13.04.1962
Sameinað þing: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Það er margt, sem miður hefur farið hjá stjórnarflokkunum á s.l. ári. Þar er gengislækkunin efst á blaði að mínum dómi. Fyrir þeirri ráðstöfun voru alls engin frambærileg rök, eins og á stóð. Ríkisstj. taldi gengislækkunina gerða vegna kjarabóta þeirra, sem um var samið á s.l. sumri, og hefur reynt að réttlæta hana með tveim ástæðum: í fyrsta lagi, að ekki væri fyrir hendi nein sú framleiðsluaukning, sem staðið gæti undir umsömdum kauphækkunum, og í öðru lagi, að hin aukna kaupgeta almennings mundi hafa í för með sér gjaldeyrisskort og greiðsluhalla gagnvart útiöndum. Dómur reynslunnar hefur sannað haldleysi þessara röksemda. Það má því kallast furðulegt, að hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. skyldu, eftir að þessar staðreyndir liggja fyrir, leyfa sér það enn í umr. hér í gær að bera þessar tylliástæður á borð. Ummæli þeirra gefa mér kærkomið tilefni til að hrekja enn þá einu sinni staðleysurnar um gengisfellingarástæðurnar.

Í grg. ríkisstj. fyrir gengislækkuninni, sem m.a. er birt í Morgunblaðinu 14, sept. s.1., er gerð allýtarleg grein fyrir forsendum þeim, er ríkisstj. byggði á ákvörðun sína um gengisfellingu. Þar segir svo m.a., með leyfi forseta: „Af því, sem hér hefur verið sagt, er ljóst, að áhrif aflabrests, verðfalls og aukins kostnaðar vegna stækkunar flotans til rýrnunar á afkomu sjávarútvegsins nema samtals um 320 millj. kr., sé árið 1961 borið saman við árið 1959. Er þetta um 13% af framleiðsluverðmæti sjávarafurða og 4–5% af þjóðarframleiðslunni.“ Þetta voru orð ríkisstj., og af þeim útreikningum grg. er augljóst, að gengislækkunin er byggð á þeirri forsendu, að aflamagn yrði miklu minna 1961 en 1959 og að framleiðsluverðmæti sjávarafurða árið 1961 yrði um 13% minna en árið 1959. Þetta töldu þeir vísu menn, ráðunautar ríkisstj., sig geta séð fyrir um mitt sumar 1961. Það fer því ekki milli mála, að gengisstýfingin var byggð á þessum hrakspám. Þessi bölsýni hefur orðið sér eftirminnilega til skammar, svo sem við mátti búast. Sannleikurinn er nefnilega sá, að um mitt s.l. sumar var full ástæða til bjartsýni í þessum efnum. Verðlag á flestum útflutningsafurðum var heldur hækkandi, og aflavonir voru í rauninni meiri en nokkru sinni fyrr, bæði vegna undangenginnar landhelgisútfærslu og aukinnar veiðitækni.

Í skýrslu Seðlabankans fyrir árið 1961, sem birt var 15. marz s.l., eru tekin af öll tvímæli um, hver útkoman hefur orðið varðandi þessar forsendur ríkisstj. fyrir gengislækkunarákvörðun sinni. Þar segir um þetta, með leyfi forseta: „Heildaraflinn á árinu 1961 var skv. bráðabirgðatölum 634 þús. tonn á móti 514 þús. tonnum 1960. og er þetta mesti ársafli, sem orðið hefur. Verðmæti aflans jókst hins vegar svo að segja eingöngu af auknum síldarafla. Áætlað er, að heildarverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 hafi numið nærri 3000 millj. kr. á móti 2628 millj. kr. árið 1960 og 2838 millj. kr. 1959. Eru þá allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi.“ Þessi er þá dómur reynslunnar. Það liggur m.ö.o. ljóst fyrir nú og verður ekki um deilt. að aflinn á s.l. ári varð metafli. Hann var rúml. 23% meiri en árið áður, og framleiðsluverðmæti sjávarafurða hefur aukizt á árinu 1961 frá því árið áður um rúml. 14%. Ljóst er það einnig af þessum tölum, að framleiðsluverðmæti sjávaraflans 1961 var ekki 13% minna en 1959, svo sem ríkisstj. fullyrti í ágústbyrjun s.l. sumar, heldur nærri 6% meira, og skilst mér þá, að skakki 19% frá því, sem ráð var fyrir gert, er gengið var fellt. Sé hins vegar miðað við rétt verð á aflanum hvert ár og það umreiknað til núv. gengis, er verðmæti sjávarafurða 1961 um 11% meira en 1959 og 18% meira en 1960. Ég endurtek: 18% meira en 1960. Sjávaraflinn er að vísu ekki nema einn þáttur þjóðarframleiðslunnar, en í þessu sambandi er hann óneitanlega þýðingarmestur. Sjávarafurðir eru, eins og kunnugt er, um eða yfir 90% allrar útflutningsframleiðslunnar, en vegna hennar var gengislækkunin fyrst og fremst talin gerð. Engum dettur í hug að halda því fram, að gengislækkunin sé gerð vegna landbúnaðarframleiðslunnar, sem óefað hefur af henni tjón, þegar á heildina er lítið.

