12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

Almennar stjórnmálaumræður

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég mun verja þessum mínútum til þess að drepa á örfá landbúnaðarmál, en áður en ég vík að þeim, mun ég fara fáeinum orðum um samgöngumál og þá einkum vegamálin.

Samgöngumálin eru ein af frummálum hverrar þjóðar. Eru þau það ekki siður hjá okkur Íslendingum, nema fremur sé, þar sem við búum í víðáttumiklu landi. Góðar samgöngur og öruggir vegir eru lífæðar þjóðarinnar. Þær eru undirstaða allrar framleiðslu til lands og sjávar, og nefni ég þar t.d. mjólkurframleiðslu og síldveiðar, og undirstaða félagslegra skipta meðal fólksins. Og svo vill þjóðin öll þekkja sitt land með því að geta notað bílinn til þess að ferðast um nes og dali, um byggðir og óbyggðir. Það er því ekki aðeins mál þeirra, er hvert hérað byggja, að fá góða vegi, það er mál þjóðarinnar allrar. Fjárveitingar til vegamála fara vaxandi ár frá ári, en verkefnin eru stórkostleg. Alþingi 1961 samþykkti þál. um skipun mþn. til að endurskoða vegalögin, gera till. um þjóð- og héraðavegi, hvort þeirri skipan skuli halda, og um leið til fjáröflunar til samgönguæða landsins, er leitt gæti af sér stórum auknar framkvæmdir. Þessi mþn. starfar nú af fullum krafti, og fyrirhugað er, að hún ljúki störfum fyrir næsta Alþingi. Slík endurskoðun er brýn nauðsyn. Það þarf að finna leið til að kerfisbinda vegaskipanina og vegaframkvæmdirnar, þannig að unnt sé að gera áætlanir nokkur ár fram í tímann. Brú og vegur er ein heild, jarðgöng enn fremur. Meginatriðið er þó, að vegalagningar njóti ákveðinna tekjustofna, sem gera mögulegar mjög auknar framkvæmdir í vegagerðum.

Lögin um lausaskuldir bænda hafa verið afgreidd á Alþingi. Er nú verið að leggja síðustu hönd á lánsskjöl margra umsækjenda í Búnaðarbankanum. Þessi löggjöf gerbreytir aðstöðu allmargra bænda, sem hafa verið ofhlaðnir lausaskuldum. Ég hef bent á í grein í Mbl. nýlega út af samanburði á vöxtum af stofnlánum til landbúnaðar og sjávarútvegs, að meðatvextir af stofnlánum landbúnaðarins, eins og þau voru um síðustu áramót og að viðbættum lausaskuldalánunum, miðað við áætlaða upphæð þeirra. 80 millj. kr., — að meðalvextir af stofnlánum landbúnaðarins séu tæplega 5%. Ég hef ekki haft aðstöðu til að afla mér hlíðstæðra upplýsinga fyrir stofnlán sjávarútvegsins, en tel þó líklegt, að meðalvextir séu þar frekar hærri. Er það og að minni hyggju eðlilegt, að frekar væri munur á þá hliðina.

Það er deilt á okkur sjálfstæðismenn fyrir aðgerðaleysi og tregðu um löggjöf til stuðnings kornyrkju í landinu. Reynsla síðustu ára hefur mjög aukið trú manna á, að kornyrkja eigi hér góða framtið. Hinar nýju uppskeruvélar hafa gerbreytt möguleikum kornyrkjunnar, og eins og framþróun er á öllum sviðum, má ætla, að nýjar byggtegundir komi smátt og smátt fram, sem geri ræktunina enn öruggari og árvissari. Kornræktaráhuginn er mjög lofsverður, og það er sjálfsagðara mál en ræða þurfi, að þessi ræktun njóti eðlilegra starfsskilyrða og þá fyrst og fremst um verð framleiðslunnar. Aðeins á þeim grundvelli er unnt að meta réttilega, hve arðvænleg byggræktin er. Jarðræktarframlagið er nú greitt í akurlendi eins og tún, en þó aðeins í eitt skipti. Í þessu felst að vísu lítill stuðningur, en er þó ekki einskis virði. En hitt verður meira virði, að væntanlega verður fljótt mögulegt samkvæmt lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins að veita lán til vélakaupa vegna kornyrkju. Ég held, að gott sé að fá meiri reynslu af hinum nýju viðhorfum í kornræktinni, áður en löggjöf er sett. Sjá þarf um, að kornræktin hafi eðlileg starfsskilyrði. En ég held, að hóflega eigi að fara í beinan fjárstuðning við þessa einu grein ræktunar umfram aðrar. Kornyrkja heyrir aðeins til hinum beztu sveitum um veðurfar og ræktunarskilyrði. Mikill stuðningur við hana umfram aðrar greinar gæti falið í sér að auka enn á innbyrðis aðstöðumun meðal bændanna í landinu.

Grasið er okkar gróður, grasræktin undirstaða búskapar okkar, og umfram allt megum við ekki láta okkur sjást yfir það, að enn er aukin grasrækt, stóraukin heyöflun mesta nauðsynjamál búskaparins í heild.

