10.11.1961
Neðri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins taka það fram í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að þetta leyfi, sem varnarliðið hefði fengið til þess að gera sjónvarpsstöðina styrkari en nú, væri veitt í samráði við ríkisútvarpið, að það mál hefur aldrei komið fyrir útvarpsráð, þar sem ég á sæti, sem þó hefði verið eðlilegt, að það yrði borið undir það, og ég hef ekki heyrt um það fyrr en núna, að ríkisútvarpið hafi fjallað um þetta mál.

Ég verð að segja það, að mér finnst hér vera um talsvert alvarlegt mál að ræða og að þeir aðilar, sem um þetta mál hafa fjallað, hafi farið út fyrir verksvið sitt. Það má segja, að það hefði kannske ekki verið óeðlilegt að veita varnarliðinu leyfi til að reka sjónvarpsstöð eftirlitslaust, sem væri fyrst og fremst takmörkuð við Keflavíkurflugvöll og næsta nágrenni hans. En að veita því leyfi til svo sterkrar sjónvarpsstöðvar eins og nú virðist vera búið að veita leyfi til, sem nær til alls Faxaflóasvæðisins, án þess að nokkurt skilyrði sé fyrir því sett, hvernig þessi stöð verði rekin, tel ég að sé allt of langt gengið, því að það vita allir, sem eitthvað þekkja til mála, að ekkert áróðurstæki er nú áhrifameira en sjónvarp, og að veita einum erlendum aðila aðstöðu til að ráða hér sjónvarpssendingum, eins og honum þóknast, án nokkurs eftirlits og aðhalds frá innlendum aðila, álít ég að sé allt of langt gengið og hættulega langt gengið. Ég álít, að það væri hið minnsta, sem hefði átt að koma hér á móti, ef slíkt leyfi hefði verið veitt, að þá hefði íslenzkum aðilum, íslenzkum stjórnarvöldum verið veitt fullkomin aðstaða til að fylgjast með því, hverju væri sjónvarpað í þessu sjónvarpi. og ekki sízt strangt eftirlit með því, að það væri tryggt, að ekki væri komið hér fram óeðlilegum áróðri í þágu eins eða annars erlends aðila. Ég vildi því treysta því, ef hæstv, ríkisstj. treystir sér ekki til að taka þetta leyfi aftur eða endurskoða það, að þá verði a.m.k. sett þau skilyrði, að íslenzkir aðilar fengju að fylgjast með því, hverju væri sjónvarpað í þessu sjónvarpi, og eftirlit með því, að það væri ekki notað til óeðlilegs áróðurs.

Ég held, að það megi annars fullyrða, að ekkert sjálfstætt ríki hefur enn haft þann hátt á þessum málum í sambandi við sjónvarp að veita einum erlendum aðila svo að segja einkaleyfi eða einokunarrétt á því, hverju væri sjónvarpað í landinu, en það er raunverulega búið að gera það með því leyfi, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú veitt.

Ég verð að segja það og beina því sérstaklega til hæstv. menntmrh., að mér finnst það vera undarleg vinnubrögð, að svo leynilega skuli vera haldið á þessu máli, þar sem það er búið að fella úrskurð um það, að sjónvarp eigi að heyra undir ríkisútvarpið, að þá skuli þeir menn, sem eru kosnir til þess af Alþingi að fylgjast með þessum málum, vera fullkomlega sniðgengnir og fá ekkert um það að vita, fyrr en skýrt er frá því hér á Alþ., að ríkisútvarpið sé búið að veita þetta leyfi. Ég verð að átelja þau vinnubrögð alveg sérstaklega harðlega.