skemmdarverk, þegar samvinnusamtökin björguðu síldarvertíðinni með því að semja um hóflegar kauphækkanir til þeirra lægst launuðu í landinu. Þannig er ríkisstj. nú komin alveg í hring í ráðleysisfálminu, en eftir situr það tjón, sem gengislækkunin hefur valdið.

Ofan á þetta ástand bætast svo horfurnar fyrir almenning í fjárfestingarmálunum. Skip og bátar hafa hækkað um 70—90%. helztu landbúnaðarvélar um 93%, iðnaðarvélar að sama skapi. Byggingarkostnaður lítillar íbúðar hefur hækkað um yfir 100 Þús. kr. Til þess að eignast meðalfiskibát þurfa menn að leggja 11/2—21/2 millj. kr. á borðið. Og annað er í hlutfalli við þetta. Jafnframt er svo atvinnuaukningarféð til sjávarplássanna raunverulega minnkað um helming eða meira, og um það er nýr lagabálkur, — ekki vantar lagabálkana.

Áhrifin af þessu koma nú í ljós í vaxandi mæli. Framræsla hefur minnkað um þriðjung frá 1958. Báta- og fiskiskipakaup fara nú minnkandi. Byrjað var á helmingi færri íbúðum á s.l. ári en árið 1958. Sementssalan frá sementsverksmiðjunni á Akranesi hefur minnkað um þriðjung miðað við 1958. Og þannig mætti lengi telja. Þessi gífurlegu vandamál verða ekki leyst með því að státa eins og krakkar af nokkrum gjaldeyriskrónum á reikningi eftir metaflaár. Þau eru alvarlegri en svo. En á bak við allt þetta umstang, sem svo rækilega hefur umturnað efnahagskerfinu, býr ætlunin um að gerbreyta þjóðfélagsháttunum, sem skýrast var talað um í byrjun. Umbúðalaust er sú áætlun þannig, sem allir mega nú sjá á ummerkjunum. Ungt fólk á ekki að vera að bisa við að byggja upp búskap frá grunni. Bændum á að fækka. Ungir sjómenn eiga ekki að vera að streitast við að eignast eigin báta og skip. Ungu hjónin eiga ekki að vera að reyna að reisa eigin heimili. Þau eiga að leigja lítið afdrep hjá leiguíbúðafélaginu. Þetta verður svo allt sett á framkvæmdaáætlunina í tæka tíð, fyrir næstu kosningar. Það verður séð fyrir þessu öllu, segir stjórnarliðið, en bara af þeim, sem hafa nægilegt eigið fjármagn, svo að þetta geti orðið efnahagsleg fjárfesting, en ekki eins og þessar óheilbrigðu framkvæmdir almennings, sem gerðar hafa verið undanfarið með margvíslegum stuðningi þess opinbera og þeirri vaxta- og lánapólitík, sem rekin var.

Það er svo táknrænt fyrir óskammfeilnina, sem ekkert hefur breytzt, að þessi stefna hefur fengið nýtt einkunnarorð, í stað þeirra tveggja frá síðustu kosningum, sem má ekki lengur nefna, um kjarabæturnar og stöðvun dýrtíðarinnar, og hið nýja kjörorð þessarar stefnu er að finna í Morgunbl. annan hvern dag: Eign handa öllum. Til viðbótar er svo þeim, sem nú leggja kvöld og hálfar nætur með degi til að geta framfleytt sér og sínum, ráðlagt í Morgunblaðinu að kaupa hlutabréf í almenningshlutafélögunum. Er tæpast hægt að hugsa sér kaldranalegri storkanir en þennan blekkingaráróður sjálfstæðismanna. Væri synd að kvarta yfir ósamræmi í loforðum og efndum stjórnarflokkanna, þegar svo er komið, að loforðin um kjarabætur eru efnd með stórfelldri kjaraskerðingu, hátíðleg fyrirheit um stöðvun dýrtíðar með óðaverðbólgu, hörkulegar ráðstafanir til að draga úr framkvæmdum á vegum almennings eru framkvæmdar undir kjörorðinu „eign handa öllum“ og samdráttarstefnan skírð framkvæmdaáætlun.