Í umr. um þessi mál, bæði utan þings og innan, hefur margoft verið sýnt fram á, að gengislækkunar þurfti ekki við vegna iðnaðarins, enda hafa iðnaðarfyrirtæki undantekningarlitið orðið að taka á sig kaupgjaldshækkanirnar án þess að hafa fengið þeirra vegna hækkað verð framleiðsluvara sinna. Það er því alrangt, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta í umr. hér í gær. Og til að afsanna staðhæfingar hans þar um ætla ég að leiða aðalmálgagn stjórnarinnar, Morgunblaðið, sem vitni. í Morgunblaðinu 13. sept. s.l. er grg. undir fyrirsögninni: „Iðnfyrirtæki hafa sjálf orðið að bera kauphækkanir.“ Þar segir m.a. orðrétt: „Leyfi til verðhækkana vegna kauphækkana hafa aðeins verið gefin í tveim tilfellum.“ Og siðan segir orðrétt, feitletrað: „Kauphækkanir hafa fyrirtækin orðið að taka á sig sjálf.“ Ummæli forsrh. um, að Samband ísl. samvinnufélaga hefði farið fram á verðhækkun á iðnaðarvörum vegna kauphækkana, eru hreinn uppspuni. Skv. upplýsingum fyrirsvarsmanna SIS hefur það eða iðnfyrirtæki þess ekki farið fram á neinar verðhækkanir vegna kauphækkana. Undirmenn forsrh. hafa því sagt honum ósatt um þessi atriði, og honum hefur þá ekki heldur unnizt tími til að lesa Morgunblaðið nægilega vel.

Í áðurnefndri grg. sinni áætiar ríkisstj. heildartekjuaukningu vegna kaupgjaldshækkana 500–600 millj., við skulum segja 550 millj., sem þó auðvitað er allt of hátt. Ríkisstj. taldi atvinnuvegina að óbreyttum aðstæðum og með hinar slæmu afkomuhorfur, sem hún gekk út frá, geta borið 3% kauphækkun nú þegar, en það jafngildir skv. grg. rúml. 100 millj. kr. Eftir eru þá um 450 millj. kr. Nú liggur það ljóst fyrir, að mismunurinn á raunverulegu verðmæti sjávaraflans og því verðmæti hans, sem ríkisstj. gekk skv. grg. út frá, er hún ákvað gengisfellinguna, nemur um 6–7% af þjóðarframleiðslunni. En það jafngildir, að mér virðist, skv. útreikningum ríkisstj. sjálfrar a.m.k. 500 millj. kr. eða m.ö.o. gerir nokkru betur en vega upp á móti þeirri kaupgjaldstekjuaukningu, sem ríkisstj. taldi atvinnuvegunum ofviða, vegna þess að framleiðslu vantaði til að mæta henni.

Þannig lítur þá dæmið út, þó að tölur ríkisstj. sjálfrar séu lagðar til grundvallar, sem sé, að sjávaraflinn einn nægir til að taka af þann áhalla, sem ríkisstj. taldi að verða mundi að óbreyttu gengi. Þess er enn fremur að gæta, að tilboð sáttasemjara fól í sér 6% hækkun þá þegar, og hvatti aðalmálgagn stjórnarinnar, Morgunblaðið, verkamenn til að samþ. hana. Sú röksemd, að gengislækkunin hafi verið óhjákvæmileg vegna atvinnuveganna, er því gersamlega haldlaus, enda er sannleikurinn sá, að gengishagnaður útflutningsatvinnuveganna étur sjálfan sig upp að nokkru, vegna þess að ýmis tilkostnaður þeirra hækkar verulega við gengislækkunina. Enn fremur er þess að gæta, að með gengisráðstöfunum þeim, sem fylgdu í kjölfar gengislækkunarinnar, var útflutningsgjald á sjávarafurðum hækkað mjög mikið, og er talið, að sú hækkun nemi rúml. 100 millj. kr. á ári. Hitt er svo annað mál, að vegna einstakra atvinnugreina, svo sem vegna togaraútgerðarinnar, hefði þurft og þarf þrátt fyrir gengislækkunina að gera sérstakar ráðstafanir, enda verður það sjálfsagt lengst af svo í landi hér, að afkoma atvinnugreinanna verður það misjöfn og breytileg, að grípa verður öðru hverju til einhverra miðlunarúrræða.

