12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. skýrði hér frá því, að eftir lausn verkfallanna í fyrravor hafi stjórnin gert út sendimenn til þess að spyrja iðnrekendur og fleiri atvinnurekendur, hvort þeir þyldu að greiða það kaup, sem þeir sjálfir höfðu samið um. Auðvitað sögðust þeir ekki geta það. Og þetta eru rök stjórnarinnar fyrir gengisfellingunni í fyrrasumar, skilst mér. Hins vegar mun stjórninni aldrei hafa dottið í hug að spyrja launþegana, spyrja alþýðuheimilin, hvort þau þyldu gengisfellinguna. Hún spurði bændurna ekki heldur. Það sannar suðvitað, hvers stjórn þetta er og hverja hún metur einskis, og er nokkurs virði að fá þessa yfirlýsingu fram frá forsrh. í byrjun eldhúsdagsumræðnanna.

Ríkisstj. Íslands hefur, svo sem kunnugt er, lagt sér til sérstakt efnahagskerfi. Þetta er ekki nýtt kerfi, heldur ný útfærsla á þeim gömlu aðferðum að ná vaxandi suði á vald hinna ríku á kostnað starfandi fólks og meiri gróða í hendur milliliða á kostnað framleiðenda. Þó felast í því nýir þættir. Það byggist á vantrú á það, að hinir fornu atvinnuvegir, landbúnaður og sjávarútvegur, geti lengur verið undirstöður í búskap þjóðarinnar. Þessu lýsa talsmenn stjórnarinnar yfir, þótt hitt vefjist nokkuð fyrir þeim, að tilgreina, hvað leyst geti þá af hólmi, en þar mun erlendum auðhringum ætlað stórt hlutverk. Kerfi ríkisstj. er jafnan nefnt viðreisn, ekki vegna eðlis þess eða ágætis, heldur hlaut það þetta nafn af sínu foreldri, áður en sýnt var, hvernig það reyndist, annars er hætt við, að það hefði hlotið eitthvert annað nafn.

Kerfi þetta og stjórn þess hefur að vonum oft borið í umræður að undanförnu. Hér er því hægt að sleppa því úr að ræða viðreisnina á hinum fyrstu stigum, og er fremur vert að skoða hana í ljósi þeirra atburða, sem skeð hafa frá síðasta eldhúsdegi, og leiða hugann þá einnig að því, hvernig stjórninni fara þær orður, sem hún telur sig helzt hafa af að státa á viðreisnarskrúðanum.

Það var í lok marzmánaðar í fyrra, sem síðast var hér farið í eldhús og störf ríkisstj. vegin og metin í umr. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og margt borið til tíðinda á sviði þeirra mála, sem varða hag lands og þjóðar. Ef fáein þeirra eru rifjuð upp til glöggvunar á því, hvað gerzt hefur, verða þessi fyrst fyrir:

