13.04.1962
Sameinað þing: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurvin Einarsson:

Herra Forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. landbrh. var að tala hér áðan. Það er til marks um hugsunarhátt hans, að hann telur eðlilegt, að ræktun í sveitum landsins dragist saman. Hæstv. landbrh. var að gorta af útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir. Hann ætti að minnast þess, að stjórnin var knúin til að fallast á uppbæturnar af bændasamtökunum, þegar þessir flokkar voru neyddir til að bæta fyrir brbl. 1959, þar sem tekin voru 3.18% af afurðaverði bænda. Hæstv. landbrh. láðist að segja frá því, að ríkisstj. hefur ofan á allt annað, sem hv. þm. Ágúst Þorvaldsson upplýsti í gærkvöld, látið stórlækka lán út á landbúnaðarafurðir, og veldur það bændum stórtjóni að bíða því lengur eftir greiðslu á afurðum sinum. Lausn landbrh. á lánum bænda er að hækka vexti úr 31/2–4% í 6—61/2%, setja 8% vexti á lausaskuldir bænda og leggja á bændur 2% launaskatt í þokkabót.

Þá sagði hæstv. ráðherra Emil Jónsson í ræðu sinni í gær, að stjórnin væri að bjarga rekstri togaraflotans. Hvernig eru bjargráðin? Það á að auka tekjur aflatryggingasjóðs með stórkostlegri hækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum og nokkurri hækkun á ríkisframlagi. Hækkunin á að nema 271/2 millj. kr. á ári, miðað við aflamagnið í fyrra. Og hverjir taka á sig þessa hækkun? Togararnir sjálfir rúmar 6 millj. Það eru þó bjargráð. Ríkissjóður tekur á sig rúmlega 6 millj., sama og togararnir. En bátaflotinn á að taka á sig 15 millj. kr. skatt á ári til togaraflotans. Þetta er nákvæmlega sama lögmálið og í landbúnaðarmálunum, fjárhagsaðstoð við atvinnurekstur skal tekin með skatti á atvinnureksturinn. Bátaútvegurinn skal greiða 15 millj. kr. skatt á ári til togaraútgerðar.

Hv. þm. Jónas Pétursson, sem talaði í gær, tók að sér að túlka landbúnaðarstefnu stjórnarinnar, og hann talaði sannarlega út úr hjarta hæstv. landbrh. Hann hefur nýlega í þingræðu vítt framsóknarmenn fyrir að vera ekki búnir fyrir löngu að hækka vexti af ræktunarsjóðslánum bænda. Boðskapur hans í gær var þessi: Verðhækkanir á rekstrarvörum og lífsnauðsynjum bænda gera þeim ekkert til, 40% hækkun á rekstrarvörum, 50–80% á lífsnauðsynjum, 93% á vélum, 50 þús. kr. hækkun á einni dráttarvél, þetta er bara framlag þeirra til bættra lífskjara. Vaxtahækkunin á landbúnaðarlánunum er bara gróðavegur. En beztur af öllu er þó 1700 kr. launaskatturinn á meðalbónda. Hann verkar eins og segull, sagði hv. þm. Hann dregur til sín fjármagnið. Ja, þetta má kalla segulstefnu Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum. Ef bóndinn á Skriðuklaustri væri látinn borga 20% vexti og 3000 kr. launaskatt, þá mundi hann sjálfsagt græða, þá vantaði ekki segulmagnið.

Sami hv. þm. hældi stjórninni fyrir væntanlega endurskoðun vegalaga. Í þeim málum unnu stjórnarflokkarnir afrek um daginn. Þeir drápu frv. okkar framsóknarmanna um lántöku til vegagerðar á Vestfjörðum og Austurlandi, en þar eru vegasamgöngur verstar á öllu landinu. En hæstv. ríkisstj. tók í fyrra í heimildarleysi 10 millj. kr. lán til að byrja á steyptum vegi á milli Reykjavíkur og Keflavikur, samhliða öðrum vegi, sem þar liggur.

