13.04.1962
Sameinað þing: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það kom greinilega fram í útvarpsumræðunum í gærkvöld, að stjórnarandstaðan er málefnalaus. Hennar verkefni er að rífa niður og reyna að gera ráðstafanir stjórnarflokkanna tortryggilegar. Stjórnarandstaðan reynir enn að telja almenningi trú um, að hagur þjóðarinnar hafi verið góður í árslok 1958, þegar vinstri stjórnin gafst upp. Hv. þm. Eysteinn Jónsson hefur sagt, að ekkert hafi verið að á þessum tíma nema það, að ekki varð ráðið við vísitöluna og dýrtíðina. Þessi játning þm. er mikils virði og sannar áþreifanlega, að sú dýrtíð, sem nú er talað um, er arfur frá vinstri stjórninni. Þegar stjórnarandstaðan talar nú um hátt verðlag og gefur í skyn, að núv. ríkisstj. eigi sök á því, þá er gott að hafa í huga það, sem Eysteinn Jónsson segir um vísitöluna, og það, sem Hermann Jónasson, fyrrv. forsrh.. sagði, þegar hann lýsti uppgjöfinni og taldi, að óðaverðbólga væri skollin á.

Það hefur tekizt eftir vonum að stöðva dýrtíðina og koma atvinnuvegunum á starfsgrundvöll á ný, en eins og kunnugt er var allt gengið úr skorðum í árslok 1958 vegna vísitölunnar og verðbólgunnar. Með bjargráðunum 1958 var krónan felld um 55%, en í árslok hafði krónan fallið miklu meira vegna stöðugt hækkandi verðlags á árinu. Núv. ríkisstj, gerði ráðstafanir til að skrá krónuna á réttu verði í ársbyrjun 1960. Efnahagsaðgerðirnar, sem þá voru gerðar, voru nauðsynlegar til að forða þjóðinni frá gjaldþroti. Það kemur úr hörðustu átt, þegar stjórnarandstaðan, sem ber ábyrgð á því, hvernig komið var, setur sig á háan hest og er að vanda um við stjórnarflokkana, vegna þess að verðlag hefur hækkað og nokkur óþægindi geta af því stafað, meðan jafnvægi er að nást.

Stjórnarandstaðan talar mikið um, að illa sé búið að atvinnuvegunum. En sannleikurinn er sá, að giftusamlega hefur tekizt að forða þeim frá stöðvun, miðað við það ástand, sem orðið var, þegar vinstri stjórnin skilaði af sér.

Hér skal nokkuð vikið að því, á hvaða vegi landbúnaðurinn er í dag. Vissulega á hann við nokkra erfiðleika að etja, eins og fleiri atvinnugreinar. Vafalaust hafa margir bændur gert sér fulla grein fyrir því, hver hagur þeirra væri, ef vinstri stefnan hefði verið lengur ráðandi og málefni landbúnaðarins í höndum framsóknarmanna.

Afurðasölulögin frá 1947 hafa framsóknarmenn lengi talið vera lög Framsfl. og beztu lög, sem landbúnaðurinn gæti fengið til að tryggja rétt verð á afurðunum. Verðlagning landbúnaðarvara hefur farið fram samkv. afurðasölulögunum með sama hætti, síðan þau lög voru sett. Sá galli var á lögunum, að þau tryggðu ekki fullt verð fyrir þær vörur, sem fluttar voru úr landi. Annar megingalli var einnig á lögunum, að ekki mátti breyta verðlagi búvara nema einu sinni á ári, þótt kaupgjald og verðlag hefði hækkað. Afleiðingin af þessu varð sú, að bændur biðu stóran halla vegna útfluttra búvara og einnig biðu þeir mikið tjón af því að bíða allt að því eitt ár eftir verðhækkun búvörunnar. Árið 1958 ræddi búnaðarþing um þessi mál og það tjón, sem bændur biðu af útflutningnum. Framsóknarmenn voru í ríkisstj. og gerðu engar tillögur um, að bændum væri bættur þessi halli. Það var ekki fyrr en núv. ríkisstj. var mynduð, að lögunum var breytt og bændum tryggt fullt verð fyrir útflutningsvörurnar. Greiddar voru 18 millj. kr. úr ríkissjóði fyrir s.l. verðlagsár í þessu skyni og væntanlega miklu hærri upphæð á yfirstandandi verðlagsári. Ef Framsókn hefði ráðið, mættu bændur enn bera þann halla, sem leiðir af lágu verði á útlendum markaði. Enn væri eftir að breyta því ákvæði laganna að heimila verðhækkun ársfjórðungslega, eins og nú er gert, í stað þess að bíða eitt ár eftir verðbreytingu, eins og áður var.