Flest verkalýðsfélög landsins, sem höfðu ekki skömmu áður endurnýjað samninga sína við atvinnurekendur og samið um kauphækkun til að mæta að nokkru þeim ofsalega dýrtíðarvexti, sem stjórnarstefnan hefur valdið, lögðu til kjarabaráttu. Og þótt enginn treystist til að mæla gegn sanngirninni í kröfugerð þeirra, þá studdi ríkisstj. þó að því, að engir vinnusamningar yrðu gerðir. Þetta mistókst henni að vísu, en af stirfni hennar hlutust alvarlegar framleiðslutruflanir, verkföllin í fyrravor. Þegar komið var fram á sumar, varð ljóst, að atvinnuvegur, sem ríkisstj. og talsmenn hennar höfðu lýst vantrú sinni á, sjávarútvegurinn, færði þjóðarbúinu þrátt fyrir allt meiri og verðmætari afla á land en dæmi voru til um síðustu áratugina, síldarafla, sem þrátt fyrir margs konar vanrækslu hins opinbera til að sjá um hagkvæmustu nýtingu Þess afla hleypti verðmætaöflun þjóðarinnar langt upp fyrir það, sem dæmi voru um nokkru sinni áður. Landbúnaðurinn skilaði einnig metframleiðslu á s.l. ári. Þessu til viðbótar varð það svo ljóst upp úr miðju ári, að erlent markaðsverð á helztu útflutningsvörum okkar, svo sem freðfiski og saltfiski, hækkaði mjög frá fyrra ári, eða um 12–15%, að því er ætla verður, skreið hækkaði lítið eitt minna, en ísvarinn fiskur steig mest í verði. En einmitt þegar þessar staðreyndir urðu kunnar, framkvæmdi ríkisstj. þann eindæma verknað gegn fólkinu, sem var að skapa hin miklu verðmæti, og um leið öllu því fólki, sem lifir af atvinnutekjum sínum, að skrá enn á ný niður gengi íslenzku krónunnar. Sú ráðstöfun var gerð með alveg sérstökum hætti, hætti, sem ég fæ ekki annað séð en sé brot á stjórnarskrá Íslands, þeim bálki laga, sem mest er talið um vert að menn hafi í heiðri. T.d. fær enginn að hefja störf hér á Alþingi, þótt rétt kjörinn sé, fyrr en hann hefur skrifað undir sérstaka yfirlýsingu um, að þau lög muni hann virða og halda. í stjórnarskránni er svo fyrir mælt í 28. gr., að ríkisstj. megi gefa út brbl. milli þinga, þegar brýna nauðsyn ber til. Þetta gerði ríkisstj. á s.l. sumri til þess að fella gengið. Nú er það auðvitað matsatriði hverju sinni, hvort brýna nauðsyn ber til, að með lagasetningu sé gengi breytt. Ríkisstj. getur haft þá skoðun, að til þessa hafi borið brýna nauðsyn, þótt flestum öðrum hafi ekki sýnzt svo. Við Alþýðubandalagsmenn teljum, að í þessu atriði hafi mat stjórnarinnar verið alveg rangt.

Þó er ásökun mín um stjórnarskrárbrot hennar ekki fólgin í því, að hún tók ákvörðun um gengisbreytinguna, heldur hinu, að hún afhenti Seðlabankanum í leiðinni gengisskráningarvaldið, sem Alþingi hafði áður haft. Til þess gat enga nauðsyn borið, genginu var hægt að breyta án þess. Þegar þau brbl., sem hér hefur verið rætt um, voru til afgreiðslu hér í þinginu, var þess krafizt af hálfu stjórnarandstöðunnar, að leitað væri álits lagadeildar háskólans um það, hvort ríkisstj. hefði í þessu efni haldið fyrirmæli stjórnarskrárinnar eða ekki. Þótt það sé stundum háttur stjórnarinnar, þegar um hæpnar skýringar af hennar hálfu er að ræða á lögum eða milliríkjasamningum, að verða sér úti um álit þeirrar háskóladeildar, — og þess er raunar skemmst að minnast, að í fyrravetur dró dómsmrh. álitsgerð lagadeildarinnar upp úr vasanum í umr. hér á þingi og sannaði með þeim hætti, hvernig Bretum bæri að skilja landhelgissamninginn, — þá reyndust liðsmenn stjórnarinnar með öllu ófáanlegir til þess að leita álits um það, hvort stjórnarskráin hefði verið haldin eða brotin með útgáfu nefndra brbl. En hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá reynist stjórnarskráin þess ómegnug að halda gerðum núv. ríkisstj. innan þeirra takmarka, sem flestum venjulegum mönnum sýnist, að allar sæmilegar ríkisstj. hlytu að virða. Og víst er um það, að gengisfellinguna fengum við og valdið yfir skráningunni flutt til Vilhjálms Þórs og þeirra í Seðlabankanum. Og nú hefur einn ráðherrann lýst því yfir í viðtali við erlent blað, að tilgangurinn með þessari ráðstöfun hafi verið sá að afmá aliar þær kjarabætur, sem verkalýðshreyfingin hafði samið um á öndverðu árinu 1961, og mun stjórninni hafa fundizt það svo göfugt markmið að brjóta frjálsa samninga á verkafólki og raunar öllum launþegum landsins, sem yfirleitt fá breytingar í kaupi sínu í samræmi við kjör þau, sem verkalýðshreyfingin semur um, að tilgangurinn helgaði þar öll meðul.