Hæstv. ráðherra Gunnar Thoroddsen, sem talaði hér í gær, lofsöng sjálfan sig fyrir skattalækkanir. Í fyrra lækkuðu stjórnarflokkarnir beina skatta þannig, að þegar láglaunamaður lækkaði um 900 kr., þá lækkaði hálaunamaðurinn um 30 000 kr. Og nú eru þeir að stórlækka skatta á gróðafélögum. En á móti þessari skattalækkun koma margfalt hærri söluskattar, sem leggjast á menn, ekki eftir tekjunum, heldur eftir fólksfjölda í fjölskyldunni, þannig að þeir borga mest, sem flesta hafa að fæða og klæða.

Kjörorð núverandi stjórnarflokka í síðustu alþingiskosningum voru þessi: Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa Sjálfstfl. Stöðvun verðbólgunnar án nýrra skatta. — Þetta voru fyrirheitin, sem þessir flokkar gáfu þjóðinni í kosningunum. Þetta voru loforðin, sem þeir hétu að efna, ef þjóðin veitti þeim aðstöðu til að fara með völd í landinu. Meiri hluti þjóðarinnar treysti þessum flokkum til að efna fyrirheitin. Fólkinu þótti loforðin góð og veitti flokkunum fylgi sitt til að fara með völdin. Þannig valdi meiri hluti þjóðarinnar „leiðina til bættra lífskjara“. Síðan eru liðin 21/2 ár. Á þessum árum hafa stjórnarflokkarnir verið að efna fyrirheitin um bættu lífskjörin og verðbólgustöðvunina.

Það fer að nálgast sá tími, að þeir, sem kusu þessa flokka, megi fara að þakka fyrir sig, þakka fyrir „bættu lífskjörin.” Það er einn af hornsteinum lýðræðisins að sýna þeim traust, sem gera vel, en hinum vantraust, sem gera illa. Og nú þurfa menn að gera það upp við sig, hversu mikið lífskjörin hafa batnað með „viðreisnarstefnunni“ og hvernig verðbólgan var stöðvuð.

Mælikvarði á lífskjör manna er fyrst og fremst sá, hvernig vinnutekjur mannsins duga fyrir lífsnauðsynjum fjölskyldunnar. Ef þær duga vel fyrir öllum nauðsynjunum eða eitthvað meira en það, segjum við, að fjölskyldan búi við fjárhagslega góð lífskjör. Annars eru þau að meira eða minna leyti bágborin. Ég skal nefna helztu aðferðirnar, sem stjórnarflokkarnir hafa haft til þess að bæta lífskjörin, eins og þeir orða það. Í ársbyrjun 1959 lækkuðu þeir öll laun manna til sjávar og sveita með lögum. Í ársbyrjun 1960 framkvæmdu þeir hina alkunnu gengislækkun. Með henni hækkuðu þeir verðlag á öllum innfluttum vörum um 50–80%. Samtímis gengislækkuninni lögðu þeir á nýja söluskatta, sem námu hundruðum milljóna króna. í ofanálag á þetta lögleiddu þeir stórkostlega vaxtahækkun, styttu lánstíma og drógu úr lánveitingum. Á jólaföstu 1960 hafði þessi „viðreisn“ sorfið svo að fólki, að ekki þótti viðhlítandi að una þessu lengur. Þá fóru forustumenn verkalýðssamtakanna á fund ríkisstj. og óskuðu þess, að hún færi nú að feta leiðina til bættra lífskjara án verkfalla. Þeir bentu meira að segja á, að lækkun verðlags á lífsnauðsynjum kæmi að sama gagni og kauphækkun. En hæstv. ríkisstj. kannaðist ekkert við þessa leið, og svör hennar urðu neitandi. Afleiðingarnar urðu svo verkföllin s.1. vor, sem stefndu síldarvertíðinni og ýmissi annarri framleiðslu í voða. Undir forustu samvinnumanna tókust loks samningar um mjög hóflega kauphækkun, svo að framleiðslunni var bjargað. Þá gripu stjórnarflokkarnir til þess ráðs, sem harðast mun verða dæmt af öllum þeim, er lýðfrelsi og réttlæti vilja í heiðri hafa, en það var gengislækkunin s.l. sumar, sem þurrkaði út kauphækkunina með nýjum verðhækkunum.

