14.11.1961
Efri deild: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vildi mælast til þess, að hæstv. forseti gæti hlutazt til um, að hæstv. utanrrh. væri hér viðstaddur stutta stund. (Forseti: Eins og ég hef tjáð hv. þm., þá hef ég sagt hæstv. utanrrh. frá því, að hann hygðist biðja um orðið utan dagskrár, en hann tjáði mér, að hann þyrfti að vera viðstaddur umr. í Nd., sem hann hyggi verða í upphafi fundar. Hins vegar skal ég að ósk þm. biðja ritara um að láta utanrrh. vita. — Nú hefur ritarinn tjáð mér, að ráðherrann geti alls ekki komið á þessari stundu. Vill þm. hinkra við með fsp. eða halda henni fram, þrátt fyrir það?) Mér þætti þá betra að bíða, þangað til eftir næsta mál, ef hæstv. forseti gæti hlutazt til um, að ráðherra kæmi þá. (Forseti: Ég vil aðeins segja þm. það, áður en hann fer úr stólnum, að næsta mál mun verða tekið út af dagskrá, þannig að þetta munu vera fundarlok.) Þá sé ég ekki neina ástæðu til þess, að ég hætti við að segja það, sem ég þurfti að segja, en vona, að hæstv. forseti hlutist til um að flytja hæstv. ráðh. efnislega það, sem ég hef að segja, fyrst hann hefur ekki getað mætt hér í deildinni og gat ekki mætt í gær, þrátt fyrir það að ég fór fram á það og hæstv. forseti leitaði mjög eftir því, að hann mætti, en kom ekki hér í þinghúsið fyrr en í lok fundarins í gær.

Eins og mönnum er kunnugt, skýrðu flest dagblöðin í Reykjavík frá því s.l. sunnudag, að gerzt hefði allóhugnanlegur atburður suður á Keflavíkurflugvelli s.1. föstudagskvöld. Mér þótti ástæða til þess að spyrja hæstv. utanrrh. nokkurra spurninga og fá upplýsingar hjá honum um nokkur atriði þessu viðvíkjandi. En þar sem þess er ekki kostur, hef ég ekki önnur ráð en að flytja þetta mál í trausti þess, að hæstv. ráðh. geri, þótt síðar verði, einhverja grein fyrir málinu.

Í Alþýðublaðinu s.l. sunnudag, 12. nóv., er forsíðugrein með risafyrirsögn um atburð, sem gerðist á Keflavíkurflugvelli. Þessi forsíðugrein Alþýðublaðsins hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Dansleikur á vellinum. Ein fór í Steininn.“ Þetta er fyrirsögnin. „Landgönguliðar úr sjóher Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli héldu eins konar afmælishátíð í fyrrakvöld. Hafði hermönnunum í deildinni verið veitt undanþága og leyft að bjóða íslenzkum stúlkum á dansleikinn, sem haldinn var í tilefni hátíðarinnar. Nokkrir tugir stúlkna úr Reykjavík mættu á dansleiknum, sem endaði þannig, að a.m.k. ein stúlka var sett í fangageymslu lögreglunnar á vellinum.

Íslendingur, sem starfar á Keflavíkurflugvelli, hringdi til blaðsins í gær, og sagði hann, að íslenzkir starfsmenn á vellinum, er fylgdust með skemmtuninni og endalokum hennar, hefðu fyllzt viðbjóði á aðförunum. Lét hann blaðinu í té eftirfarandi upplýsingar:

Í fyrrakvöld komu um 50 stúlkur úr Reykjavík á hátíðina, sem einnig var sótt af stúlkum, er starfa á flugvellinum. Aldur þeirra var allt niður í 13 ár.

Dansleikurinn var haldinn í Viking Service Club, og áttu vegabréf stúlknanna að gilda til kl. eitt um nóttina. Þá var stór áætlunarbifreið höfð til taks fyrir framan klúbbinn, og átti hún að flytja stúlkurnar í bæinn. Tveir lögregluþjónar voru á staðnum til að fylgjast með því, að allt færi fram eins og skyldi.