En framkvæmdaáætlunin á að verða kosningaplagg ríkisstj. næsta vor, ef allt fer sem nú er ætlað. Voru ráðh. og þm. þó búnir að gefa mjög í skyn, að áætlunin kæmi fram í haust og til framkvæmda á þessu ári. Við nánari athugun hefur það á hinn bóginn vafalaust þótt áhættuminna, að framkvæmdaáætlunin kæmi ekki út fyrr en rétt fyrir kosningar, með því móti þyrfti mínna að efna.

Auðvitað hefur það ekki farið fram hjá neinum; að með harðri baráttu hefur ríkisstj. stundum verið knúin til að bæta mál sín og leggja jafnvel ýmislegt á hilluna eða geyma til betri tíma, ef þeir kæmu síðar. Einkum hefur þetta tekizt, þegar saman hefur farið barátta á þingi og undirtektir almennings í félögum og með fundahöldum og samþykktum. Ekki þarf að nefna mörg dæmi til að sýna þetta. Ríkisstj. þorði ekki annað en beita sér fyrir því að lokum, að skuldaskilabréf bænda yrðu gerð gjaldgeng í skuldir, þótt margyfirlýst væri af landbrh. áður, að bændur yrðu að semja um slíkt sjálfir við lánardrottna sina og því væru vextirnir hafðir svona háir. Eftir margra mánaða áskoranaflóð úr öltum áttum fékkst ríkisstj. loks í marz til að lýsa yfir því, að hún mundi ekki hleypa togurunum inn á bátamiðin, en í des. vildi stjórnin alls ekki gefa neinar slíkar yfirlýsingar, þegar þetta mál kom upp í umr. á Alþ. að frumkvæði ríkisstj. sjálfrar. í vaxtamálunum var ríkisstj. knúin til nokkurs undanhalds í árslok 1960, þótt það væri ekki fullnægjandi. Fyrir baráttu á Alþingi annars vegar og í útgerðarsamtökunum hins vegar lét ríkisstj. undan í vetur og breytti brbl. sínum þannig, að hækkun útflutningsgjalds af sjávarafurðum rennur beint í rekstur bátaútvegsins aftur, fram að árslokum 1962. Lengra komst nú ekki í fyrsta áfanga.

Fleiri dæmi mætti nefna, en verður ekki gert hér. Lát er að verða á stjórnarliðinu í vaxtamálunum undan þungri pressu og ömurlegri reynslu, og af því stafa hin tíðu loforð og yfirlýsingar í þá átt, sem enn þá er þó ekki staðið við. Þá vottar fyrir því, að undan verði látið siga í lánamálum, dregið úr lánasamdrættinum og eitthvað lánað út af því fé, sem dregið er inn í Seðlabankann úr bankakerfinu, enda magnast sífellt andúð almennings á þeirri fásinnu að taka fjármagnið, sem í landinu myndast raunverulega, þannig úr umferð og hlaða svo jafnframt drápsklyfjum nýrra skatta í ótrúlegustu myndum á almenning og atvinnuvegina, m.a. til að draga saman fé í lánasjóði landsmanna.

Þótt þetta sýni, hverju öflug stjórnarandstaða, studd almenningsálitinu, og almenningsálitið, sem látið er í ljós, getur komið til leiðar, verða menn að athuga, að nú fer í hönd sá tími, að lofað verður bót og betrun, með tvennar kosningar fram undan, enn fremur, að gerðar verði ráðstafanir í bili til að lina á og síðan hert á aftur með enn meira afli, ef tekst að komast í gegnum eldraun kosningabaráttunnar. Menn verða því að gera sér fulla grein fyrir því, að ekkert minna dugir en að ná þingmeirihlutanum af þeim tveim flokkum, sem hafa hann nú, og efla Framsfl. til aukinna áhrifa, sem hægt yrði að beita til að breyta um stefnu. Út úr þeirri sjálfheldu, sem efnahags- og atvinnumálin eru nú í komin, verður að brjótast með því fyrst og fremst að leysa þau öfl úr læðingi, sem stjórnarstefnan hefur fært í fjötra, en það er íslenzkt einstaklingsframtak og félagsframtak þeirra mörgu, sem vilja bjarga sér og vera efnahagslega sjálfstæðir. Það verður að snúa við og taka upp á ný þá stefnu að styðja uppbyggingu einstaklinga, almannafélaga og byggðarlaga, í stað þess að leggja stein í götu hennar, eins og nú er gert með stjórnarstefnunni.