Það skal ekki dregið í efa, að tilgangur hinnar síðustu gengisfellingar hafi öðrum þræði verið sá að brjóta samninga á þeim aðilum, sem ríkisstj. hefur áráttu til að rækja fjandskap við. Þó mun það einnig hafa ráðið miklu um þessa stjórnarákvörðun, að sjálf viðreisnin var raunar komin alveg í strand legar á miðju s.l. ári. Þá var ríkissjóður orðinn skuldunum vafinn á reikningi sínum í Seðlabankanum og þær orðnar hærri en dæmi eru til um að þær hafi nokkru sinni áður verið. Gengisfellingin var ekki bara breyting á verðlagi erlendra peninga á móti íslenzkri krónu. Samhliða henni voru gerðar ráðstafanir til þess, að ríkið fengi allan umráðarétt yfir þeim svonefnda gengishagnaði, sem við þessa breytingu myndaðist, en það er verðlagsbreytingin, sem varð á allri þeirri útflutningsvöru, sem í landinu lá, þegar genginu var breytt, framleidd meðan eldri gengisskráningin gilti og borguð framleiðendum samkv. því, en seld út úr landinu á nýja genginu, sem auðvitað gaf fleiri íslenzkar krónur. Þannig nældi ríkið sér í um það bil 150 millj. kr. til þess að rétta sig af í sinni eigin viðreisn. En með þessum hæpna tekjustofni og því til viðbótar, að tolltekjur ríkissjóðs jukust auðvitað mjög við það, að öll erlend vara, sem til landsins kom, hafði nú hækkað í verði um 13.2%, sem gaf jafnmikla aukningu í tolltekjum og sölusköttum af innflutningi, var ríkissjóði borgið með skuldareikning sinn, og það hefur verið mikill fagnaðarhreimur í öllum skýrslum um fjárhag ríkissjóðs síðan, því að þarna slapp ríkisstj. undan kaupanaut sínum, Seðlabankanum, líkt og lata konan undan Gilitrutt forðum, hvorug þó fyrir eigin dyggðir.

Það, sem af er árinu 1962, bendir eindregið til, að ekki muni linna vinnudeilum og þeim truflunum, sem jafnan hljótast af því, þegar fólkinu í landinu er ætlað að vinna störf sin við óréttlát kjör. Á hinu fyrra ári stöðvaðist allur bátaflotinn í einn til tvo mánuði. Nú eru það togararnir, sem hafa stöðvazt, og sér ekkert fyrir endann á þeirri deilu. Það er að vísu háttur ríkisstj. að telja allar vinnudeilur vélráð vondra kommúnista, sem ekki kunni að meta góðar ráðstafanir. En í þetta skipti er sú skýring stjórninni illa tiltæk, þar sem framámenn úr röðum hennar eigin liðsmanna eru í sameiginlegu forsvari fyrir stærstu samtökunum, sem boðuðu togaraverkfallið. En svo sem alkunnugt er um Sjómannafélag Reykjavíkur, þá er Alþýðuflokksmaðurinn Jón Sigurðsson formaður þess, en Pétur Sigurðsson Alþm. Sjálfstfl. varaformaður. Að þessu sinni verður því ekki um það deilt, að hér eru ekki hafin átök til að þéna neinum þeim stjórnmálalegum tilgangi, sem óþægilegur væri ríkisstj., heldur er verkfallið eingöngu hafið af því, að kjör þessara sjómanna voru alveg óviðunandi. Hið sama er raunar að segja um allar kjaradeilur undanfarandi ára nema verkföll nokkurra hátekjustétta, sem Sjálfstfl. beitti sér fyrir á tímum vinstri stjórnarinnar.