Stærsta mál landbúnaðarins, sem þetta Alþingi hefur fjallað um, er stofnlánadeild landbúnaðarins. Með því er til frambúðar leyst úr þeim vanda, sem lánamál landbúnaðarins hafa verið í raunar um langa hríð, en var orðin fullkomin sjálfhelda. Meginatriði þessa máls eru að verða nokkuð kunn, en þó er rétt að drepa á þau.

Stofnlánadeildin yfirtekur byggingar- og ræktunarsjóð, eignir þeirra, skuldir og skuldbindingar. Stofnfé er enn fremur 60.5 millj. kr., er ríkissjóður leggur fram. Auk þess fær svo deildin árlegar tekjur, sem eru þessar:

1. Úr ríkissjóði, fast framlag, 4 millj. kr.

2. 1% álag á söluvöru landbúnaðarins á sama grundvelli og búnaðarmálasjóðsgjald.

3. Jafnt framlag úr ríkissjóði á móti þessu 1% álagi.

4. 3/4% gjald af búvörum seldum innanlands, sem innheimt er ýmist af útsölu- eða heildsöluverði.

Þessar tekjur eiga að nema samkvæmt áætlun á árinu 1963 um 26 millj. kr. Þar af er 1% álagið frá bændum rétt um eða rúmar 8 millj. kr. Auk þess eru svo vaxtatekjur. Með þetta veganesti byggir stofnlánadeildin sig ört upp, byggir upp öflugan höfuðstól, sem skv. áætlun, sem birt var sem fskj. í með frv., getur eftir 14 ár numið um 500 millj. kr., og er þá auk þess að fullu greiddur gengishalli sá, er lagzt hefur á sjóðina vegna erlendra lána og mun nema alls um 160 millj. kr. Slík stofnun á að vera megnug þess að leysa aðkallandi lánsfjárþörf landbúnaðarins, ekki aðeins vegna bygginga og ræktunar, svo sem verið hefur að mestu hingað til, heldur einnig til vélakaupa og bústofns, en til þess hefur ávallt skort fé. Heimilt er að lána veðdeild 10 millj. kr. á ári, ef fé verður fyrir hendi. Segja má, að þetta sé veikasti þáttur þessarar löggjafar, þar sem þörf fyrir lán úr veðdeild til jarðakaupa er ákaflega brýn, ákaflega aðkallandi að greiða fyrir eignaskiptum á jörðum. Á hinn bóginn er ekki líklegt, að önnur leið yrði árangursríkari fyrir veðdeildina, þegar litið er á hina öflugu uppbyggingu stofnlánadeildarinnar, sem auðvitað gefur því betri aðstöðu til útvegunar lánsfjár að auki sem deildin er öflugri að eigin fé.

Ég vil fara nokkrum orðum um 1% búvörugjaldið. Því er haldið fram af framsóknarmönnum, að það sé ranglátur nýr skattur á kaup bænda, bændur hafi ekki skyldur umfram aðra í þjóðfélaginu að byggja slíka lánastofnun upp að nokkru leyti. Rétt er að virða málið ögn nánar fyrir sér. Stofnlánadeildin er meginaflgjafi við að rækta og byggja landið, en auk þess leggja bændur árlega fram mikið fjármagn í umbætur á jörðum sínum. Það fjármagn taka þeir m.a. af kaupi, sem þeir bera úr býtum við búskapinn. Reyndin er sú, að nokkuð af þessu fé leggja þeir þjóðfélaginu til, byggja með því upp þjóðfélagslegan höfuðstól. Flestum mun t.d. vera ljóst, að við sölu á jörðum fá bændur ekki endurgreitt að fullu það fé, sem þeir hafa lagt í umbætur á jörðum sínum, og vantar oftar mikið til. Þessar staðreyndir eru kunnar lengst af, frá því er tími umbótanna hófst í íslenzkum landbúnaði. Þetta hefur þjóðfélagið líka viðurkennt, þetta framlag bændanna til þjóðfélagsins, t.d. með stuðningi samkvæmt jarðræktarlögum. Þá vaknar sú spurning: Er það ranglæti og ný skattlagning að beina litlum hluta af því fé, sem bændur hafa sjálfir lagt í umbætur á jörðum sínum og lagt að einhverju leyti inn á reikning þjóðfélagsins, beina því eftir öðrum farvegi að sama marki, láta ofur lítinn hluta af því kaupi, sem bændur verja til umbóta á jörðum sínum, verka sem segul í stofnlánadeild landbúnaðarins og draga að henni fjármagn úr öðrum áttum. Sá munur er að vísu á þessu, að bændur ráða sjálfir því framkvæmdafé, er þeir leggja í umbætur á eigin jörð, en þeir, sem beita sér fyrir eflingu stofnlánadeildarinnar, telja hagfelldara að verja litlum hluta af þessu framkvæmdafé bændanna eftir þjóðfélagslegum leiðum að sama marki, því marki að rækta og byggja landið, afla véla, t.d. súgþurrkunartækja og dráttarvéla, til búrekstrarins og létta hlut frumbýlinganna, er þeir stíga fyrstu búskaparsporin, margfalda gildi þessa umbótafjár með því að draga að fé í stofnlánadeildina. Ég held, að hér sé farin skynsamleg leið, og raunverulega felst ekki í þessu ný skattlagning á bændastéttina sem heild. Með 1% búvörugjaldinu er einnig verið að jafna ofur lítið aðstöðuna meðal bænda innbyrðis. Þeir, sem mest hafa notið lánanna fram til þessa, hafa yfirleitt stærri bú og meiri framleiðslu en meðalbóndinn í landinu eða meðalbóndinn í héraðinu. Þeir leggja þá meira af mörkum í framtíðarstofninn í lánasjóðnum, sem þeir njóta fyrst og fremst, sem nú eiga starfið fram undan við umbætur á eigin jörð eða hefja búskap. Þetta er leið samstarfs og samhjálpar, leið félagshyggjunnar, sem reynzt hefur farsæl í umbótamálum landbúnaðarins og þjóðfélag vort grundvallast nú svo mjög á.