Á s.l. hausti náðist ekki samkomulag í sex manna nefnd um verðlagningu búvara, og hefur því verið haldið fram, að verðgrundvöllurinn sé lakari nú en áður. Um það skal ekki dæmt að þessu sinni, en geta má þess, að ýmsir forsvarsmenn bænda telja vafasamt, að verðgrundvöllurinn sé lakari nú en hann hefur oft verið áður. Hitt mun rétt vera, að verðgrundvöllur búvörunnar hefur aldrei verið réttur. Það mun aldrei hafa verið tekið fullt tillit til allra útgjaldaliðanna í búrekstrinum. Það er verkefni framleiðsluráðs að færa sem skýrust rök fyrir sínu máli og ná settu marki með þeim hætti. Sá er munurinn nú frá því, sem áður hefur verið, að bændur fá nú að fullu grundvallarverðið og bera ekki halla af því, sem selt er fyrir lægra verð úr landi, eftir að verðtryggingin var lögfest. Bændur hefur oft vantað mikið á mjólkurverðið, eitt árið 22 aura á lítra. Einnig hefur oft vantað á kjötverðið, og hafa þetta verið stórar upphæðir samanlagt hjá hverjum bónda sum árin.

Annar þáttur verðlagsmálanna má segja að sé leystur á farsælan hátt. Hinn þátturinn, að fá alla útgjaldaliði viðurkennda inn í verðgrundvöllinn, ætti einnig að leysa með rökum og staðreyndum í sex manna nefnd eða í sambandi við úrskurð yfirdóms, þegar til þess kemur, að hann úrskurðar verðið.

Framsóknarmenn eru stundum að gera samanburð á verðlagi búvara annars vegar og verðlagi rekstrarvara hins vegar. Sá samanburður, sem lesinn var upp í gærkvöld, er að ýmsu leyti mjög hæpinn. Dæmið um vextina og afborganir af lánum er einnig athugavert, þar sem vaxtahækkunin hefur að miklu leyti verið tekin inn í verðgrundvöllinn, og er nú reiknað með 16 579 kr., en sá liður var aðeins 11 614 kr. árið 1959. Ekki er heldur rétt að reikna með 15 ára lánum, þar sem yfirlýst er, að þau verða eftirleiðis til 20 ára. Meðan verðlagningin fór fram eftir þeim lögum, sem framsóknarmenn hafa kallað sin lög, framleiðsluráðslögin óendurbætt, töldu þeir, að rekstrarvörurnar og vélaverðið kæmi inn í grundvöll búvöruverðsins og á þann hátt fengju þeir það bætt í gegnum, verðlagið. Með endurskoðun tollskrárinnar, sem á að verða lokið fyrir næsta haust, má gera ráð fyrir lækkun aðflutningsgjalda á landbúnaðarvélum. Það hefur einnig oft heyrzt á bændafundum, að það væri ekki þeirra hagur að greiða niður fóðurbæti úr ríkissjóði, vegna þess að hækkun á fóðurbæti fengist bætt með hækkuðu verði á mjólk og öðrum afurðum. Hafi þessi skoðun framsóknarmanna verið rétt, áður en lögin voru endurbætt, ætti hún miklu fremur að vera rétt nú, eftir að bændum er tryggt að fullu bað verð, sem reiknað er með að þeim beri að fá samkv. verðlagningu sex manna nefndar eða yfirdóms.

Um lánasjóði landbúnaðarins hefur verið mikið rætt á þessu þingi. Framsóknarmenn fullyrða, að vel hafi verið að þeim búið, þar til núv. ríkisstj. kom til valda. Það sanna er, að sjóðirnir hafa alltaf haft of lítið fé til útlána. í lögum um sjóðina er heimild að lána allt að 75% af kostnaðarverði framkvæmdanna. Vegna fjárskorts hefur í mörgum tilfellum ekki verið unnt að lána meira en 25—30% af kostnaðarverðinu. Heimilt hefur verið að lána út á vélar, jarðakaup, súgþurrkun og ýmsar aðrar framkvæmdir varðandi landbúnaðinn. En vegna fjárskorts hefur ekki verið unnt að sinna brýnustu þörfum bænda í lánamálum, og hafa þeir því orðið að taka víxla og safna lausaskuldum vegna hinna miklu framkvæmda, sem ráðizt hefur verið í undanfarin ár. Þetta eru staðreyndir, sem sjálfsagt er að hafa í huga, þegar rætt er um, hvernig leysa eigi mál búnaðarsjóðanna til frambúðar.