Af því, sem þegar hefur verið rakið um rás atburða nú um eins árs tímabil, verður ljóst: Í fyrsta lagi, að vegna slæmrar stjórnarstefnu hefur þjóðinni ekki notazt af öllum sínum framleiðslumöguleikum. í öðru lagi, að þrátt fyrir það hefur fólkið við framleiðslustörfin fært þjóðarbúinu meiri verðmæti en nokkru sinni áður. Í þriðja lagi, að verðlagsþróunin á erlendum mörkuðum hefur verið íslenzkum útflutningi mjög hagstæð. Í fjórða lagi, að framleiðsluaukningunni og verðhækkuninni á útflutningsvörunum hafa stjórnarvöldin svarað með nýrri gengisfellingu, sem gerði að engu nýgerða, frjálsa vinnusamninga. Og í fimmta lagi, að enn er risin mikil vinnudeila og aðrar ekki minni fyrirsjáanlegar á næsta leiti. Hvernig samrýmist þessi veruleiki þeirri stefnu, sem stjórnin telur sig fylgja? Það er alkunna, að stjórnarflokkarnir hafa talið stefnu sína vera leið til bættra lífskjara. Forsrh. hæstv. lét reyndar að því liggja í ræðu sinni hér rétt áðan, að það mundi kannske þurfa að doka svo sem eins og 10 ár eftir þessum bættu lífskjörum, og er það meiri hreinskilni en komið hefur fram í umr. af stjórnarinnar hálfu til þessa. Engum, sem tillit tekur til staðreynda, dylst þó, að sú leið, sem stjórnin kallar að liggi til bættra lífskjara, hefur verið gengin aftur á bak. Lífskjörin hafa stórlega dregizt saman. Það finna allir þeir, sem framfæri sitt hafa af launatekjum. Þetta reyna menn að bæta sér upp með því að lengja vinnudag sinn, og er nú í þeim efnum komið út í algera hófleysu, sem hlýtur á ókomnum árum að hefna sin í lélegra heilsufari þjóðarinnar en verða mundi með skaplegri vinnudegi. Einnig hlýtur hóflaus vinnudagur að sljóvga andlegan þroska. Þegar atvinnurekandi þarf nú á verkafólki að halda, auglýsir hann gjarnan eftir því. Og helzta tálbeitan er að taka það fram, að unnið verði langan vinnudag. Þetta segir skýrar en allt annað, að stjórnin, sem boðaði leiðina til bættra lífskjara, hefur komið því til leiðar, að það, sem aðrar menningarþjóðir banna með lögum eða reisa á annan hátt skorður við, vinnuþrælkun, er hér eftirsóknarvert sem tiltækasta leiðin til að ná viðhlítandi tekjum til fjölskylduframfæris.

