12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

Almennar stjórnmálaumræður

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir kosningarnar haustið 1959 sögðu flestir frambjóðendur Sjálfstfl., að ef alþýða manna vildi fá bætt lífskjör sín, þá væri eina færa leiðin til þess sú að kjósa Sjálfstfl. Þegar kosningarnar voru svo afstaðnar og í ljós kom, að núv. stjórnarflokkar höfðu fengið út á kosningaloforðin meiri hl., og þegar þeir höfðu myndað stjórn, þá fóru þeir allt í einu að tala um, að allir yrðu að færa fórnir. Næst kom svo boðskapurinn um nýtt efnahagskerfi. Þetta nýja efnahagskerfi var hugsað og byggt upp með það fyrir augum fyrst og fremst að draga sem mest úr almennum framkvæmdum í landinu. Hins vegar skyldi stefnt að því að rýmka athafnasvið þeirra, sem réðu yfir miklu fjármagni eða hefðu möguleika til að útvega sér það vegna stuðnings og velvildar við valdhafana.

Gengisfellingin var fyrsta sporið og það stærsta til að ná þessu marki. Næsta sporið var binding sparifjár og hækkun vaxta. sem var svo gífurleg, að afnema varð ákvæði laga um refsingu fyrir að taka okurvexti af lánsfé. Eru líklega ekki dæmi til þess, að nokkur önnur þjóð hafi gripið til slíkra ráðstafana, sem vaxtahækkunin var og afnám okurlaganna. Skattalögum var og er enn verið að breyta, þar sem það var unnið til að fella niður smávægilegan skatt af tekjum daglaunamanna til þess að geta látið líta svo út, að verið væri að ívilna þeim fátæku, þegar aðaltilgangurinn var sá að lækka opinber gjöld hinna auðugu. Síðan var settur söluskattur á næstum allar lífsnauðsynjar almennings, og kemur sá skattur auðvitað langþyngst niður á þá, sem flesta hafa til að fæða og klæða. Til þess að milda þetta ofur lítið voru fjölskyldubætur hækkaðar nokkuð, og hefur sú skrautfjöður verið látin blakta á áberandi hátt í hatti ríkisstj. Allt eru þetta kunnar staðreyndir, en það er þó aldrei of oft minnt á þær.

Ég get ekki stillt mig um, af því að stjórnin hrósar sér oft af því, að hún hafi lækkað skatta, að tilfæra hér glöggt dæmi um, hversu einkennileg aðferð hennar í því efni er og öfugmæli henni töm.

Á fjárlógum fyrir árið 1962 eru þrír helztu skattgjaldsliðir á almennar neyzlu- og fjárfestingarvörur þessir: vörumagnstollur 33 millj., verðtollur 438 millj. og söluskattur, að frádregnum þeim hluta hans, þeim 83 millj., sem sveitarfélögin fá, 510 millj. Þetta eru 981 millj. kr. samanlagt. Á fjárlögum fyrir árið 1958 voru þessir sömu skattgjaldstekjuliðir 325 millj. Þessir skattar hafa því þrefaldazt síðan 1958.

Dæmin um það, hvernig viðreisnarstefna hæstv. ríkisstj. hefur leikið bændastéttina, eru mörg. Þar tala þó tölur skýrustu máli. Ég ætla að bregða hér upp nokkrum dæmum um verðlag nokkurra rekstrarvara landbúnaðarins fyrir viðreisn og aftur nú. Á sama hátt mun ég einnig taka dæmi um verðlag nokkurra framleiðsluvara bændanna. Ég tek aðeins þrjár helztu rekstrarvörutegundirnar: fóðurbæti, áburð og rekstur véla. Ég tek einnig til samanburðar þrjár helztu tegundir framleiðsluvara: mjólk, dilkakjöt og kartöflur. Þetta er allt samkv. því verði, sem reiknað var með í verðlagsgrundvelli árið 1958 og aftur nú á s.l. haust, og er miðað við meðalverð og meðalbú.