Það er of mikil nægjusemi að láta 25—30% nægja, eins og oft hefur áður verið gert. Með bjargráðunum 1958 hækkuðu erlendar skuldir sjóðanna um marga milljónatugi. Þegar framsóknarmenn tala um, að sjóðirnir hafi átt skuldlausa eign í árslok 1958 105 millj. kr., gleyma þeir að draga frá þá skuldaraukningu, sem varð vegna yfirfærslugjaldsins. Þeir gleyma einnig að taka tillit til þess, að töp sjóðanna voru orðin miklu meiri en þetta í árslok 1958, þegar óðaverðbólgan hafði orðið til þess að fella krónuna í það, sem hún var skráð samkvæmt efnahagsmálalöggjöfinni í febrúarmánuði 1960. Búnaðarsjóðirnir áttu því í rauninni engar eignir í árslok 1958, þegar þetta er tekið með í reikninginn. Það verður að teljast undrunarefni, að reynt skuli vera að setja dæmið algerlega skakkt upp frammi fyrir alþjóð. S.l. tvö ár hefur búnaðarsjóðunum verið útvegað innlent fé til útlána. Vegna þess, hvernig afkoma þeirra er og slíkt getur ekki haldið áfram með sama hætti, ber brýna nauðsyn að bæta úr þessu nú þegar með það fyrir augum, að landbúnaðurinn fái víðtækari aðstoð í lánamálunum en verið hefur.

1960 voru veitt 199 lán úr byggingarsjóði að upphæð 13 millj. 310 þús. kr. úr ræktunarsjóði voru veitt á því ári 863 lán að upphæð 49 millj. 657 þús. kr. Það þykir rétt að benda á þetta, þar sem fram hefur komið í nál, og ræðum framsóknarmanna, að á meðan framsóknarmenn voru í ríkisstj., 1947—58, hafi verið veitt til jafnaðar 600 lán árlega úr ræktunarsjóði, og þótti framsóknarmönnum það mikið, og 170 lán úr byggingarsjóði, og voru þeir enn þá ánægðari með það.

Frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins, sem væntanlega verður að lögum á þessu þingi, er mikilvægt spor í uppbyggingu þess atvinnuvegar og munu með því móti vera á farsælan hátt tryggðir stórum auknir lánsmöguleikar fyrir bændur. Með frv. er lagt til, að ríkissjóður greiði að fullu gengishalla sjóðanna, sem er áætlaður vera 9 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram sem stofnfé 60.5 millj. kr., en það jafngildir 8–9 millj. kr. á ári næstu 5 ár eftir því, með hvaða vaxtafæti er reiknað.

Auk þess leggur ríkissjóður fram 4 millj. kr., sem hafa áður verið í fjárlögum. Auk þess er lagt á útsöluverð búvörunnar 0,75%, sem áætlað er að gefi allt að 6 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir, að bændur greiði 1% af verði búvara til stofnlánadeildarinnar. Er sú upphæð áætluð árlega rúmar 8 millj. kr. Á móti þessu greiðir ríkissjóður jafnháa upphæð. Á þennan hátt má reikna með, að árlegar tekjur stofnlánadeildarinnar verði auk vaxtatekna sem næst 35 millj. kr. Á þennan hátt byggir stofnlánadeildin sig upp og verður traust stofnun og mikils megandi. Eftir örfá ár verður eigið fé deildarinnar til útlána á ári um 100 millj. kr. Árið 1975 verður eigið fé til árlegra útlána um 150 millj. kr. og eigin höfuðstóll yfir 500 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að hækka lán til íbúðarhúsa til muna frá því, sem verið hefur, auk þess sem styrkur er veittur samkv. lögum frá 1960 til þeirra, sem verst eru settir. Íbúðalánin verða til 42 ára. Vextir eru nú 6%. Gert er ráð fyrir að veita aukin lán til margs konar framkvæmda, sem ekki hefur verið hægt að sinna fyrr, svo sem vélakaupa, og verða þau lán með 61/2% vöxtum og til 20 ára yfirleitt, nema lán til vélakaupa.