Um skeið bjuggu vinnandi stéttir þessa lands við kauplag, sem var sambærilegt því, sem tíðkaðist hjá öðrum menningarþjóðum. Þá gátu íslenzkir atvinnuvegir gripið til erlends vinnuafls, þegar skörð voru í, að innlenda vinnuaflið hrykki á vissum árstíðum. Nú eru íslenzku vinnulaunin komin svo langt niður fyrir allt, sem sambærilegt er í okkar grannlöndum, að engir útlendingar líta við þeim kjörum, sem hér eru í boði. Færeyjar lögðu um skeið fram vinnuafl á íslenzka vinnumarkaðinn, og töldu Færeyingar þá, að hér yrði þeim betra til tekna en í heimalandi sínu. Nú hefur stjórnarvöldunum tekizt að brjóta svo niður verkalaun, að íbúar hinnar dönsku hálfnýlendu líta ekki við því, sem hér er í boði, og vita þó allir, að kjör Færeyinga heima fyrir eru ekki mörkuð neinni ofrausn, og sú staðreynd, að okkar kjör standast ekki samanburðinn við þau, það segir sina sögu. Á s.l. ári heyrðum við oft hrakfallasögu viðreisnarinnar réttlætta með því, að hið gífurlega verðfall á lýsi og mjöli, eins og það var orðað, hefði orðið þess valdandi, að allt var eins og það var og ekki langtum betra. Nú er verðlagsþróunin ytra okkur í stórhag, ekki einasta á huðarframleiðslu okkar, heldur á aðalframleiðslunni, fiskinum, svo að verðbreytingin upp á við nú er margföld á við verðlækkunina í fyrra, og hefði því átt að skapa grundvöll að stórbættum lífskjörum. En þessa staðreynd þrjózkast ríkisstj. við að viðurkenna. A.m.k. hefur hún allt þar til nú í gær eða fyrradag raunverulega engan kost gert verkalýðshreyfingunni á því að ljá máls á neinum kaupbreytingum, en í bréfi stjórnarinnar til Alþýðusambandsins sjást þess nokkur merki, að stjórnin treystist ekki til að halda kaupkúgunarstefnu sinni til streitu, þegar kosningabarátta er hafin. Í samskiptum sínum við samtök opinberra starfsmanna hefur stjórnin svo lengi þráazt við að líta með réttsýni á launamál, að í ýmsum greinum hafa þegar hlotizt af stórvandræði. Þannig starfa nú ýmsir skólar með ófullnægjandi starfsliði, og börn fá ekki kennslu svo sem lög standa til. Svo er líka komið, að um 90% kennaranna við Reykjavíkurskólana hefðu hætt störfum, ef ekki yrði bót ráðin á þeirra kjörum. Einnig í þessu efni sjást þess nú merki, að ríkisstj. opnist nokkur skilningur á því, að kaupkúgunarstefnan leiðir til ófarnaðar. En í öllum slíkum efnum er stjórnin ósköp seinþroska, og raunar er langlíklegast, að stirfni hennar eigi enn eftir að kosta stórverkföll, árekstra og þjóðfélagsleg töp.

Ég tel, að stjórnin hafi unnið sér og kerfi sinu til óhelgi með því að koma í veg fyrir, að þjóðinni notist af sinum framleiðslumöguleikum, með því að halda ekki stjórnarskrá Íslands í heiðri, með því að fella gengi íslenzkrar krónu atvinnuvegunum að þarflausu og með fjölmörgu öðru, sem ég get ekki hér gert að sérstöku umræðuefni tímans vegna, svo sem ranglátri skattalöggjöf hinum ríku til hagræðis, frekari tilslökunum en orðnar voru í landhelgismálum okkar, rýmkun erlendra ómenningarafla til áhrifa á uppeldi og menningu í okkar landi. En hér verður að nema staðar um ávirðingarnar, og er skylt að líta einnig á hitt, sem stjórnin hefur sjáif fram að telja um ágæti sitt.

Er þar þá fyrst til að taka, að stjórnin ber sig ærið mannalega, þegar hún greinir frá hag ríkissjóðs. Ég hef áður vikið að því, hvað liggur því til grundvallar, að ríkissjóður safnaði ekki stórskuldum á liðnu ári. Gengisfellingin kom þar til. Það, sem stjórnin hefur sannað um ágæti sitt í þessu efni, er því það — og það eitt, að með svo sem 13.2% árlegri gengislækkun auk annarra ríkistekna, þar sem ríkið slær eign sinni á alla verðbreytingu útflutningsvörubirgðanna, mundi eyðsluhít stjórnarinnar máske verða séð fyrir nauðþurftum. Hitt er svo annað mál, hvert traust er í okkar gjaldmiðli með þessum aðförum, enda er nú svo komið, að stjórnin sjálf lætur samþykkja hér lög um það, að viss lán frá væntanlegri stofnlánadeild landbúnaðarins megi ekki lúta lögmálum íslenzkrar krónu, heldur miðast við erlenda mynt. Sú stjórn, sem þarf að verðfella krónuna á hverju ári til þess að halda skuldareikningi sinum skaplegum, getur að vísu gumað af því að hafa ekki farið á hausinn með fjárhag ríkisins, en hve göfugt afrek hefur þar verið unnið, það getur svo hver metið eftir sinum smekk.