Um vaxtakjör þessarar stofnunar er það að segja, að auðvitað er æskilegt að bæta þau á lánunum frá því, sem nú er. En það liggur í augum uppi, að því öflugri sem lánastofnunin er, því meiri tekjur sem hún hefur á hverju ári, því betur stendur hún að vígi að lána með hagstæðum vaxtakjörum og einnig með lengri lánstíma.

Framsóknarmenn hafa undanfarin þing flutt frv. um, að ríkissjóður tæki að sér að greiða gengishalla sjóðanna. Með því var að vísu bráðasti vandinn leystur miðað við daginn í dag, en með því var lánamálið ekki leyst til frambúðar. Stofnlánadeildin fær stofnfé frá ríkissjóði, 60 millj. kr., auk árlegra tekna frá því opinbera, um 18 millj. kr., til að byrja með, en meira síðar, þar með talið neytendagjaldið. Með þessu er ekki einasta létt gengishallanum af sjóðunum, heldur einnig byggður upp stofn í lánadeildina, sem gerir hana öfluga og trygga um alla framtið. Þá segja framsóknarmenn: Þetta er ekki eins og það á að vera. — Og nú koma þeir með till. um, að gengishallann eigi að færa á reikning í Seðlabankanum. Þetta truflar að vísu ekkert þá markvísu stefnu ríkisstj. með landbrh. í fararbroddi að leysa lánamál landbúnaðarins til frambúðar. En begar fram eru komnar víðtækar og framsýnar till. ríkisstj. um framtíðaruppbyggingu lánasjóðanna, þá koma framsóknarmenn með till. um 25 millj. kr. árlegt framlag úr ríkissjóði til stofnlánadeildarinnar. Þeir og stjórnarandstaðan hafa gert fleiri till. um fé úr ríkissjóði. Þegar húsnæðismálin voru til umr., kom Lúðvík Jósefsson með till. um, að 1% af tekjum ríkissjóðs gengi árlega til húsnæðismála, og Framsókn var með. Og til verkamannabústaða skyldi samkvæmt þeirra till. framlag ríkissjóðs tvöfaldast. Og þegar aflatryggingamál útvegsins voru til meðferðar, mátti ekki hafa svonefnda jöfnunardeild, sem átti að létta vandræði af aflaleysi á þann hátt, að útgerðin sem heild stæði að baki, en aflaleysi togaranna á að bæta af almannafé, segja stjórnarandstæðingar, og þá væntanlega úr ríkissjóði. Ég bregð upp þessari mynd, af því að e.t.v. átta menn sig ekki að jafnaði á henni í slíku samhengi. Mér flýgur í hug auglýsingatæknin: Bara hringja, svo kemur það.

Við alla afstöðu framsóknarmanna til þessa stofnlánadeildarmáls minnist ég sögu af málarameistaranum, sem var að segja frá atvikum úr langri starfsævi. Skömmu eftir síðasta stríð var hann að mála íbúð. Er hann hafði lokið við að mála eldhúsið, er húsfreyjan ekki ánægð með litinn. Er það skemmst frá að segja, að 16 sinnum málaði hann eldhúsið, þar til hún var ánægð. En það sem sögulegast var, hann endaði einmitt á þeim litnum, sem hann málaði með í upphafi. Ég held, að ef framsóknarmenn hefðu í alvöru átt að leysa þetta mál, þá hefðu þeir fyrr en síðar komizt að þeirri niðurstöðu, að sú lausn, er í frv. felst, er hin farsælasta, og ekki hefði þurft að athuga 16 liti til að komast að þeirri niðurstöðu.

Þótt nú sé aðeins vika til sumars, er vetur um allt land, harður vetur, óvenjuharður norðan og austanlands. Oft hefur íslenzka þjóðin mátt þreyja þorrann og góuna og einmánuðinn í ofanálag. Það var vonin og trúin á sumarið fram undan, sem gaf þróttinn. Þótt nú sé hvítagaddur um stór landssvæði, vonum við og trúum, að sumarið sé í nánd. Ég býð ykkur öllum við strönd og í dal gleðilegt sumar.