Ekki þarf að fjölyrða um, hversu mikils virði það er fyrir landbúnaðinn, að stofnlánadeildin verður efld. Þess má vænta, að víxillán og lausaskuldir hjá bændum verði mun minni en áður, þegar stofnlánadeildin hefur fengið það fé, sem henni er ætlað að fá. Stofnlánadeildin verður að tryggja sér fé að láni fyrstu árin, en það mun verða miklu auðveldara en áður var, þar sem auðvelt er að sýna fram á, að deildin getur staðið í skilum með skuldbindingar sínar.

Það merkilega hefur skeð, að meiri hluti búnaðarþings hefur mótmælt frv. um uppbyggingu stofnlánadeildarinnar. Mun það aðallega vera vegna 1% gjaldsins á búvörurnar. Þetta er enn merkilegra vegna þess, að sami meiri hl. búnaðarþings hefur óskað eftir því að fá lögfest að nýju 1/2% gjald af búvörum bænda vegna Bændahallarinnar í Reykjavík. Þetta er óskiljanleg afstaða. Á móti hallargjaldinu kemur ekkert fé annars staðar frá, og bændur hafa ekki enn komið auga á, hvers vegna á þá er lagður skattur til að byggja hótel, sem þeir sjálfir munu lítið eða ekkert nota. Með 1% gjaldinu til stofnlánadeildarinnar fæst mikið fé annars staðar frá til að byggja upp sjóðina, eins og áður hefur verið fram tekið. Framsóknarmenn á Alþingi hafa tekið. sömu afstöðu og meiri hluti búnaðarþings. Þetta er ábyrgðarlaus afstaða og markast af skammsýni, eins og síðar mun sannast. Það er ekki í fyrsta skipti, að góð mál mæta andstöðu, eins og sagan greinir, ef flett er upp í henni. Reynslan mun sýna, að hér er um gott mál að ræða. Stofnlánadeildin mun verða fær um að ýta undir aukna framleiðslu og bættan hag í landbúnaðinum.

Framsóknarmenn tala um landbúnaðinn eins og vonlausan atvinnuveg. Þeir tala um fólksflutninga úr sveitum landsins og fullyrða, að jarðir séu að fara í eyði. Þeir tala um samdrátt í ræktun og framkvæmdum. Hvað er hæft í þessu? Það er að vísu sannleikur, að undanfarna áratugi hefur verið fólksstraumur úr sveitunum. Á árunum 1950–60 fækkaði fólki í sveitum landsins um 390 manns árlega að meðaltali. Jarðir fóru þá einnig í eyði. Framsóknarmenn voru við völd á þessum árum, en þeim var um megn að stöðva flóttann. Þennan flótta verður að stöðva, og það verður bezt gert með því að byggja upp trausta lánastofnun, sem er fær um að veita fjármagni í þennan atvinnuveg. Samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar um stofnlánadeildina er gert ráð fyrir nýju utanaðkomandi fjármagni, sem flutt verður inn í sveitirnar, sem nemur yfir 20 millj. kr. árlega.

S.l. tvö ár mun eitthvað af fólki hafa flutzt úr sveitum landsins, en sízt meira en áður. Nokkrar jarðir munu einnig hafa farið í eyði, en þó færri en áður. Nýbýli eru stofnuð árlega, og vegur það á móti gömlu jörðunum, sem í eyði fara, sem er oft vegna þess, að þær eru illa í sveit settar.

Hvað er um framkvæmdirnar og samdráttinn, sem framsóknarmenn tala svo mikið um? Á árunum 1950–60 var ræktun til jafnaðar 3600 hektarar á ári. Árið 1961 var ræktunin 3960 ha., eftir því sem Arnór Sigurjónsson hefur komizt næst. Framræsla hefur minnkað nokkuð af eðlilegum ástæðum, þar sem grafið hefur verið í heilum sveitum nægilega mikið nokkur ár fram í tímann.

Jarðræktin er undirstaða velgengni í landbúnaðinum og vaxandi framleiðslu. Jarðræktarlögin hafa verið í endurskoðun og verða væntanlega tekin til meðferðar á næsta þingi. í hinum nýju jarðræktarlögum verða kornræktinni að sjálfsögðu gerð viðeigandi skil til að rækta sem mest fóðurkorn í landinu.