Næsta skrautfjöðrin í hatti stjórnarinnar mundi líklega af henni sjálfri verða talin bætt gjaldeyrisstaða við útiönd, og er það líka stásslegur gripur. En ef nánar er athugað, hvernig hann er fenginn, þá verður stjórnin raunar ekki sérlega öfundsverð af honum. Í ársskýrslu Seðlabankans fyrir síðasta ár er talið, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað á árinu um nálægt 400 millj. kr., þar af sé helmingurinn eða því sem næst greiðslujöfnuður á vörum og þjónustu og hinn hlutinn af ýmsum öðrum ástæðum. Fyrst og fremst er þar um að ræða óafturkræft framlag frá Bandaríkjunum, en svo sem muna má, lögðu Bandaríkin fram 250 millj. kr. sem fæðingarstyrk með viðreisninni, og verður að telja, að þar hafi þau betur gert til þessa afkvæmis síns hér á landi en flestra annarra, enda er viðreisnin þeirra óskabarn.

Um einn þátt hinnar breyttu og bættu gjaldeyrisstöðu segir orðrétt í skýrslu Seðlabankans, með leyfi hæstv. forseta:

„Mismunurinn stafar í fyrsta lagi af óafturkræfu framlagi frá Bandaríkjunum, en af því voru 85 millj. kr. notaðar á árinu, og í öðru lagi af ýmsum fjármagnshreyfingum, en þar var aukning stuttra vörukaupalána innflytjenda 52 millj.“

Það var nú líka dálitið til að guma af sem gæfusamlegri fjármálastjórn, að Bandaríkin höfðu slett í stjórnina sína 85 millj. og að bókhald gjaldeyrisviðskiptanna við útlönd var í upphafi viðreisnarinnar gert svo hugvitsamlegt, að aukning stuttra vörukaupalána erlendis kemur inn í bókhaldið sem bætt gjaldeyrisstaða og er ekki talin með í almennri skráningu á skuldum við útlönd. En eftir stendur þó hitt, að hagstæður gjaldeyrisjöfnuður fyrir vörur og þjónustu er um 200 millj. kr., og um hann væri allt gott að segja, ef hann ætti sér eðlilegar orsakir. Hitt vita svo allir, að þessi hagstæði jöfnuður er fenginn með þeirri almennu kaupgeturýrnun landsmanna, sem orðið hefur með aðgerðum stjórnarinnar í efnahagsmálum og dregið hefur úr almennri neyzlu. Hann er einnig fenginn með því að hætta að mestu eðlilegu viðhaldi skipastólsins og sleppa með öllu aukningu hans, með því að draga svo úr íbúðarhúsabyggingum, að þær svara nú vart til meira en þriðjungs af eðlilegum þörfum vegna fjölgunar þjóðarinnar, og með þeim alhliða samdrætti í hinum nauðsynlegustu framkvæmdum framleiðsluatvinnuveganna, sem orðinn er staðreynd. Þegar hætt er að mestu byggingu íbúðarhúsa og þegar frestað er skipakaupum og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum, þegar ekki er lagt í smíði neinna nýrra orkuvera og ekki neinna meiri háttar verksmiðja, er auðvitað hægt að spara gjaldeyri í bili. En hér er um óbeina skuldasöfnun að ræða, og þessar skuldir verður fyrr eða síðar að greiða, ef þjóðin ætlar ekki að missa af sínum þróunarmöguleikum og dragast aftur úr og niður á stig vanþróaðra ríkja. Það er því harla nýstárlegur skartgripur, sem þjóðin eignast við það, að einhverjar erlendar smáfjárhæðir hreiðra um sig í okkar bankareikningum, þegar þær kosta á sama tíma stórskuldasöfnun við framtíð þjóðarinnar, — skuldasöfnun, sem á eftir að verða æsku þessa lands fjötur um fót.