Það verður ekki heldur sannað, að gengislækkunin hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir greiðsluhalla við útlönd. Þegar gengið var fellt á s.l. sumri, var ekkert fullyrt um gjaldeyrisafkomu ársins, en horfur í gjaldeyrismálum voru þó tiltölulega góðar og gáfu síður en svo tilefni til nokkurrar svartsýni. Það sýna gjaldeyrisskýrslur bankanna. En hvað sem um þennan þátt málsins mátti segja á s.l. sumri, er gengislækkunin var gerð, og hvað sem mönnum þá gat sýnzt um þessi atriði, þá liggja fyrir gögn um það, hver gjaldeyrisafkoman var. Í þeirri skýrslu Seðlabankans, sem ég vitnaði í áðan, segir berum orðum, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað á árinu 1961 um 400 millj. kr., reiknað á núgildandi gengi. í skýrslu Seðlabankans segir enn fremur svo: „Jafnframt þeirri miklu bót, sem átti sér stað á gjaldeyrisstöðu bankanna og greiðslujöfnuðinum 1961, átti sér stað birgðaaukning á útflutningsvörum, er nam 186 millj. kr.“ í margnefndri Morgunblaðsgreinargerð segir enn fremur: .,Verðhækkanir innanlands draga úr áhrifum tekjuaukningarinnar á greiðslujöfnuðinn.“ En þrátt fyrir það mátti gera ráð fyrir, að 300 millj. kr. af þeim 800—900 millj. kr., sem að framan getur, hefðu komið fram í greiðslujöfnuðinum á síðari helmingi ársins 1961 og fyrri helmingi árs 1962. M.ö.o.: skv. útreikningi sjálfrar ríkisstj. mátti gera ráð fyrir, að um 150 millj. kr. af kaupgetuaukanum kæmu fram í greiðslujöfnuðinum árið 1961, þ.e. á síðari helmingi ársins. En nú liggur það fyrir skv. óyggjandi tölum, að framleiðsluverðmæti sjávarafurða varð 1961 rúml. 14% meira en árið 1960 og þó öllu heldur 18% meira og að hrein gjaldeyriseign bankanna hækkaði úr rúml. 118 millj. kr. 1. ágúst 1961 upp í tæpar 527 millj. kr. 31. des. 1961. eða um 409 millj. kr., og um mánaðamótin febrúar og marz var hún komin upp í rúml. 703 millj. kr. Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki komizt, þær eru auðskildar hverju barni. Hvernig ætlar svo ríkisstj. að telja mönnum trú um, að komið hefði til gjaldeyrisskorts og greiðsluhalla, ef ekki hefði verið gripið til gengisfellingar? Það er alveg vonlaust verk. Hitt er svo annað mál, að framannefndar tölur ríkisstj. eru byggðar á sandi. Kaupgjaldshækkanir eru auðvitað út af fyrir sig fremur tekjutilfærsla en tekjuaukning, þegar á þjóðfélagið í heild er litið. En auk þess eru tölur þessar sjálfsagt allt of háar.

Af því, sem hér hefur verið rakið, er augljóst, að gengislækkunin var þarflaus og báðar þær ástæður, sem reynt hefur verið að réttlæta hana með, hafa reynzt tylliástæður, enda var gengislækkunin fyrst og fremst aðvörun stjórnarinnar til verkamanna og annarra launþegasamtaka, hótun um það, á hverju þau ættu von, ef þau yrðu ekki góðu börnin og sættu sig við kjaraskerðingarstefnuna. Henni var ætlað að lama samtökin. Það mun þó ekki takast, enda er það nú deginum ljósara, að ríkisstj. er að missa kaupgjaldsmálin úr böndunum, eins og reyndar flest sín mál.