Ég hef nefnt hér dæmi um aðferðirnar, sem stjórnarflokkarnir beittu til þess að leiða þjóðina á braut bættra lífskjara. En hver er svo árangurinn? Hver eru lífskjörin sjálf, eins og þau eru nú? Eitt mikilsverðasta viðfangsefni unga fólksins, sem stofnar heimili, hvort sem er við sjó eða í sveit, er að eignast þak yfir höfuðið. Þetta er fyrsta og stærsta verkefni ungu hjónanna. Þessa framkvæmd telja þau hluta af hjúskaparvelgengni sinni, að geta búið sér og börnum sínum hæfileg og holl húsakynni til frambúðar. Til þess klífa þau þrítugan hamarinn, leggja á sig takmarkalitla aukavinnu og verja hverjum þeim eyri, sem unnt er, í bygginguna. Það er hins vegar siðferðileg skylda stjórnarvalda að létta hinni komandi kynslóð þetta viðfangsefni, m.a. með viðráðanlegum stofnlánum, hóflegum vöxtum og sanngjörnum innflutningsgjöldum á byggingarefni. En reynsla undanfarandi ára hefur orðið á annan veg, eins og skýrslur Hagstofu Íslands sýna um hækkun á byggingarkostnaði. Það má telja mjög hóflega íbúð, sem er um 320 rúmmetra að stærð. Samkvæmt hagskýrslum kostaði slik íbúð 375 þús. kr. í okt. 1958. Samkvæmt sömu skýrslum kostaði jafnstór íbúð 514 þús. kr. í febr. nú í vetur. Hún hefur því hækkað í verði um 139 þús. kr. á þessum þremur valdaárum stjórnarflokkanna. Byggingarsjóður ríkisins hefur lánað mest 100 þús. kr. út á íbúð. Það vantar þá 39 þús. kr. til þess, að lánið dugi fyrir viðreisnarhækkuninni. Og þótt nú sé heitið 150 þús. kr. láni, er lítill afgangur af því, þegar greidd hefur verið verðhækkunin. En hvaðan á svo unga fólkið, sem er að byggja, að taka hinn hluta byggingarkostnaðarins, þessar 364 þús. kr., sem á vantar? Á það að leggja þessa upphæð fram úr eigin vasa? Eða á það að leita eftir okurlánum? Það þarf ekki fremur vitnanna við. Févana menn byggja sér ekki íbúð með slíkum viðreisnarkjörum. Þeir eru dæmdir til að hverfa frá slíkum fyrirætlunum. Það er harkaleg meðferð á hinni vaxandi kynslóð, sem við ættum þó að láta í té það bezta, sem við eigum.

Einn af núv. hæstv. ráðherrum, hæstv. landbrh., deildi hart á vinstri stjórnina 1958 fyrir yfirfærslugjaldið, sem þá var á lagt. Hann taldi, að það mundi leiða til þess, að kornvörur, sem allir neyta, mundu hækka í verði allt upp í 15%. Svo varð þessi maður ráðherra. Lækkuðu þá ekki kornvörurnar í verði? Nei, þær hækkuðu, ekki um 15%, heldur um 87% eða nærri því eins mikið og landbúnaðarvélarnar. Þetta er hækkunin frá því í okt. 1958 þar til í jan. 1962. Líkt þessu hafa ýmsar aðrar nauðsynjar manna hækkað í verði.

Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega skrá yfir það, hvað þessar nauðsynjar kosta yfir árið hjá fjölskyldu, sem er 4.2 menn. Skráin í febr. s.l. lítur þannig út í stórum dráttum: Matvörur kosta nú um 30 þús., hiti og rafmagn 5300, fatnaður og álnavara 12900, ýmis vara og þjónusta 15600. Þessir kostnaðarliðir þessara nauðsynja eru þá 64 þús. kr. Þá er húsnæðiskostnaðurinn ekki tekinn hér með, en í Hagtíðindunum er hann miðaður við leigukjör í gömlum húsum. En þar sem hér er rætt um áhrif viðreisnarstefnunnar, verður að reikna húsnæðiskostnaðinn í samræmi við byggingarkostnaðinn, eins og hann er nú og ég hef nefnt. Þótt húseiganda tækist að leggja fram úr eigin vasa um 100 þús. kr. í íbúðarbyggingu, sem mörgum ungum manni yrði sannarlega erfitt, þá mundu skuldirnar á íbúðinni verða samt yfir 400 þús. kr. og meiri hluti þeirra til skamms tíma með háum vöxtum. Vextirnir einir af þessari upphæð yrðu þá um 34 þús. kr. yfir árið. En þá eru líka útgjöld þessarar 4 manna fjölskyldu til matvæla, ljóss og hita, fatnaðar, ýmiss konar vöru og þjónustu og til húsnæðis orðin um 98 þús. kr. Þó er enn ótalið skattar til ríkis og bæja, viðhald og opinber gjöld af íbúðinni og margt fleira. Ef ég áætla það aðeins 7 þús. kr. á ári, að frádregnum fjölskyldubótum, þá eru heildarútgjöld þessarar fjölskyldu orðin um 105 þús. kr. Ég hef þó ekki tekið með einn einasta eyri í afborganir af skuldum. Þó getur enginn haldið íbúðinni sinni, ef hann borgar ekki af skuldunum. En afborganirnar af fyrrnefndum byggingarskuldum mundu nema um 40 þús. kr. á ári, en mundu ekki lækka árlega vexti nema um rúmar 3 þús. Svona lítur þá dæmið út gjaldamegin hjá 4 manna fjölskyldu eftir þessi viðreisnarár. Hvernig er það þá hjá 6—8 manna fjölskyldu?

Ég kem þá að tekjunum, sem eiga að mæta þessum gjöldum. Tímakaup verkamanna í Reykjavík hefur hækkað frá því í okt. 1958 um 89 aura, eða árskaupið um 2136 kr., ef maðurinn vinnur 8 stundir á dag alla virka daga ársins. Og þá er árskaupið nú 54 576 kr. Með þessari upphæð á hann að greiða útgjöldin, sem eru um 105 þús. kr. Það vantar nærri helminginn eða um 50 þús. kr., ef hann hefur veitt sér þann munað að reyna að eignast þak yfir höfuðið. Þótt hann jafnvel búi í gömlu leiguhúsnæði, vantar hann samt 30–40 þús. kr., til þess að árstekjurnar dugi fyrir nauðsynjunum. Oft er til þess vitnað, að ýmsir verkamenn hafi hærra kaup en Dagsbrúnarmenn. Rétt er það, að sumir iðnaðarmenn hafa 3–5 kr. hærra tímakaup. En hvað dugir það til að brúa þetta stóra bil milli tekna og gjalda? Þá er einnig gripið til þess að segja, að menn geti unnið aukavinnu. Ja, hvert eiga þá bændur og bændasynir að sækja þá aukavinnu, en þeir eru undir þessu sama lögmáli viðreisnarstefnunnar?

Röksemdafærslan um aukavinnuna er hrein árás á hin óskráðu vökulög í landi. Og þó vinna menn aukavinnu, þeir sem eiga hennar kost, því að annars gætu þeir ekki séð fjölskyldum sínum farborða. En þótt verkamaður vinni aukavinnu 2 stundir á dag alla virka daga ársins, þá nægir það ekki hálfa leiðina til þess, að tekjurnar dugi fyrir gjöldunum.

Þau dæmi, sem ég hef nefnt, sanna það, að hvort sem það er verkamaður, bóndi, iðnaðarmaður, kennari, skrifstofumaður eða hver sem er, með lág eða miðlungslaun, þá duga honum ekki árslaunin fyrir lífsnauðsynjum sínum, sé hann fjölskyldumaður. Svona hefur hún reynzt, „leiðin til bættra lífskjara“. Þannig var verðbólgan stöðvuð án nýrra skatta. Svona var verðbólgunni komið fyrir kattarnef, eins og hæstv. viðskmrh. var að orða það áðan. Þannig er kjörum fólksins komið, sem hæstv. viðskmrh. sagði áðan að hefðu ekki versnað. En til þess eru vítin að varast þau. Lærifólkið hins vegar ekkert af reynslu þessara ára, en treysti kosningaloforðum þessara flokka í annað sinn, þá mun margur maðurinn reyna það, að efnahagsvandræði hans komast áreiðanlega í fastan farveg, eins og einn Alþýðuflokksþingmaðurinn sagði hér um daginn. — Góða nótt.