Byggingarframkvæmdir voru miklar í sveitum landsins s.l. tvö ár og er augljóst, að meðal bænda er sem betur fer ekkert vonleysi, heldur dugur og framkvæmdavilji, eins og ávallt hefur einkennt Íslenzka bændastétt. Framleiðslan í landbúnaðinum hefur aukizt mjög mikið árin 1960 og 1961, og talið er, að kúafjöldi á árinu 1962 sé einni þúsund hærri en var árið áður, og má því ætla, að mjólkurframleiðslan vaxi enn í hlutfalli við það, sem verið hefur s.l. tvö ár, en það er miklu meiri aukning en var að meðaltali s.l. áratug. Kjötframleiðslan hefur einnig aukizt mjög mikið, og verður á þessu verðlagsári að flytja út allt að þúsund tonnum meira af dilkakjöti en árið áður.

Þegar verið er að byggja upp stofnlánadeild landbúnaðarins og hlustað er á gagnrýni framsóknarmanna, er rétt að minna á, að þegar landbúnaðarsjóðirnir voru rændir tugum milljóna króna vegna bjargráðanna 1958, voru engar ráðstafanir gerðar til að bæta sjóðunum þetta tap. Eysteinn Jónsson, þáv. fjmrh., lagði fram fjárlfrv. fyrir árið 1959, og á því frv. voru 4,1 millj. kr. til búnaðarsjóðanna, eins og verið hafði mörg undanfarin ár áður. í Ed. hafa framsóknarmenn flutt frv. um, að ríkissjóður greiði gengishalla sjóðanna, sem er um 9 millj. kr. á ári. Aðrar till. til lausnar málum landbúnaðarins og lánastofnana hans höfðu framsóknarmenn ekki borið fram, fyrr en yfirboðstillögur þeirra birtust, eftir að frv. ríkisstj. var flutt. Meðan framsóknarmenn voru í ríkisstj. var engin till. gerð til lausnar eða úrbóta í þessu máll. Það er því ástæða til að ætla, að ef framsóknarmenn færu enn með þessi mál, mættu sjóðirnir vera áfram í því öngþveiti, sem þeir voru komnir í.

Það hefur verið sýnt fram á það, að stofnlánadeildin verður öflug eftir fá ár. Hefur því verið um það rætt að láta margra ára umtal bænda um lífeyrissjóð verða að veruleika, með því að stofnlánadeildin leggi til fjármagn í sjóðinn. Ríkisstj. mun gera ráðstafanir til þess, að málið verði athugað vel með það fyrir augum að láta óskir bænda um lífeyrissjóð verða að veruleika.

Þegar talað er um samdrátt í verklegum framkvæmdum, er rétt að athuga það, að allir, sem vilja vinna, fá vinnu, eftir því sem þeir hafa þol og getu til. Ætti að framkvæma miklu meira, þyrfti að flytja inn verkamenn. Ekki hefur stjórnarandstaðan enn flutt tillögur um það. Þetta tal um samdrátt á ekki við nein rök að styðjast. Unnið er að því að rafvæða landið. Stjórnarandstaðan skorar á ríkisstj. að hraða framkvæmdum. Staðreyndin er þó sú, að nú er lagt árlega rafmagn á miklu fleiri býli en á meðan vinstri stjórnin sat að völdum. Við 10 ára áætlunina verður fyllilega staðið. Unnið er að undirbúningi framhaldsáætlunar um rafvæðingu strjálbýlisins. Miklum fjármunum er nú varið til virkjanarannsókna og jarðhitarannsókna. Væntanlega verður ekki langt að bíða þess, að ráðizt verði í stórvirkjun, sem selur orkufrekum iðnaði stóran hluta af því afli, sem virkjað er. Verkefnin eru mörg í atvinnulífi þjóðarinnar. Möguleikarnir eru miklir í bættri og aukinni nýtingu framleiðslunnar. Batnandi kjör, hækkað kaup fylgir í kjölfar bættrar vinnu, aukinna afkasta og bættrar tilhögunar í vinnubrögðum. Segja má, að margt hafi vel tekizt á þeim stutta tíma, sem þjóðin hefur haft tæknina í þjónustu sinni, en áreiðanlega eigum við eftir að læra mikið af öðrum og kynnast betur því nýjasta og bezta, sem nota má á leiðinni að því marki að bæta lífskjörin og tryggja afkomu þjóðarbúsins. — Góða nótt.