Fram undan eru nýjar flóðbylgjur hækkana vegna þess, hvernig búið er að grafa undan afkomu heimilanna og raska algerlega öllu eðlilegu hlutfalli á milli teknanna hjá meginþorra manna annars vegar og kostnaðar við nýjar framkvæmdir hins vegar. Þetta sést bezt á dæmum þeim, sem ég áðan tók um vísitölufjölskylduna, hvað hún þarf til að geta lifað og búið í nýbyggðri íbúð, og fleiri dæmum, sem í þessum umr. verða tekin. Það verður að leggja kapp á að mæta þessum flóðbylgjum frá fjörbrotum viðreisnarinnar með því að auka framleiðni og framleiðslu og þar með þjóðartekjurnar, taka upp framleiðslustefnuna á ný og ekki með því, að hér verði allt gert á vegum þeirra einna, sem hafa fullar hendur fjár, þaðan af siður útlendra hringa eða útlendra félaga, heldur með því að styðja fyrst og fremst á ný fjárfestingu og framtak þeirra fjölmörgu, sem vilja byggja upp atvinnurekstur og sín eigin heimill. Ríkisvaldinu verður að beita á ný, svo sem áður var gert og bezt gafst, hiklaust og skynsamlega til stuðnings þeim, sem vilja bjarga sér sjálfir. Slíkur stuðningur verður að koma í staðinn fyrir þvingunar- og samdráttarstefnu ríkisstj. á öllum sviðum, sem nú er að brjóta niður eðlilegt framhald þeirrar uppbyggingar, sem bezt hefur gefizt íslenzkri þjóð.

Um þessa stefnu verða nægilega margir að sameinast, og geri menn það við fyrsta tækifæri, þá mun enn takast að tryggja, að Íslenzkt þjóðfélag haldi höfuðeinkennum sínum, sem við höfum verið stoltir af. Engin sterk og voldug auðfélög, sem setið geta yfir hlut manna, heldur margir, alveg óvenjulega margir sjálfstæðir einstaklingar og sjálfstæðir framleiðendur, og alveg óvenjumargir, sem eiga sín eigin heimili, öflug samvinnuhreyfing og öflug alþýðusamtök. Við viljum ekki skipta á þessu þjóðfélagi og þeim, sem við vitum að hafa verið byggð upp eftir þeim leiðum, sem íhaldið hér er nú að reyna að þvinga bjóðina inn á án þess að hafa fengið til þess nokkurt umboð.

Og að lokum þetta: Það minnkar ekki vandann, að fram undan er bað verkefni að móta stöðu Íslands í nýjum heimi, en nærri stappar, að svo megi til orða taka vegna þeirra stórfelldu breytinga, sem að virðist stefnt varðandi samskipti, samstarf og jafnvel sameiningu þjóða. Fyrir smáþjóð sem Íslendinga er þar vandasamt verk fram undan, og ríður mjög á því, að þar sé ekki rasað um ráð fram. Veltur á mestu í því, að þeir finni hver annan og standi saman, sem fast vilja standa á þeirri lausn, að Íslendingar tengist nágrannaþjóðum sínum nánar án þess að láta sjálfstæði sitt eða missa tök á auðlindum sínum og þjóðarbúskap yfirleitt. Verður þar að bægja frá öfgum og ógætni til beggja hliða og kappkosta að finna hinn gullna meðalveg, ganga þannig frá stöðu Íslands, að hér verði áfram sem hingað til íslenzkt mannlif, þrátt fyrir nánari tengsl og samskipti. Er hér að sjálfsögðu fyrst og fremst átt við afstöðuna til Efnahagsbandalags Evrópu, sem nú er að mótast. Hefur Framsfl. í því máli m.a. lagt mikla áherzlu á, að leitazt verði við að ná sem víðtækustu samkomulagi um það, sem aðhafzt verður af Íslands hálfu, og að beðið verði átekta, unz þau mál öll skýrast betur, en það álftum við höfuðnauðsyn. — Góða nótt.