Þegar skemmtuninni lauk, var erfitt að fylgjast með stúlkunum, og hurfu nokkrar þeirra út í myrkrið ásamt hermönnunum. Fáeinar stúlkur, sem voru of drukknar til að hlaupa í burtu, fóru upp í bílinn, en æsingurinn í þeim var svo mikill, að þær brutu 3–4 rúður í bifreiðinni.

Í fyrrinótt var svo verið að færa eina og eina stúlku út af vellinum, og voru nokkrar þeirra illa til hafðar, eins og þær hefðu lent í einhverjum átökum. Deildin, sem hátíðina hélt, er landgönguliðadeild.

Alþýðublaðið ræddi í gær við fulltrúa lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli og spurðist fyrir um þetta mál.

Sagði hann, að um 20–30 stútkur hefðu fengið sérstaka undanþágu til að sækja hóf þetta. Þó hefði verið vandlega fylgzt með því, að þær væru orðnar 18 ára. Ef yngri stúlkur hefðu verið þarna. væri það ekki sök lögreglunnar.

Ekki taldi hann, að nein ólæti hefðu átt sér stað að skemmtuninni lokinni, og hefði lögreglunni aðeins borizt ein skýrsla um stúlku, sem setja varð inn vegna ölvunar. Var hún eitthvað blá og marin í framan og gleraugu hennar brotin. Af hvaða sökum það var, vissi hann ekki, en taldi, að það hefði orðið vegna ölæðis hennar.

Ekki vissi hann um, að neinar stúlkur hefðu verið fluttar út af vellinum seinna um nóttina, og ekki heldur, hve margar fóru með áætlunarbitnum í bæinn.“

Þetta eru orð Alþýðublaðsins, sem það hefur eftir fréttamanni sínum á Keflavíkurflugvelli. Þarna segir fréttamaðurinn, að íslenzkir starfsmenn á flugvellinum hafi fylgzt með skemmtuninni og endalokum hennar og að þeir hafi fyllzt viðbjóði. Hann segir, að 50 stúlkur úr Reykjavík hafi sótt þessa samkomu, en auk þess Þær stúlkur, sem starfa á Keflavíkurflugvelli, svo að það lítur út fyrir, að landgönguliðunum hafi tekizt sæmilega vel til um að verða sér úti um dömur. Þá segir þessi fréttamaður í Alþýðublaðinu, að stúlkurnar hafi haft vegabréf til að dvelja til kl. eitt á þessari hátíð, en þegar þær áttu að fara í bæinn með bifreið, sem þar var til staðar, þá varð minna úr för þeirra í bæinn. Hurfu nokkrar þeirra út í myrkrið með hermönnunum. Fáeinar stúlkur, sem voru of drukknar til að hlaupa í burtu, fóru upp í bílinn og brutu þar rúður. Loks segir þessi fréttamaður í Alþýðublaðinu, að ein og ein af þeim stúlkum, sem hlupu út í myrkrið með hermönnunum, hafi verið færð út af vellinum síðar um nóttina, og hafi verið illa til hafðar, eins og þær hefðu lent í átökum.