Og enn er raunar eftir að drepa á eitt atriði, sem stjórnin telur sér ekki hvað sízt til mikils ágætis. Það kallar hún viðskiptafrelsi. Þetta aukna viðskiptafrelsi birtist í því, að kaupmannastéttin getur fengið að vera einráð um það, hvenær og hvaðan hún vill fá vörur sínar, og rétt er það, að um þetta hefur hún nú frjálsari hendur en hún áður hafði, þegar hún var meira bundin af því, hvar hægt væri að selja íslenzkar afurðir til greiðslu á því, sem keypt var. Það ber að viðurkenna, að heildsalastéttinni hefur opnazt aukið frelsi. En því miður er ekki þessa frelsissögu að segja úr viðskiptaheimi annarra stétta. Það er ekki víst, að heildsölunum þætti það sérlega burðugt frelsi, ef þeir hefðu að gerðum viðskiptasamningum við einhvern sinn viðsemjanda fengið á sig lagasendingu um, að allur hinn áformaði ávinningur, allur gróðinn af þeim viðskiptum, sem samningurinn fjallaði um, skyldi upptækur ger. En þetta er það viðskiptafrelsi, sem launþegar landsins og bændur búa við undir viðreisnarstjórninni. Gengisfellingarlögin frá því í fyrrasumar eru nákvæmlega þess konar viðskiptafrelsi og raunar ekki hin fyrsta frelsissending, sem úr þeirri áttinni kemur.

Þessa dagana heyrum við margar fréttir sunnan úr Alsír um starfsemi félagsskapar, sem auðkennir sig með skammstöfuninni OAS. Okkur finnst að vísu tiltæki þessa félagsskapar ekki sérlega göfug. Þó er engan veginn víst nema í augum þeirra, sem þar eru félagar, geti viðskipti þeirra, t.d. við bankana þar í landi, talizt viðskiptafrelsi. Það er sem sagt háttur OAS-hreyfingarinnar að fara í krafti síns valds inn í bankastofnanirnar, láta þar greipar sópa um tiltæka fjármuni og hafa á brott með sér og hirða hvergi um neinar bókanir í þessu sambandi. Í fréttum af því viðskiptafrelsi, sem OAS-menn í Alsír hafa tekið sér í samskiptum sínum við bankana, eru þessar aðfarir kallaðar rán, og ég held, að nýlega hafi verið talið í fréttum, að á þessu ári nemi bankarán þeirra sem svarar 400 millj. ísl. kr. Mér er ekki grunlaust um, að þessar aðfarir þarna suður frá séu af mörgum taldar til eindæma og slæmur verknaður í meira lagi, og víst er um það, að góður er hann ekki. En til eindæma verður hann varla talinn. Í þessu efni eigum við raunar hliðstæðu. Við eigum okkar OAS-hreyfingu hér heima. Hér gæti skammstöfunin staðið fyrir óstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. í ágústbyrjun í fyrrasumar gaf hún út lög til þess að jafna út nýumsamdar kjarabreytingar launafólks, sem hún sjálf telur að almennt hafi numið 13—19%. Nú er talið, að hvert prósent í almennum kaupbreytingum svari til svo sem 35–40 millj. kr. í kaupgreiðslum yfir árið. Með gengislækkunarráðstöfun sinni fór stjórnin raunar þessu samkvæmt á brott með, að Því er forsrh. taldi hér áðan, 550—600 millj. kr. af kaupi launþega landsins og færði þetta hvergi til skuldar. Það er því greinilegt, að þótt stjórnin okkar hafi að vísu eignazt harðan keppinaut í viðskiptafrelsi þarna suður í Blálandi, þá heldur hún á þessu sviði algerlega velli enn sem komið er, í samkeppni við OAS-hreyfinguna í Alsír. Þótt hið sérstæða viðskiptafrelsi, sem einkennir bæði OAS suður frá og óstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. hér, geti gefizt þeim vel um skeið og iðkendur svona frelsis ætli sér oft stóran hlut, þá mun það fárra manna skoðun, að þessi viðskiptaháttur gefist vel til langframa eða styrki lengi völd þeirra, hvorki suður í heimi né á norðlægum slóðum. Það kostar auðvitað átök að venja þá, sem komnir eru upp á lagið með svona vinnubrögð, af þeim aftur. En til þess má hvorki spara krafta né fyrirhöfn. Og Alþb. heitir því fyrir sitt leyti að vinna af alefli að því, að Ísland fái betri ríkisstj. en þá, sem nú situr. — Góða nótt.