1958, hinn 1. sept., var meðalverð fóðurbætis kr. 3.61 pr. kg. 1961 er meðatverð fóðurbætis kr. 4.58 pr. kg.. hefur hækkað um 27%. 1958 er meðalverð áburðar kr. 5.17 pr. kg, miðað við hrein áburðarefni, 1961 er það kr. 7.04 pr. kg, hefur hækkað um 36%. Árið 1958 var kostnaður véla á meðalbúinu 4527 kr., árið 1961 er þessi sami kostnaðarliður á meðalbúinu, sem þá hefur að vísu stækkað um hálfa kú og 17 kindur, orðinn 8923 kg., hefur hækkað um 97%.

Þá skal ég nefna þrjár helztu framleiðsluvörurnar. Þar er fyrst mjólkin. 1958 er litri mjólkur reiknaður á kr. 3.92, en 1961 kr. 4.71, hefur hækkað um aðeins 20%. Arið 1958 er fyrsti verðflokkur dilkakjöts reiknaður á kr. 22.20 pr. kg, en 1961 á kr. 23.05 pr. kg, hefur hækkað um 4%. Kartöflurnar voru 1958 reiknaðar á kr. 3.10 pr. kg, en 1961 á kr. 3.62 pr. kg, höfðu hækkað um 17%.

Þessi dæmi sýna, að síðan núv. stjórnarflokkar tóku við stjórn landsins, hefur hagur bænda sífellt þrengzt. Þegar aðalrekstrarvörur bænda hækka frá 27—97%, þá hækka aðalframleiðsluvörurnar ekki nema frá 4-20%. Þegar svo einnig er höfð í huga sú gífurlega hækkun, sem orðið hefur á öllum flárfestingarvörum, svo sem vélum og byggingarefni, þá sést bezt, við hvaða erfiðleika bændastéttin á að búa nú. Til dæmis um hækkunina á vélaverðinu frá því á árinu 1958 er það. að dráttarvél, sem þá kostaði rúmar 50 þús. kr., kostar nú yfir 100 þús. kr. Samsvarandi hækkanir hafa orðið á öllum öðrum vélum. Það eru hinar gífurlegu gengislækkanir, sem þessu valda. Bændur hafa gripið til þess ráðs í þessum vandræðum að kaupa frá Bretlandi notaðar dráttarvélar fremur en að hafa enga. Á s.l. ári munu hafa verið fluttar til landsins milli 300 og 400 dráttarvélar, flestar notaðar, og er slíkt vitanlega hreint neyðarúrræði.

Á sama tíma og þetta hefur skeð. hefur lánstími í stofnlánasjóðum landbúnaðarins verið styttur um 1/4 og vextir hækkaðir um 1/3. Bóndinn, sem eftir viðreisn hefur tekið 200 þús. kr. lán í ræktunarsjóði og 100 þús. kr. í byggingarsjóði, hann borgar 44% hærra árgjald en sá, sem fyrir viðreisnina tók jafnhá lán í sömu stofnunum. Til viðbótar þessum ráðstöfunum má segja, að gengisfellingarnar hafi eyðilagt lánasjóði landbúnaðarins, þar sem þeir höfðu erlent lánsfé til þess að geta fullnægt eftirspurn bænda eftir lánum. Ríkisstj. hefur brugðizt skyldu sinni að bæta þessum stofnunum tap þeirra. Hrein eign þessara sjóða var í árslok 7958 105 millj. kr. Nú, 4 árum síðar. er hagur sjóðanna þannig, að eignirnar eru 34 millj. kr. minni en ekki neitt.