Framleiðsluaukningin s.l. ár og hin tiltölulega góða afkoma út á við eru suðvitað ekki að neinu leyti að þakka aðgerðum núv. ríkisstj., heldur eiga þær rætur sínar í uppbyggingu undangenginna ára, útfærslu landhelginnar, hækkandi verðlagi á útflutningsafurðum, miklum afla og þar af leiðandi mikilli atvinnu í landinu. Þvert á móti hafa ýmsar af ráðstöfunum ríkisstj. reynzt atvinnuvegunum fjötur um fót, svo sem vaxtahækkun, lánasamdráttur og stórkostleg hækkun hvers konar framkvæmdakostnaðar. Þetta sjá allir landsmenn og skilja. Það þarf ekki að eyða orðum að því, hversu harkaleg og tilfinnanleg aðgerð gengislækkun er fyrir allan almenning. Það er ómótmælanleg staðreynd, að gengislækkunin s.l. sumar hefur hrundið af stað nýrri dýrtíðarskriðu. Var þó sízt af öllu bætandi á viðreisnaráhrifin í því efni.

Með hinni svokölluðu viðreisn var tekin upp ný efnahagsmálastefna. Sú stefna var í algeru ósamræmi við yfirlýsingar og kosningaheit stjórnarflokkanna um stöðvun dýrtíðar og bætt lífskjör, svo sem margoft hefur verið sýnt fram á. Viðreisnarstefna ríkisstj., eins og hún birtist í efnahagsmálalöggjöfinni 1960 og síðari ráðstöfunum, er auðvitað ekkert annað en grímuklædd íhaldsstefna. Hún er því réttnefnd íhaldsviðreisn. Gengislækkunin 1960 var óhófleg og hlaut að leiða til geigvænlegrar dýrtíðar og kjaraskerðingar. Þó þótti ríkisstj. nauðsynlegt að bæta við margháttuðum ráðstöfunum, sem yfirleitt gengu í sömu átt, svo sem nýjum og tilfinnanlegum neyzlusköttum, stórfelldri vaxtahækkun, lánasamdrætti og styttingu lánstíma ýmissa stofnlána og fleiri þvílíkum kjaraskerðingaraðgerðum, sem áttu að draga úr kaupgetu og lánsfjárnotkun, en hér yrði of langt mál að telja þær upp. Þessi íhaldsviðreisn hleypti af stað nýju verðbólguflóði, reyndist atvinnuvegunum þrándur í götu og varð uppspretta ranglætis og óeðlilegs aðstöðumunar og lagðist sem farg á fyrirhugaðar framkvæmdir og skerti lífskjör alls almennings. Hvað sem öðrum verkunum íhaldsviðreisnarinnar líður, blasa þessar staðreyndir og afleiðingar hennar hvarvetna við, þrátt fyrir nokkrar góðar gagnráðstafanir, svo sem aukningu fjölskyldubóta.

Stjórnarstuðningsmenn hafa státað af því í ræðum sínum, að íhaldsviðreisnin hafi borið tilætlaðan árangur. Þeir hafa reynt að styðja mál sitt með talnalestri um gjaldeyrisafkomu og sparifjársöfnun. Sparifjársöfnun og gjaldeyrisaukning eru góðra gjalda verðar. Af þeim atriðum einum verður þó alls ekki dregin sú ályktun um velsæld og heilbrigði efnahagslífsins og því siður um lífsafkomu og velmegun fólksins, sem stjórnarsinnar vilja vera láta. Það væri auðvelt að sanna með dæmum úr daglega lífinu.

Framkvæmdir í landinu, uppbygging atvinnulífsins, aukin framleiðsla og framleiðni eru þeir hornsteinar, sem velmegun þjóðar í nútíð og framtíð byggist á, ekki hvað sízt í okkar lítt numda landi.

