24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í morgun birtist í blaði Alþb., Þjóðviljanum, grein með fyrirsögninni „vestur-þýzkar herstöðvar á Íslandi“. Í upphafi þessarar greinar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðviljinn hefur örugga vitneskju um það, að vestur-þýzk stjórnarvöld hafi leitað fyrir sér um það, að þau fái aðstöðu til herstöðva og heræfinga á Íslandi. Hér er enn sem komið er aðeins um áþreifingar að ræða, og hefur verið sérstaklega rætt við Guðmund Í. Guðmundsson utanríkisráðherra og nokkra valdamenn aðra. Hins vegar mun engin formleg beiðni hafa borizt enn og ólíklegt, að hún berist, nema Vestur-Þjóðverjar telji sig örugga um jákvæðar undirtektir.“

Ég les ekki lengra úr þessari grein.

Það hefur ekki verið venja mín að eltast við og mótmæla, þó að ósannar og rangar fullyrðingar kæmu í þessu blaði. En bæði sjálf frásögnin, sem hér er á ferðinni, og eins sá tilgangur, sem virðist liggja á bak við hana, er með stikum endemum, að ekki verður komizt hjá að mótmæla þessari frásögn og víkja að henni nokkrum orðum.

Það er fullyrt í upphafi greinarinnar, að Þjóðviljinn hafi örugga vitneskju um það, að vesturþýzk stjórnarvöld hafi leitað fyrir sér um það, að þau fái aðstöðu til herstöðva og heræfinga á Íslandi. Þessi fullyrðing er ósönn og tilefnislaus með öllu. Hvorki vestur-þýzk stjórnarvöld né neinir aðrir hafa leitað fyrir sér um það, að Þjóðverjar fengju aðstöðu til herstöðva eða heræfinga við Ísland. Það, sem blaðið segir um þetta, er þess vegna með öllu rangt og án hins minnsta tilefnis. Þá segir í greininni, að hér sé enn sem komið er aðeins um áþreifingar að ræða og hefur verið sérstaklega rætt við Guðmund Í. Guðmundsson utanrrh. og nokkra valdamenn aðra. Einnig þetta er ósatt og gersamlega tilefnislaust. Það hefur hvorki verið rætt við mig né neina aðra íslenzka valdamenn um það, að Þjóðverjar fengju hér neina aðstöðu. Allt, sem Þjóðviljinn segir um þetta, bæði hér í fyrirsögninni og það, sem síðar er sagt í greininni, er því ósannindi frá upphafi.

Þjóðviljinn segist hafa fyrir þessu örugga vitneskju. Ég er sannfærður um, að hér getur ekki verið um annað að ræða en það, að ritstjórn Þjóðviljans hefur sjálf logið sögunni upp. Ekkert slíkt, sem talað er um í Þjóðviljagreininni, hefur komið til mála. Og það er í fyrsta skipti, sem ég heyri Þjóðverja nefnda í sambandi við herstöðvar á Íslandi, það er í þessari Þjóðviljagrein í dag.

Menn hljóta nú að spyrja og furða sig á: Hver getur verið hin raunverulega ástæða fyrir því, að ritstjórn Þjóðviljans tekur það upp hjá sér að ljúga upp annarri eins sögu og hér er búin til? Og ef við lítum á ástandið í heimsmálunum, eins og það er í dag, þá virðist skýringin vera ærið nærtæk. Það eru ekki nema fáir dagar síðan ríkisstjórn Sovétríkjanna sneri sér til Finnlands með kröfu um, að Finnar tækju upp viðræður við sovétstjórnina um sameiginlegar varnaraðgerðir og hernaðaraðstöðu fyrir Sovétríkin í Finnlandi. Sem ástæðu fyrir þessari kröfu sinni færði ríkisstjórn Sovétríkjanna það, að Sovétríkin væru í yfirvofandi hættu vegna árásar erlends ríkis. Arásaraðilinn átti að vera Vestur-Þýzkaland, og jafnvel var í því sambandi talað um Noreg og Danmörku vegna þátttöku þeirra í Atlantshafsbandalaginu. Meðal raka fyrir því, að Vestur-Þýzkaland hygði á árás á Sovétríkin, var það tilfært, að að undanförnu hefðu farið fram viðræður á milli Vestur-Þjóðverja og Dana um aðild Vestur-Þjóðverja að yfirstjórn Eystrasaltsflota Dana. Þessar viðræður voru taldar færa a.m.k. Ifkur, ef ekki sannanir fyrir því, að Vestur-Þýzkaland hygði á árás á Sovétríkin. Síðar var því einnig bætt við af hálfu Sovétríkjanna sem frekari sönnun fyrir árásarfyrirætlunum Vestur-Þýzkalands, að landvarnaráðherra Vestur-Þýzkalands hafði verið í opinberri heimsókn í Osló, heimsókn, sem þó hafði verið ráðgerð fyrir löngu.

Ég þarf ekki að fara að ræða um það hér, hversu fráleitar og tilefnislausar þessar getsakir og ásakanir í garð bæði Noregs, Danmerkur og Vestur-Þýzkalands eru. Það ætti að vera óþarfi að gera það hér. En hinu hafa menn sjálfsagt veitt athygli, að í morgun, um sama leyti og Þjóðviljinn er að koma út, voru að hefjast viðræður á milli Kekkonens, forseta Finnlands, og Krúsjeffs, forsætisráðherra Sovétríkjanna, vegna kröfu Rússa um hernaðaraðgerðir, varnaraðgerðir, sameiginlegar varnaraðgerðir af hálfu Finna og Rússa. Á sama tíma, sem þessir tveir menn eru að hefja sinar viðræður út af kröfum Rússa gegn Finnum, er Þjóðviljinn að búa til og útbreiða til afnota þá sögu, að Íslendingar standi í viðræðum um það að veita Þjóðverjum hér sérstaka hernaðaraðstoð.

Við minnumst þess, að Þjóðviljinn hefur oft haldið því fram, að það væri ógnun við Sovétríkin og tilefni til afskipta Sovétríkjanna af okkar málum, að við værum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og að hér væri bandarfskur her. Þetta hefur Þjóðviljinn og kommúnistarnir á Íslandi talið að gæti verið tilefni til þess, að Sovétríkin hafa borið sínar kröfur fram á hendur Finnum. Nú bætist það við, að Þjóðviljinn býr til þá sögu, að sá aðilinn, sem Rússar telja sér hættulegastan, Vestur-Þýzkaland, sé í samningum við ríkisstj. Íslands um að fá hér hernaðaraðstoð. Við Íslendingar vonum að sjálfsögðu, að Finnum og Rússum megi takast að leiða sin vandamál til lykta á vinsamlegan og friðsamlegan hátt, og umfram allt viljum við Íslendingar ekki blanda okkur í þeirra mál. Það er þessara tveggja þjóða að ráða fram úr því. En allir Íslendingar hljóta að fordæma það níðingsverk, sem Þjóðviljinn er að vinna hér á örlagastundu finnsku þjóðarinnar, þegar hann lýgur upp jafnógeðfelldri sögu og hér er fram sett.

Ég vil nota þetta tækifæri, um leið og ég lýsi frásögn Þjóðviljans algerlega ósanna, til þess að fordæma og lýsa viðbjóði mínum á því framferði, sem Þjóðviljinn hefur hér viðhaft.