Þannig hefur viðreisnin leikið þá. Nú hefur hæstv. ríkisstj. með hæstv. landbrh. í fararbroddi tekið sér fyrir hendur að rétta hag þessara lánastofnana bændanna. En í stað þess að bæta sjóðunum tapið af sameiginlegu fé þjóðarinnar, eru þeir, sem enga sök eiga á tapi sjóðanna, bændurnir sjálfir, látnir gera það á þann hátt, að þeir eru skattlagðir með gjaldi á búvörur, og nemur sá skattur um 1700 kr. á meðalbónda árlega. Með þessari aðferð er gert ráð fyrir, að það taki 14 ár að byggja hina nýju stofnlánadeild upp. Skatturinn á bændur er áætlaður 133 millj. á þessu tímabili og gjaldið á útsöluverð landbúnaðarvara 86 millj. Gert er ráð fyrir, að stofnlánadeildin fái á þessum tíma vexti af lánum til bænda alls 485 millj. Þar sem reiknað er með 6—61/2% vöxtum, er það þriðjungshækkun frá því, sem var fyrir viðreisn. Þessi hækkun vaxtanna gerir því ekki minna allt þetta tímabil en 160 millj. kr. Þarna koma því beint á bændur umfram það, sem áður var, nálægt 300 millj. kr., auk 86 millj. gjaldsins á útsöluverðið, sem einnig lendir á bændum að einhverju leyti. Þannig hafa loforðin um bætt lífskjör verið efnd hvað bændur snertir.

Ég ætla engu að spá um það, hversu lengi bændur standa undir oki viðreisnarinnar. En það verður varla um það deilt lengur, að það hefur orðið þeim alldýrt, að núv. stjórnarflokkum var falið vald yfir málefnum landsins.

Eitt undarlegasta fyrirbærið í ævintýraheimi viðreisnarinnar er flutningur sparifjár hvaðanæva að af landinu til Reykjavíkur og frysting — eða svokölluð binding þess í Seðlabankanum.

Í skýrslu Seðlabankans fyrir árið 1961 er frá því skýrt, að á því ári hafi innlánsstofnanir orðið að binda 253 millj. kr. í Seðlabankanum, og eru þessar innlánsstofnanir þá skv. efnahagsreikningi bankans búnar að binda þarna samtals 318 millj. Af þessu fé greiðir bankinn eigendunum 9% vexti, og er það upp undir 30 millj. kr. á ári. Hæstv. ríkisstj. tekur ekki nærri sér að láta Seðlabankann borga um 30 millj, kr. af þessu dauða fjármagni árlega, en þetta er þó hærri upphæð en þurft hefði á ári í nokkur ár til þess að bæta lánasjóðum landbúnaðarins gengistöp þeirra og efla þá á nýjan leik.

Ég hef nú sýnt með nokkrum dæmum, hvernig stjórnarstefnan hefur reynzt bændum. Afleiðingarnar láta ekki heldur á sér standa, þar sem jarðabótamönnum er nú tekið að fækka. Þeir voru 1959 3906, 1960 voru þeir 3520, en á s.l. ári litur út fyrir skv. bráðabirgðayfirliti, að þeir hafi ekki verið nema 3281. Hefur þeim þá á tveim s.l. árum fækkað um 625 eða um 16%. Af 16 tegundum framkvæmda jarðabótamanna á s.l. þrem árum hafa tólf þessara framkvæmda farið minnkandi. Þar er þó munurinn mestur á vélgröfnum skurðum. En landþurrkun má heita undirstaða ræktunarframkvæmda í landinu. Landþurrkunin var á s.l. ári 31% minni en hún var 1958.

Þegar litið er á allar þær staðreyndir, sem ég hef hér drepið á. verður ekki annað séð en stefna hæstv. ríkisstj. sé sú að fækka bændum mjög mikið á næstu árum. Vel getur verið, að það heppnist, en ekki hef ég trú á því, að það verði gæfuspor fyrir þjóðina. Hitt gæti orðið þjóðinni til meiri farsældar, að efla og stækka bændastéttina. Þess vildi ég mega vænta, að bændurnir megi standa af sér þá aðför, sem þeim hefur verið veitt. í þeirri baráttu eru þeirra öruggustu vígi samvinnuhreyfingin, stéttarsamtökin og Framsfl. — Góða nótt.