En það er vissulega hægt að nefna aðrar tölur en stjórnarsinnar hafa gert til marks um viðreisnaráhrifin. Þær tölur sýna allt aðrar og skuggalegri hliðar á íhaldsviðreisninni. En það eru áreiðanlega tölur, sem almenningur kannast betur við úr sínu daglega lífi, heldur en þær, sem ríkisstj. hampar. Það eru tölur um sívaxandi dýrtíð og kjaraskerðingu. Það má nefna hækkun framfærslukostnaðar og byggingarkostnaðar, hækkun véla og skipa og kaupmáttarrýrnun launanna. Sá útreikningur, er gerður hefur verið á kaupmætti tímakaups verkamanna í Reykjavík, er athyglisverður og táknrænn, en í maímánuði s.l. sýndi hann 16 stiga lækkun frá því 1947, en í árslokin 17 stig, og er samkv. því búið að taka aftur alla kjarabótina frá því í fyrrasumar — og þó aðeins betur. En allur talnalestur um þessi atriði er gersamlega óþarfur, og ég ætla ekki að fara út í hann. Hér getur hver og einn litið í eigin barm og dæmt um dýrtíðaraukninguna af eigin raun. Sannleikurinn er sá, að það hefðu margir átt í erfiðleikum með að framfleyta sér og sínum, ef ekki hefði notið við góðs árferðis, góðra aflabragða og þar af leiðandi mikillar atvinnu.

Þrátt fyrir hagstætt árferði yfirleitt er áreiðanlega fjöldi fólks í vandræðum með að hafa í sig og á. Já, jafnvel ríkisstj. hefur orðið fyrir barðinu á þessu afkvæmi sinu, íhaldsviðreisninni. Mikið af tíma þings og stjórnar hefur farið í það að glíma við drauga, sem viðreisnin hefur vakið upp. Ég nefni skuldaskil útgerðarinnar, lausaskuldamál bsenda, landbúnaðarsjóðina, vandræði togaraútgerðarinnar og húsnæðismálin. Mér dettur auðvitað ekki í hug að halda því fram, að vandamál þessi eigi að öllu leyti rætur sínar í viðreisninni, en hinu held ég hiklaust fram, að hún eigi sinn verulega þátt, t.d. með gengislækkun og viðreisnarvöxtum.

Það er athyglisvert og ámælisvert, að skuldamálum útvegsmanna og bænda skipaði stjórnin í öndverðu með brbl., og var það í öðru tilfellinu meira að segja gert í stuttu þinghléi. Með þeim hætti setti stjórnin stuðningsmenn sína á þingi í þá aðstöðu, að þeir urðu að samþ. brbl., hvort sem þeim líkaði betur eða verr, án þess að nokkrum verulegum breytingum yrði við komið. Ef mál þessi hefðu komið til kasta þingsins án áður útgefinna brbl., er líklegt, að löggjöfin hefði orðið talsvert á aðra lund, a.m.k. lögin um lausaskuldir bænda. í hvorugu tilfellinu hefðu framkvæmdir tafizt, þótt málin hefðu verið lögð fyrir þing með eðlilegum hætti. Því verður ekki neitað, að núv. ríkisstj. hefur hvað eftir annað gripið til gerræðisfullra brbl., og eru þó brbl. um gengisskráningarvaldið frá s.l. sumri þar gleggsta dæmið. Virðist það helzt í sumum tilfellum gert til þess að setja stjórnarstuðningsmennina í sjálfheldu, og má vera, að það sé ekki alltaf að ástæðulausu, en ekki lýsir sú aðferð mikilli virðingu fyrir þingliðinu.

Engum hefur íhaldsviðreisnin orðið jafnþung í skauti og unga fólkinu, sem þarf að stofna heimili og koma fótunum fyrir sig. Það er t.d. enginn hægðarleikur fyrir frumbýlinga að stofna bú, eins og sakir standa, að kaupa jörð, bústofn og vélar. Það er ekki hlaupið að því fyrir ungu hjónin, sem stofna heimili í sveit eða kaupstað, að eignast þak yfir höfuðið, hvort heldur er að kaupa eða byggja. Sama máli gegnir um manninn, sem er að reyna að stofnsetja eigið fyrirtæki, hvort heldur er í útgerð eða iðnaði. Ummæli hæstv. fjmrh. hér í umr. í gærkvöld um æskuna og viðreisnina voru því hrein öfugmæli, en bera hins vegar órækt vitni um hina ríku og meðfæddu skáldæð, sem í hæstv. ráðh. býr.

Alls staðar er sama sagan, að viðreisnin hefur bitnað þyngst á þeim, er veíkasta höfðu aðstöðuna, á fátækasta fólkinu og unga fólkinu, sem á eftir að skapa sér aðstöðu og afkomumöguleika, fólkinu, sem á e.t.v. ekkert nema vonir og viljann til að vinna, og það er kannske það alvarlegasta í þessu máli. Það er hætt við, að íhaldsviðreisnin verki lamandi á þá bjartsýni, sem ungu fólki er eiginleg, hún veiki trú þess á landinu og bjargræðisvegum þjóðarinnar. Vonandi lætur það þó ekki hugfallast.