Öll er þessi lýsing svo greinileg, að ætla mætti, að áhorfendur segðu hér frá. Alþýðublaðið talaði við fulltrúa lögreglustjórans um þetta mál, en það kemur ekki fram, að hann hafi verið þarna viðstaddur, þó að hann skýri að sjálfsögðu frá því, sem hann veit. Hann telur, að stúlkurnar hafi ekki verið svona margar, en 20 —30. Hann veit það auðsjáanlega ekki nákvæmar en það. Hann segir, að vandlega hafi verið fylgzt með því, að ekki væru yngri stúlkur þarna en 18 ára, en bætir við: En hafi þær verið yngri, þá er það ekki sök lögreglunnar. Hann segir, að það hafi ekki verið ólæti þarna, að skemmtuninni lokinni, en þó hafi lögreglan orðið að setja eina stúlkuna í tukthús, en hún var marin og blá í framan og með brotin gleraugu. Ekki vissi þessi fulltrúi lögreglustjórans um það, að stúlkur hefðu verið færðar út af vellinum ein og ein síðar um nóttina, en hann vissi ekki heldur, hve margar fóru með bifreiðinni í bæinn. Og allar áttu þær að sjálfsögðu að fara út af vellinum með þessari bifreið, eins og vegabréf þeirra sögðu til um.

Það, sem er sameiginlegt í frásögn þessara tveggja manna, fréttamanns Alþýðublaðsins og fulltrúa lögreglustjórans, eru eftirfarandi atriði, að því er mér virðist: Í fyrsta lagi: Nokkrir tugir af íslenzkum stúlkum úr Reykjavík fá leyfi stjórnarvaldanna, sem mun vera utanrrn., til að sækja einhvers konar afmælishátíð landgönguliðs Bandaríkjasjóhers á Keflavíkurflugvelli. Í öðru lagi, að ölvun hefur orðið í svo ríkum mæli, að íslenzk stúlka er sett í fangelsi. Og í þriðja lagi, að komið hefur a.m.k. til þeirra átaka, að ein stúlka er blá og marin eftir. Ég vil auk þess benda á, að fréttamaðurinn segir, að sumar stúlkurnar hafi verið allt niður í 13 ára gamlar.

Ég býst við, að flestum hrjósi hugur við að lesa þessa lýsingu Alþýðublaðsins á því skemmtanalífi íslenzkra æskukvenna, sem utanrrn. veitir leyfi til að sækja á Keflavíkurflugvelli. Það má minna á það í þessu sambandi, að fjöldi æskukvenna hér í Reykjavík er víðs fjarri heimilum sínum og foreldrum og því aðhaldi og þeirri handleiðslu, sem foreldrar geta veitt þeim, þar sem þær dveljast hér um stundarsakir við nám eða í atvinnu. Og það má nærri geta um slíkar unglingsstúlkur, ef þær eru nú allt niður í 13 ára gamlar, í hvaða hættu þær eru fyrri ginniboðum landgönguliðs Bandaríkjasjóhers á Keflavíkurflugvelli, eins og hér hefur verið skýrt frá.

Hér virðist enginn vera til andsvara um þetta mál, svo að hér þýðir ekki að spyrja um neitt. En ég vil þó ljúka máli mínu með því, að það er vægast sagt krafa fjölda manna í þessu landi, að slíkt geti ekki endurtekið sig eins og nú hefur átt sér stað þarna syðra. Jafnvel þótt eitthvað beri á milli í frásögnum, þá er svo margt sameiginlegt þeim frásögnum, sem fram eru komnar, að hér er alvara á ferðum. Ég tel það skýlausa kröfu allra heiðvirðra manna, að þetta mál verði rannsakað og að niðurstöður þeirrar rannsóknar verði birtar opinberlega, en umfram allt, að stjórnarvöldin hætti að veita leyfi íslenzkum æskulýð til þess að sækja skemmtanalíf af þessu tagi. Og ekki virðast horfurnar batna, þegar það hefur nú gerzt, að utanrrn. hefur leyft fimmfalda stækkun á sjónvarpsstöð þessa herliðs, en það sjónvarp er ekki í þágu hermannanna, — það sjá allir, heldur til þess að geta náð til Íslendinga. Og ef slík sjónvarpsstöð verður kannske notuð í svipaða þágu og það boð, sem hinum ungu íslenzku stúlkum var sent með tilstyrk utanrrn., þá er uggvænlegt fram undan í þessum atriðum uppeldismálanna í landinu.