En er þá íhaldsviðreisnin engum góð? Jú, þeim ríku. Hún gerir þá ríku ríkari. Hún eykur aðstöðumun þjóðfélagsþegnanna óeðlilega mikið. Hún er því sannkölluð ójafnaðarstefna. Það er kaldhæðni örlaganna, að það skuli vera Alþfl., sem gengur erinda þeirrar ójafnaðarstefnu.

Stjórnarstefnan í innanlandsmálum verðskuldar að mínum dómi þungan áfellisdóm. Hitt er þó í rauninni enn alvarlegra, að núv. ríkisstj. er af fjölda fólks ekki treyst til að halda á málstað Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum. Þar hafa alvarleg mistök átt sér stað, sem ég skal þó ekki ræða hér. En hér þarf ríkisstj., sem nýtur meira trausts í utanríkismálum. Það er víst, að samskipti okkar við aðrar þjóðir munu verða æ meiri, hvort sem okkur í rauninni líkar það betur eða verr. Margháttað og áður óþekkt þjóðasamstarf færist nú í aukana, þ. á m. á sviði stjórnmála, efnahagsmála og félagsmála. Þar verðum við að fara að öllu með gát. Það er sannast sagna, að í samskiptum ríkja er enginn annars bróðir í leik. Þar verður hver og einn að treysta á sjálfan sig, en ekki annarra forsjón. Það er því höfuðnauðsyn að mínum dómi að skapa hér sem víðtækasta samstöðu um utanríkismálin.

Framsfl. telur það nauðsynlegt, að sem allra fyrst sé hætt við hina skaðlegu íhaldsviðreisn og að aftur sé horfið að raunhæfri, en bjartsýnni framfarastefnu. Megindrættir þeirrar framfarastefnu eru markaðir í stjórnmálaályktun flokksþings og miðstjórnar Framsfl. Hér er aðeins tími til að drepa á örfá almenn atriði.

Framsfl. vill vinna að framförum og uppbyggingu atvinnuveganna um land allt. Fjármagni, framkvæmdum og atvinnufyrirtækjum þarf því að dreifa um landið með skynsamlegum og skipulegum hætti. Almannavaldið á að ýta undir og styðja með eðlilegum hætti framfaraviðleitni fólksins og sjálfsbjargarhvöt, hvort sem hún birtist í framtaki einstaklingsins eða í félagslegum samtökum. Lífskjör fólks þarf að bæta, svo að þau verði sambærileg við það, sem gerist með nálægum menningarþjóðum. Þess vegna þarf framleiðsluaukningin að vera miklu stórstígari en hingað til. Stuðla á að nýjum framleiðsluatvinnugreinum. Framleiðsluaukninguna þarf að byggja á heilbrigðu framtaki, auknum framleiðsluafköstum, vaxandi verklegri menningu. Auðlindir landsins og orkugjafa þarf að nýta sem bezt, til hagsældar fyrir alla þjóðina. Tryggja þarf næga atvinnu. Það er grundvallarskilyrði fyrir framförum, kjarabótum og menningu, að landinu sé stjórnað með þessi stefnumörk í huga.

Hér hafa aðeins verið nefnd fáein dæmi um almenn stefnumál Framsfl. Að sjálfsögðu reynir flokkurinn að vinna að þeim stefnumálum eftir megni, hvort sem hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Hann hefur m.a. hreyft ýmsum málum í þessa átt á því Alþ., sem nú situr. Stjórnarliðið hefur yfirleitt eytt þeim málum, ýmist fellt þau eða svæft þau í n. Þannig verður það sjálfsagt. meðan núv. stjórnarflokkar hafa meiri hl.

Það er því höfuðnauðsyn að efla Framsfl. svo í næstu kosningum, að fram hjá honum verði ekki komizt við stjórnarmyndun. Með beim hætti er tryggt, að horfið verði frá ríkjandi íhaldsstefnu, en afleiðingar þeirrar stjórnarstefnu eru því háskalegri og óviðráðanlegri sem núv. stjórn situr lengur að völdum. Þess vegna verður allt framfarasinnað fólk í landinu að neyta þess færis, sem gefst í næstu alþingiskosningum til að kveða niður kjaraskerðingarstefnuna og fella bungan, en verðskuldaðan áfellisdóm yfir íhaldsviðreisninni. — Góða nótt.